Jahh, nú er ég svo aldeilis undrandi. Landsbankinn, KB og Íslandsbanki eru allir að skila metafkomu fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs. Meiri hagnaði á þremur mánuðum en áður hefur þekkst á heilu ári. Það er gott að fyrirtæki á markaði beri sig og skili hagnaði, því meiri því betra. Ég get þó ekki séð að þetta réttlæti hundruð milljóna aukagreiðslur til bankastjóra og framkvæmdastjóra bankanna. Merkilegt að á sama tíma birta bankarnir skýrslu þar sem þeir halda því fram að þjónustugjöld sé lægst í bönkum á Íslandi af Norðurlöndunum. Neytendasamtökin segja samstundis að þetta séu bara reikningskúnstir og miðað við tölurnar sem fylgja skýrslunni séu íslensku bankarnir næst dýrastir. Lögfræðingur, eða hagfræðingur, dönsku neytendasamtakana segir líka að skýrslan líti út eins og niðurstöður hennar hafi verið pantaðar. Ég held að þetta allt saman sýni bara á hvaða siðferðisstigi bankarnir hér á Íslandi eru, þ.e. grímulaus græðgi, undirferli og plat ráða þar ferðinni. A.m.k. ætti þessi mikli hagnaður að þýða að hægt sé að lækka útlánsvexti og þjónustugjöld og hækka innlánsvexti. Það myndi a.m.k. heilbrigð skynsemi segja manni en einhvern veginn finnst mér ólíklegt að það gerist.
Undirlægjur Davíð virðast halda núna að ef menn andmæla honum og þá sérstaklega fjölmiðlafrumvarpinu fræga séu menn þar með gengnir í Baug. Þetta er náttúrulega alveg stórkostleg ranghugmynd sem ég held að lýsi vel sjúkdómsástandi samfélagsins í dag. Það að vilja ekki að fyrirtæki á markaði séu slitin í sundur, eignarréttur manna takmarkaður, jafnvel að fjöldi manns missi vinnuna og Mogginn verði aftur alls ráðandi á fjölmiðlamarkaði, þýðir ekki endilega að maður vilji að Jón ísgeir eigi þetta allt saman. Bara afhverju ekki alveg eins hann eins og einhver annar? Þurfa að vera einhverjar sér reglur fyrir Jón ísgeir?
Það er líka áhugavert hvernig þessir Sjálfstæðismenn tala. Þeir segja að eina skynsamlega ástæðan fyrir að mótmæla fjölmiðlafrumvarpinu sé vegna þess að eigendur Norðurljósa eru á móti því. Að eina skynsamlega ástæðan fyrir því að stórfyrirtæki vilji eiga fjölmiðla sé til að geta svarað auglýsingum samkeppnisaðila og rægt af þeim skóinn í fjölmiðlum sínum. Einhvern veginn finnst mér svona málflutningur segja meira um Sjálfstæðismenn og þeirra hugsanagang en fólk almennt. Ég skil bara ekki hvers vegna ekki er hægt að setja almenn lög um markaði sem gilda fyrir alla hvort sem þeir reka sjoppu eða dagblað? Svo á Samkeppnisstofnun að sjálfsögðu að vera nógu öflug til að fylgja þessum reglum eftir. Ekki hef ég heyrt Sjálfstæðismenn kvarta mikið vegna einokunar eða fákeppni á olíumarkaði, samgöngum, fiskútflutningi o.s.frv. og ekki kvörtuðu þeir mikið undan fjölmiðlunum meðan ríkið eða írvakur eða Armanijakkafötin áttu þá alla.
Annars heldur Egill Helgason því fram að bráðlega verði væntanlega gert hallarbylting í Sjálfstæðisflokknum líkt og þegar Margrét Thacher var rekin frá völdum, en Andra Snæ Magnasyni finnst eins og hann sé kominn á nóbelspall og fái að vera óáreittur til 2044. Hvorugt þessa finnst mér nú líklegt en ég get tekið undir með Guðmundi Steingrímssyni sem undrast mjög hvernig núverandi ungir þingmenn og áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum virðast hafa skipt algerlega um hugmyndafræði frá því við þekktum þessa sömu menn í menntaskóla. Ég skal viðurkenna að ég var ekki alltaf sammála þeim (reyndar mjög sjaldan) og er ekki enn en einhvern veginn fannst mér ég geta borið ákveðna virðingu fyrir hreinskilni þeirra og heiðarleika á þeim árum. En nú er það fyrir bí.