Ég get eiginlega ekki gert það upp við mig hvort útlit sé fyrir að prófkjör Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi verði spennandi eða ekki. Líklegast þykir mér að Guðni sigri með miklum yfirburðum, Bjarni verði í öðru sæti og að Hjálmar hrynji niður listann. Aðallega vegna þess að hann hlýtur að hafa fengið stóran hluta atkvæða þeirra sem kusu Guðna í 1. sæti síðast en fær hann ekki núna en líka vegna þess að ég get bara ekki ímyndað mér að nokkur heilvita maður kjósi Hjálmar írnason.
Það er einmitt ástæðan fyrir því að þetta gæti verið spennandi því þarna er náttúrulega um Framsóknarmenn að ræða og vegir þeirra eru órannsakanlegir, t.d. í ljósi þess hver varð fyrir valinu sem formaður þeirra. Er flokkseigendavaldið það mikið að Jóni Sig. og öðrum erindrekum fyrrverandi formanns takist að hrekja Guðna frá? Einhvern vegin tókst þeim að koma í veg fyrir að hann byði sig fram til formanns svo það er óvarlegt að draga áhrif þeirra í efa. Hins vegar væri gott fyrir Framsóknarmenn að íhuga hver staða þeirra væri nú hefði Guðni verið kjörinn formaður og Jón Sig. væri enn óþekktur baktjaldamaður úti í bæ. Hún gæti a.m.k. ekki verið verri.
Annars get ég trútt um talað (gaman væri að vita hvaða trútt þetta er sem menn geta talað um) þar sem uppstillingar minna flokksmanna, a.m.k. hér í Norð-Austurkjördæmi, er líklega álíka vitlaus og að setja Hjálmar írnason í efsta sæti. Ég spái því að útkoma Samfylkingarinnar hér í þessu kjördæmi verði í réttu hlutfalli við róttæka endurnýjun framboðslistans frá því fyrir fjórum árum.
Annars fá and- virkjunar- og stóriðjusinnar varla mikið fylgi í þessum landshluta þó svo Steingrímur J. hali væntanlega inn sitt persónufylgi, samfylkingin og Framsókn eru ókjósanlegir eins og málin standa og Frjálslyndir hafa ekki þótt spennandi hér og verða það varla í næstu kosningum. Hins vegar er umdeildur bæjarstjóri Akureyringa í efsta sæti hjá Sjálfstæðismönnum og hann á væntanlega eftir að sópa að sér fylgi fólks sem hrífst af svona karakterum. Ég spái Sjálfstæðisflokknum stórsigri hér í kjördæminu, VG heldur sínu en aðrir tapa stórt. Það er samt spurning hversu miklu fylgi Samfylkingin getur tapað í ljósi þess hve hörmulega henni tókst upp síðast.
Hins vegar hefur allur kraftur Samfylkingarinnar á Akureyri beinst að því að hlaða undir Sjálfstæðisflokkinn en draga úr eigin fylgi og trúverðugleika þannig að það litla fylgi sem flokkurinn hafði er líklega horfið núna. (12) Núna er ég búinn að taka ómálefnalegu dylgjurnar út. Þær fengu þó að standa í u.þ.b. tvo klukkutíma og það er spurning hvort einhver hafi náð að lesa þær á þeim tíma.