Núna ætla ég að blogga um kjaramál kennara í síðasta sinn. Ég hef fengið nóg af því en vegna spurningar í athugasemdakerfinu finnst mér eðlilegt að ég skýri frá þessu.
„Mikill hiti í þessum umræðum. Ég get alveg skilið að kennarar séu svekktir. Ég átti alveg eins von á því að þetta yrði fellt.
Bara svona fyrir forvitnissakir. Hvað fela þessar 230 þús. kr í sér nákvæmlega. Eru þetta grunnlaun eða heildarlaun? Hvað erum við að tala um margra tíma vinnu til að uppfylla þessi laun? Hvað er sumarfríið langt og hvað eru launin há yfir sumarmánuðina.
Einn fávitinn sem vill fræðast meira um kjör kennara.“
Ég vil samt taka fram vegna síðustu færslu minnar að ég kallaði alls ekki þá sem ekkert vita um þessi mál fávita, heldur hina sem óhræddir varpa fram fullyrðingum (yfirleitt röngum) og fullyrða útfrá þeim um frekju kennara, óbilgirni eða heimtufrekju. Það að spyrjast fyrir og verða sér út um upplýsingar sem maður býr ekki yfir er einmitt hið gagnstæða, það ber vott um fyrirhyggju og visku.
í fyrsta lagi er spurt um vinnutíma. Hann er margskilgreindur og skiptist í raun í nokkra hluta. Fyrst er það kennsla. Full kennsla telst 28 kest. (kennslustundir) á viku í 180 skóladaga eða 36 vikur. Næst er það undirbúningstími sem telst 20 mínútur á kest. Sá tími á reyndar líka að fara í úrvinnslu, undirbúnings verkefna yfirferðar, prófagerðar og yfirferðar, námsmat o.fl. og dugir yfirleitt ekki til. þarna safnast því saman tími sem kennarar vinna á hverri viku kauplaust. Eftir það skal minnast á hinn svokallaða verkstjórnartíma eða 9,14 sem svo er kallaður vegna þess að þar er um að ræða 9,14 klukkustundir undir verkstjórn skólastjóra til annarra starfa, þarna er yfirleitt um að ræða ýmiskonar nefndarvinnu í fagnefndum tengdum ákveðnum námsgreinum eða málum, atburðum eða umsjón með stofum o.s.frv. Einnig kennarafundir, deildarfundir, árgangafundir, fagfundir, foreldrafundir o.s.frv. o.s.frv. Auk þessa vinna kennarar starfsdaga sem eru 8 utan starfstíma skóla og 5 á starfstíma. Á undirbúningsdögum er yfirleitt um að ræða endurmenntun, úrvinnslu gagna, námsmat, skipulag næstu mánuða, gerð verkefna o.s.frv. Þar að auki vinna kennarar svokallaða sumarhlutdeild. Það eru u.þ.b. 3 tímar á viku sem kennarar vinna upp í sumarleyfi sitt. Þ.e. þrír tímar á viku sem ekki er greitt fyrir fyrr en sumarið eftir í formi óskertra launa í júní og júlí. Kennarar vinna því 1800 klukkustundir á ári (ca. 43 klukkustundir á viku) eins og aðrar stéttir. Þeirra vinna fer hins vegar fram á tímabilinu 12. ágúst til 18. júní. Það fer þó eftir því hvenær starfsdagar að hausti og vori eru settir niður. Sjálfur var ég t.d. í sumarleyfi frá 9. júní til 12. ágúst s.l. sumar. Það eru 9 vikur en þær var ég s.s. búinn að vinna mér inn síðasta vetur.
