Þá er komið að því að blogga um síðustu lögin í undankeppninni. Mig langar að segja að sem dönskukennari er ég mjög ánægður með Danann í þáttunum því hann talar mjög skýrt. En lítum þá á lögin:
1. Malta – Vertigo. Þetta er voðalega skrýtið lag. Það er ekki hægt að segja að það sé vont en gott er það ekki. Myndbandið var svo álíka skrýtið og lagið og atriðið í lokin þar sem kom í ljós að gaurinn var dáinn var mjög klént. Ég gef þessu 2.
2. Andorra – Let’s Save the World. Það er að sjálfssögðu mjög góð hugsjón. Lagið er svona brettagaura-rokk og ágætt sem slíkt en ekki vottur af frumleika í því. Avril Lavigne gerir þetta mikið betur. Strákarnir eru hins vegar mjög sætir og katalónskan er flott. Þeir syngja bæði á henni og ensku og það er ekki fyrr en enski kaflinn kemur að maður áttar sig á því að lagið er bara alls ekkert gott. Ég gef þessu 2.
3. Ungverjaland – Unsubstansial Blues. Það er gaman að heyra blúslag í Eurovision og söngkonan syngur mjög vel. Myndbandið var líka mjög flott en þó kom aldrei nein útskýring í því afhverju hún var að slást við gaurinn. Vandinn er sá að þetta lag er ekki eftirminnilegt og persónulega finnst mér að Eurovison snúist frekar um fjör og grín en blús. Ég gef þessu 3.
4. Eistland – Partners in Crime. Þetta er hins vegar mjög fínt lag. Það er grípandi og viðlagið festist strax við fyrstu hlustun. Verst að söngkonan getur ekki borið fram orð eins og partners, years, rains o.s.frv. Austur-evrópskur hreimur á enskunni er hins vegar bara krúttlegur og allt í lagi með það. Myndbandið var slæmt og ég vona að þau verði flottari í keppninni sjálfri. Ég gef þessu 4.
5. Belgía – Love Power. Það er gaman að sjá svona diskólag í keppninni. Lúkkið á þessu var alveg frábært. Söngvarinn minnti gófirlega á John Travolta í Saturday Night Fever. Stemmingin var svona Bee Gee’s og Jackson Five blanda. Viðlagið rosalega grípandi og maður gat ekki annað en komist í gott skap við að horfa á þetta. Ég gef þessu 5.
6. Slóvenía – Cvet z juga. Rosalega var þetta skrýtið. Söngkonan svo sem ekkert ómyndarleg en samt ekki manneskjan sem mér myndi fyrst detta í hug að setja í svona myndband. Sú póslka og sú makedóníska eru mun betri kandídatar í það. Hún syngur samt vel en lagið er voðalega leiðinlegt. Kjóllinn í lokaatriðinu sem náði lagt upp á veggi var hins vega skemmtilegur. Ég gef þessu 1.
7. Tyrkland – Shake it up Sekerim. Þetta lag er gott dæmi um alþjóðavæðinguna. Fyrir utan nokkur tyrknesk stef í upphafi og lokin gæti þetta lag verið með hvaða nýstirni á MTV sem er. Ef maður sér ekki gaurinn sem syngur þetta þá hefði maður haldið að þetta lag væri með Justin Timberlake. Þetta lag er hins vegar þannig að það gæti alveg lifað eftir þessa keppni og orðið vinsælt á skemmtistöðum. Þegar gaurinn ver að syngja um að hann hafi: „Lots of candy to make you mine,“ þá fær maður á tilfinninguna að þetta sé einhver barnaperri. Flott lag samt. Ég gef þessu 4.
8. Austurríki – Get Alive (Get a Live?). Fínn rokkari, vel sungið en grípur ekki. Ég var lengi að velta því fyrir mér hvað þessi risastóri AIDS-borði var að gera þarna á bakvið hann þangað til sænski kynnirinn sagði að þetta hefði verið eitthvað styrktarátak í Austurríki. Þá fór sá norski eitthvað að væla um það að Eurovision ættu ekki að vera eitthvað góðgerðarátak. Afhverju ekki? Er keppnin svona merkileg (eða ómerkileg) að hún megi ekki tengjast átaki gegn eyðni? Annars hef ég ekki mikið um þetta lag að segja. Ég gef því 2.
9. Lettland – Questa Notte. Þetta er eina lagið í keppninni sem er sungið á ítölsku. í fyrra var það Rúmenía sem hélt heiðri þess tungumáls í heiðri en ítalir sjálfir hafa ekki verið með í óratíma. Það finnst mér leiðinlegt þar sem þeir sendu yfirleitt bestu lögin, auk þess sem rekja má uppruna Eurovison til ítalíu. Hugmyndin á bakvið þetta lag er mjög skemmtileg, þ.e. að senda óperulag í keppnina sem hefur enga laglínu og er bara show. Það væri mjög gott ef showið væri gott en það er margt að. Flytjendurnir geta fæstið sungið, þeir hafa ákaflega vondan framburð á ítölskunni, þeir eru líflausir á sviðinu og showið er ekki neitt. Lettar hafa verið óhræddir við að senda öðruvísi atriði í keppnina, sbr. undirspilslausa lagið í fyrra. Þetta er hins vegar bara vont þó svo að þeir gætu grætt eitthvað á því að vera síðastir og öðruvísi. Ég gef þessu 0.
Þá er þessu lokið. Seinna í dag eða á morgun ætla ég svo að taka saman stigin sem ég hef gefið og spá fyrir um hvaða lönd komast í úrslitin. (Vink, vink)