Það er aldeilis að við feðgar ætlum að nýta jólafríið vel. Fyrst fékk Kári þessa ægilegu ælupest og niðurgang á sunnudag og mánadag, þá lagðist ég með þennan andskota og í gærkvöldi ældi Dagur svoleiðis að maður gat séð hvað hann hafði borðar í hverja máltíð síðustu tvo sólarhringa. Hann er nú reyndar búinn að vera ágætur í dag og vonandi verðum við allir eiturhressir á morgun. Kári er reyndar búinn að vera mjög kátur í gær og í dag með að vera ekki lengur veikur. Hann lýsti því yfir margoft að hann gæti hámað í sig eins og hann vildi án þess að þurfa að gubba og hann væri sko svangur eftir að hafa ekkert getað borðað í tvo daga. Þannig að meðan við Dagur lágum sveittir og veikir með ógleði þá hámaði hann í sig hverja samlokuna, smákökuna, eggjahræruna og annað sem honum datt í hug að búa sér til og lýsti því yfir hvað hann ætlaði að háma mikið!
Mér fór þó að skána í dag og eftir fjögur fór ég í jólaleiðangur og keypti í jólamatinn og síðustu jólagjafirnar. í kvöld náði ég svo í alla jóladúkana sem voru í dótinu niðri í geymslu sem fylgdi íbúðinni og nú bíða þeir þess að fá sína staði hér á heimilinu.
Það eru allir farnir að sofa hérna nema ég enda þarf að hengja upp úr vélinni þegar hún klárast. Svo er líka komin hefð á það að annaðhvort ég eða Gulla vaki eftir jólasveininum.