Ég hef verið ógurlega latur við að blogga undanfarið. Ég gæti afsakað mig með því að ég haft svo mikið að gera (sem er ekki langt frá sannleikanum), að mér hafi ekki dottið neitt í hug að skrifa um (sem er aðeins lengra frá sannleikanum) eða að hugsun mín hafi verið svo djúp og íhugul að ég hafi ekki viljað smána mínar háleitu vangaveltur með því að færa þær í rituð orð sem væru háð hverfulleika alnetsins (sem eins langt frá sannleikanum og hægt er að hugsa sér). Hið rétta í málinu er að ég er búinn að vera latur.
Ég hef haft mig í það sem ég hef þurft að gera, sinna vinnunni, fundarsetum, matseld o.s.frv. en ekki vitund meir en það. Til að vega upp á móti þessu stefni ég að því að blogga 20 sinnum um helgina og telst þetta fyrsta færsla.