Núna er komið í ljós að allir banka- og viðskiptamennirnir á ofulaununum reyndust óhæfir til að sinna sínum verkefnum. Laun bankastjóra Seðlabankans voru hækkuð til að þau væru samkeppnishæf því annars væri hætta á að missa „hæft“ fólk yfir til einkabankanna. Við vitum hversu hæfir þessir bankastjórar voru. í raun virðist niðurstaðan vera sú að því hærri laun sem einhver fær því líklegra er að viðkomandi sé óhæfur til að gegna starfi sínu. Gæti það stafað af því að þeir eru að sækja í launin en hafa ekki hundsvit á því hvað þeir eru að gera.
Þegar ég hugsa um fólk sem er vel hæft til að sinna sínum störfum og er í störfum sem er mikilvægt að fá gott fólk í detta mér í hug sjúkraflutningamenn, slökkviliðsmenn, leikskólakennarar, grunnskólakennarar, hjúkrunarfræðingar, lögreglumenn (þegar þeir eru að sinna eðlilegum skyldustörfum en ekki vera varðhundar valdsins). Allt stéttir sem eru ekki á himinháum launum. í þessi störf leitar fólk þá væntanlega af öðrum ástæðum en þeim að launin freisti. Reyndar eru læknar yfirleitt vel launaðir en á móti kemur að björgunarsveitarmenn eru sjálfboðaliðar.
Ég fór að velta þessu fyrir mér því megin „röksemdin“ fyrir ofurlaununum og háum launum almennt (það má deila um hvað eru ofurlaun) er sú að störfin séu svo mikilvæg og það sé nauðsynlegt að laða að hæfasta fólkið. Ég held að há laun laði ekki að hæfasta fólkið heldur gráðugasta fólkið sem er þá um leið vanhæfasta fólkið. Þess vegna geld ég miklum varhug við hugmyndum um að hækka laun Alþingismanna, að bankastjórar verði að vera með eina og hálfa milljón í laun á mánuði, að forsætisráðherra þurfi að vera á sjö- eða áttföldum launum sjúkraliða.
Setjum lög um hámarkslaun hjá hinu opinbera (t.d. ein milljón eða ferföld lægstu laun) og þá er ég viss um að við fáum hæfari stjórnmálamenn og stjórnendur en með hinni leiðinni, að hækka launin.
Há laun og ofurlaun er ávísun á spillingu, grægi og vanhæfni.