Mikið er nú skemmtilegt og gaman í dag. T.d. þá fóru tvær stúlkur, þær Hrafnhildur Hjaltadóttir og Alfífa Ketilsdóttir, og kærðu bókaverslun í borginni fyrir sölu og dreifingu á klámi. Þarna er um mjög gott framtak að ræða þó ekki væri til annars en að vekja athygli á því hvað íslensk lög um þessa hluti eru fáránleg. Hvað mig varðar finnst mér allt í lagi að framleiða og selja klám svo framarlega sem allir sem hlut eiga að máli séu fullorðnir og sjálfráða (t.d. ekki þrælar o.þ.h.), líka ef klámi er ekki stillt upp eða selt þar sem það er aðgengilegt börnum og unglingum. Ég held að þeir sem eru að berjast gegn klámvæðingu samfélagsins ættu frekar að hafa áhyggjur af myndböndum og auglýsingum en klámblöðum uppi í efstu hillu í skúmaskotum bókaverslana þar sem frakkaklæddir dónakallar eru þeir einu sem skoða þau. Hvað er til dæmis að foreldrum sem klæða dætur sínar, jafnvel á leikskólaaldri, eins og hórur?!? Svo ætla ég líka að koma upp um fordóma sjálfs míns. Því það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las þetta nafn: Alfífa, var svona einhver Darma týpa, alin upp af hippaforeldrum sínum í einhverri kommúnu þar sem allt var mjög umhverfisvænt og endurnýtt. „Greyið stelpan var dæmd frá fæðingu til að taka þátt í hugsjónamálum, mótmælafundum og innhverfri íhugun,“ hugsaði ég með mér. „Það hefði verið afrek fyrir hana að forðast þau örlög að mótmæla klámvæðingunni á Íslandi!“ Svona er ég nú fordómafullur.
Svo eru allir að brjálast út af þessum ríkisráðsfundi sem Ólafur var ekki á. Ég skil nú Ólaf ósköp vel. Ekki var Hannes Hafstein maður sem ég vildi bendla nafn mitt við opinberlega. Sjálfstæðisbarátta Íslendinga var í hnút þangað til Valtýr Guðmundsson kom til sögunnar og leysti þann hnút með því að semja við dönsk stjórnvöld um Íslandsráðherra sem væri bundinn Alþingi. Hannes og fylgdarsveinar ákváðu strax að berjast fyrir því að þessi ráðherra hefði aðsetur á Íslandi sem var vita vonlaust miðað við stöðuna á þeim tíma og Valtýr sá að með þvílíkum kröfum yrði samningurinn um ráðherrann úr sögunni og sjálfstæðisbarráttan í sama feninu og áður. Það var síðan aðeins fyrir undarlega slembilukku að í kosningum í Danmörku komust menn til valda sem tóku vel í þessa hugmynd og gerðu Hannes að ráðherra. Annars væri hans minnst í Íslandssögunni sem mannsins sem eyðilagði einu raunhæfu tilraunina í átt til sjálfstæðis á sínum tíma. Það er svo önnur saga af hverju Hannes var gerður að ráðherra en ekki Valtýr. Sú saga hefur gengið fjöllum hærra að Hannes hafi sigrað Valtýr með glæsimennskunni en báðir fóru þeir utan til að láta skipa sig í embættið. Líklegri söguskýring er sú að allir samningarnir sem Hannes var tilbúinn að gera við Dani hafi haft úrslitaáhrif (t.d. samningurinn þar sem hann samþykkti 90 ára einokun Stóra Norræna Símafélagsins á öllum fjarskiptum við Ísland. Samningur sem íslenskir bændur mótmæltu hástöfum því þeir vildu gera samning við Marconi fyrirtækið um loftskeytafjarskipti í staðinn en fengu háð fyrir að mótmæla „símanum“). Hannes er því sá stjórnmálamaður sem setti mælikvarðann fyrir þá sem eftir fylgdu, þ.e. að eðlilegt sé að svíkja allt, lofa öllu og skrifa undir hvað sem er til þess að öðlast völd. Lái svo Ólafi hver sem vill að vilja ekki taka þátt í hátíðarhöldum til að heiðra þennan mann. Enda er Ólafur stjórnmálafræðingur og veit því sannleikann um Hannes sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið duglegur við að reyna að fela. Ég hins vegar nefndi annan son minn í höfuðið á Valtý Guðmundssyni sem er mun meiri hetja þessa lands en Hannes nokkurn tímann. Hvar eru stytturnar af honum?
Að lokum ein kjaftasaga af Hannesi Hafstein sem ég veit ekki hvort er sönn eða ekki. Hana sagði mér þó góður og gegn sjálfstæðismaður sem nú er þingmaður. Þegar Hannes var sýslumaður á ísafirði mun hann hafa ákveðið að róa út til bresks skips til að stöðva ólöglegar veiðar. Sagan hermir að Bretarnir hafi velt árabátnum sem Hannes var í og drekkt ræðaranum. Hannes komst hins vegar upp í skip Bretanna og stöðvaði veiðarnar. Af þessu afreki á Hannes að hafa stært sig á síðari árum. Hins vegar vakna upp margar spurningar við að heyra þessa sögu, t.d. Af hverju hvolfdi árabátnum? Flæktist hann í neti? Var vont veður? Eða voru Bretarnir svo vondir að þeir hvolfdu honum af ásettu ráði? Af hverju voru þeir þá að bjarga Hannesi? Hvernig sem á þessa sögu er litið er ekki hægt að álykta annað en eftirfarandi: Hannes ákveður í stórmennskubrjálæði að róa við annan mann út á ísafjarðardjúp (hugsanlega í vondu veðri) til að stöðva ólöglegar veiðar. Bretarnir eru líklega að draga netin og báturinn flækist í þeim og hvolfir. Kannski var það vegna kjölsogs eða annars. Skipverjar ná að bjarga Hannesi úr sjónum en því miður ferst hinn maðurinn. Þegar þeir eru búnir að draga netin skutla þeir svo Hannesi í land og halda svo heim á leið. Hannes hins vegar miklast af heimskupörum sem kostuðu annann mann lífið.
Legg ég svo til að Íslendingar hætti að heiðra þennan mann en taki upp á því að halda fæðingardag Valtýs Guðmundssonar hátíðlegan. (11. mars 1860)