Nú verða víst allir að tjá sig um Kaupþingsmálið nýja. B.t.w. skýrsluna má finna hér. Ég hvet sem flesta til að vista hana í tölvurnar hjá sér, annað hvort héðan eða af Wikileaks, bara til að þetta sé til sem víðast.
Auðvitað hef ég svo sömu skoðun á þessu og allir aðrir, þ.e. að þetta sé gjörsamlega siðlaust og alvarlegur dómgreindarbrestur hjá skilanefnd gamla Kaupþings og stjórn nýja Kaupþings að fara fram á lögbann. Líka alvarlegur dómgreindarbrestur hjá sýslumanni að fallast á þessa lögbannskröfu, enda maðurinn vanhæfur vegna tengsla sona hans við Kaupþing.
Það er þess vegna ekki það sem ég ætla að segja í þessu bloggi, þ.e. það sem allir eru að segja hvort sem er, heldur hitt að mér finnst ósanngjarnt að ráðast á ríkisstjórnina vegna þessa máls. Það var ekki ríkisstjórnin sem hélt þessum gögnum leyndum, það var ekki ríkisstjórnin sem fór fram á lögbannið og það var ekki ríkisstjórnin sem veitt það. Að öllum líkum var ríkisstjórnin að frétta af þessu á sama tíma og við hin og ef svo er þá er það alvarlegt. Það bendir til þess að stjórn nýja Kaupþings haldi mikilvægum upplýsingum leyndum fyrir eigendum sínum (almenningi) og fulltrúum þeirra (ríkisstjórninni).
Ég sé ekki að ríkisstjórnin eigi annars úrkosta en að reka stjórn nýja Kaupþings í kjölfarið! E.t.v. væri líka rétt að skipa nýja skilanefnd fyrir gamla Kaupþing og án alls vafa þarf að endurrskoða lög um bankaleynd! Ég reyndar efast um að ríkisstjórnin geri neitt af þessu, enda álit mitt á stjórnmálamönnum horfið.
Ég myndi hætta viðskiptum við Kaupþing ef einhver væru.
Svo legg ég til að Hrannar B. Arnarsson segi af sér sem aðstoðarmaður forsætisráðherra.