í mínu starfi þarf ég mikið að vinna með alls kyns tölvuvædd tæki og tól, s.s. tölvur, símkerfi, ljósritunarvél, mynd- og skjávarpa, plöstunarvél, gormabinditæki og kaffivél (eða könnu). Ég er alveg sæmilega vel að mér í öllum þessum tækjum og það sem ég veit ekki kemst ég að með því að fikta (lærði t.d. þannig á Publisher). Hér á vinnustaðnum er líka haldinn fjöldi námskeiða til að kenna fólki á þessi tæki og forrit (reyndar ekki kaffikönnuna) og alltaf er einhver tilbúinn til að aðstoða fólk og leiðbeina. í þessu ljósi kemur mér á óvart hve margir samstarfsmenn (konur) mínir eru tækjafælnir og virðast eiga erfitt með að átta sig á hvernig þetta virkar. Ég sé ekki alveg hvernig ég gæti sinnt starfi mínu ef ég kynni ekki að fara með þessi tæki.