Þá er komið að laununum. Byrjunarlaun grunnskólakennara með fulla menntun var fyrir verkfall 145.301. Þarna er um að ræða yngsta byrjanda og því varla raunhæf tala. Sá 30 var með 160.476 kr. Ofan á þetta bætast svo skólastjóraflokkar sem geta verið frá engum (ákaflega sjaldgæft) upp í fimm (líka mjög sjaldgæft) algengast eru 3 flokkar. Það gerir byrjunarlaun upp á 158.774 fyrir þann yngsta og 175.357 fyrir þann þrítuga. Á það ber að líta að taxtar annarra stétta eru lágmarkslaun og ofan á þá er iðulega borgað aukalega. Bæði í formi yfirvinnu eða beinna hækkana. Því er eðlilegra að miða við meðallaun en grunntaxta í þessu samhengi. Sveitarfélögin hafa nefnilega sameinast um það að samningar við kennara skuli vera hámarkssamningar og ofan á þá skuli ekki borgað aukalega. í mörgum sveitarfélögum er þar að auki yfirvinnubann í gangi. Meðallaun félagsmanna í Kí sem falla undir þennan kjarasamning er um 250 þúsund. Sambærileg tala fyrir Akureyri er 230 þúsund. Inni í þeirri tölu eru skólastjórar og starfsmenn skólaskrifstofa sem hafa mun hærri laun en kennarar og toga meðaltalið upp. Ekkert meðaltal er því til fyrir kennara en gera verður ráð fyrir að það sé talsvert lægra en heildarmeðaltalið. Sambærileg meðaltöl sem ég veit um eru frá desember 2003 og þar má sjá að meðaltalslaun framhaldsskólakennara eru 319 þúsund, meðaltalslaun BHM voru þá 320 þúsund og meðaltalslaun háskólamenntaðra VR-félaga 365 þúsund. í samanburði við þessar stéttir eru kennarar því mjög lágir. Önnur stétt sem hefur sambærilega menntun og grunnskólakennarar eru leikskólakennarar en laun þeirra eru jafnvel enn lægri og segir það ýmislegt um forgangsröðunina í þessu samfélagi.
Þriðji þáttur fyrirspurnarinnar lét að kröfugerð grunnskólakennara. Þá er því til að svara að við fórum fram á að grunnlaun háskólamenntaðs grunnskólakennara skyldu verða 250 þúsund í lok samningstímans. (Það eru launin sem eru 159 – 175 þúsund í dag). Á þetta gátu sveitarfélögin alls ekki sæst þrátt fyrir að þetta væru mun lægri laun en viðmiðunarstéttirnar hafa. Um aðrar kröfur náðist sæmileg sátt, s.s. lækkun kennsluskyldu og aukinn undirbúningstíma og að sveitarfélögin færu loks að borga 2% mótframlag í lífeyrissjóði eins og aðrir atvinnurekendur hafa gert um árabil.
Þegar horfði til verkfalls var sveitarfélögunum boðinn skammtímasamningur til eins árs sem innihélt 6% launahækkun, því var hafnað. íður höfðu sveitarfélögin boðið samning sem kennurum var kynntur, í framhaldi af því samþykktum við verkfall með 90% atkvæða. Sveitarfélögin höfðu það því í hendi sér að afstýra verkfalli með litlum tilkostnaði en kusu að gera það ekki. Eftir að verkfall skall á gerði samninganefnd kennara tilraun til að ná samningi við sveitarfélögin með því að bakka með kröfuna um 250 þúsundin niður í 230 þúsund. Á það var ekki hlustað. Mikið eru kennarar nú ósveigjanlegir. Eftir sex vikna verkfall kom fram miðlunartillaga frá sáttasemjara sem var felld með 93% atkvæða. í henni var m.a. gert ráð fyrir því að 84% kennara lækkuðu í launum 1. ágúst næstkomandi. Þá voru sett lög. Eftir það var gengið til samninga sem voru fyrrnefnd miðlunartillaga með smá lagfæringum. Sú miðlunartillaga hefur nú verið samþykkt með 51% atkvæða. Tæpara gat það varla verið. Samkvæmt henni verða byrjunarlaun háskólamenntaðs grunnskólakennara 209 til 214 þúsund í lok samningstímans árið 2008. Það er minna en viðmiðurarstéttir (fyrir utan leikskólakennara) höfðu í desember 2003.
Hvað varðar ólöglegar aðgerðir þó svo að um þær hafi ekki verið spurt vil ég segja þetta. Öll verkalýðsbarátta byrjaði með ólögmætum aðgerðum enda voru verkalýðsfélög ólögleg til að byrja með og verkfallsréttur ekki til. Öll þau réttindi sem við njótum í dag og teljum sjálfssögð náðust fram með baráttu sem oft á tíðum stangaðist á við þeirra tíma ranglát lög. Öll mannréttindabárátta á rætur að rekja til manna sem voru óhræddir við að rísa upp og berjast gegn óréttlátum lögum. Ég get því ekki fordæmt neitt út frá því eingöngu hvort það var lögmætt eða ekki. Var verið að mótmæla þvílíkum ólögum og hneysu að það réttlætti að brjóta lögin í einn dag? Svo er náttúrulega líka spurning hvort sé æðra landslög eða stjórnarskrá lýðveldisins? í 68. grein hennar stendur m.a. Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi. Lög sem banna verkföll ákveðinna stétta hvort sem það eru flugfreyjur, sjómenn eða kennarar hljóta að brjóta í bága við þessa grein stjórnarskrárinnar.
Núna ætla ég að hætta að blogga um kjaramál kennara og aldrei blogga um það mál framar!