Núna veður Magma-málið uppi og allir hafa mjög sterkar skoðanir. Samfylkingin svíkur hugsjónir sínar fyrir peninga eins og vanalega. Ekkert nýtt að frétta af þeim bænum! Sjallar og Framsókn enn til í að selja auðvaldinu auðlindirnar sem fyrr (skiptir þá engu hvort auðvaldið er íslenskt eða erlent). Bara Hreyfingin og VG sem malda í móinn. En það er einmitt það sem þeir gera; malda í móinn.
Þingmenn Hreyfingarinnar og VG hafa ekkert gert til að stöðva það að hægt sé að gefa auðlindir landsins til einkanota, hvorki sjávarfang, orku eða vatn. Það hefur engin lagabreytingartillaga verið lögð fram, hvað þá frumvarp til nýrra laga og ekki einu sinni þingsályktunartillaga. Þetta er kappið sem lagt er á að vernda auðlindir Íslands á Alþingi.
Samfylkingin flækir sig í lagatæknilegu málskrúðu án þess að átta sig á að landsmenn tengja slíkt við siðleysi og brostið traust bæði á stjórnmálamönnum og viðskiptalífi. Hvernig væri að Samfylkingin (og VG) tækju nú afstöðu út frá því hvað er líklega rétt og sæmandi að gera. Auðlindirnar eiga að vera í sameign landsmanna og það er ekki hægt að slíta í sundur eignar- og nýtingarrétt á þeim. Það er hægt að leigja þær út eða rukka fyrir aðgang að þeim og þá til skamms tíma í einu (í orkuvinnslu til of skamms tíma til að það borgi sig fyrir einkaaðila að reisa orkuver. Þau verða þá að vera í opinberri eigu) og alltaf gegn endurgjaldi. Aðgangur að auðlind án endurgjalds skapar hefðarrétt og þá erum við í slæmum málum.