Ég hef ósköp lítinn áhuga á að blogga um brotthvarf Davíðs úr stjórnmálum (as if!) eða Baugsmálið og allt sem því tengist. Á föstudaginn síðasta var aðalfundur BKNE og nú er ég formaður þess félags. Ég hef mikla trú á að starfið í vetur verði gott þó ég ætli ekki að lofa neinu að svo stöddu. Það eru hins vegar líka flókin mál í deiglunni sem ég vil heldur ekki blogga um á þessu stigi. Þar af leiðir að ég hef frá engu sérstöku að segja, þannig að, bless, bless.
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: september 2005
112758069632393974
Fimm staðreyndir um mig:
1. í fyrsta sinn sem ég verslaði áfengi var það í Ríkinu við Lindargötu. Þá var ég rétt tæplega 17 ára gamall, var að vinna í reiðhjólaversluninni Erninum og var sendur til að kaupa inn til helgarinnar fyrir allt starfsfólkið (og smá handa mér sjálfum).
2. í menntaskólanum var ég í ræðuliðinu og fékk þar viðurnefnið „komminn“ ég held að það beri því frekar vitni hve miklir hægrimenn allir hinir voru en það hversu mikill vinstrisinni ég er.
3. Ég hef aldrei haft áhuga á íþróttum og skil ekki karla sem hanga t.d. yfir enska boltanum allar helgar. í því ljósi er það skemmtilegt hve mikill Formula1 áhugamaður ég er orðinn sjálfur.
4. Þegar ég var yngri ætlaði ég mér að verða hinn næsti J.R.R. Tolkien, verða prófessor í Norrænum fræðum í Oxford og skrifa upp á nýtt fornsögu Norðurlanda.
5. Ég er trúleysingi. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvenær ég missti trúnna en ég man að fermingarárið mitt fékk ég ávítun fyrir að mæta aldrei í kirkjuna. Mætti því einu sinni og ofbauð trúarofstækið (í vanalegri messu hjá Þjóðkirkjunni) og fór aldrei aftur. Ég sannfærði sjálfan mig um að ég væri Deisti til að geta fermst en áttaði mig á því daginn eftir athöfnina að það var sjálfsblekking. Upp frá þeim degi hef ég verið staðfastur trúleysingi. í dag sé ég mikið eftir að hafa fermst og finnst ósiðlegt að þvinga 13 ára börn til að taka þessa ákvörðun.
í framhaldi af þessu ætla ég að „klukka“ mömmu, Helgu hina, tengdó og Salman.
112721346163827136
Ætli það sé ekki óþægilegt fyrir Geir H. Haarde að hann er eini ráðherrann í ríkisstjórninni sem stuðningsmenn annarra flokka en stjórnarflokkanna almennt treysta? Ath. að treysta er ekki að vera sammála. Ætli þetta hafi verið honum fjötur um fót í framapoti innan Sjálfstæðisflokksins?
Nú fer að líða að sameiningarkosningum hérna í Eyjafirðinum. Um daginn barst inn um lúguna litprentaður bæklingur sem var nú nánast heil bók með glansmyndum úr öllum sveitarfélögunum sem á að sameina. Aftast var stutt upptalning á kostum og göllum sameiningar sem var eiginlega það eina áhugaverða í bókinni. Þrátt fyrir loforð um að halda úti skólastarfi í núverandi mynd þá efast ég um að margir treysti því loforði, a.m.k. ekki lengur en til nokkurra ára. Það er t.d. ekki nema u.þ.b. hálftíma akstur frá Grenivík og inn á Akureyri. Hér á að byggja nýjan grunnskóla í Naustahverfinu sem getur auðveldlega tekið á móti öllum grunnskólabörnum frá Grenivík og Svalbarðsströnd. Alger óþarfi að vera að reka tvo fámenna og rándýra skóla þarna. Auk þess hvað starfið verður allt faglegra þegar hægt er að kenna í stórum árgöngum með mörgum bekkjum frekar en í samkennslu. (Það fékk ég a.m.k. bæði að heyra á Hvammstanga og í Ólafsvík þegar það var sameinað þar þó enginn hafi sýnt fram á þetta aukna faglega starf að mér vitandi). Skólarnir á Dalvík og Ólafsfirði verða líka líklegast bara sameinaðir þannig að yngri börnum verður kennt í öðrum bænum og þeim eldri í hinum. Krakkana á Þelamörk má síðan keyra í Síðu- eða Glerárskóla. Kannski fá Siglfirðingar að hafa sinn skóla og kannski verður þeim keyrt í gegnum nýju gönginn til Ólafsfjarðar-Dalvíkur.
Akureyri hefur líka verið svokallað tilraunasveitarfélag en í því fellst að bærinn hefur rekið heilsugæslu- og félagsþjónustu. Ég efast um að nýja sveitarfélagið væri til í að reka meira en eina heilsugæslustöð, jú kannski smá útibú á Siglufirði þó það verði nú óþarfi eftir að Héðinsfjarðargöngin koma. Ætli það verði ekki allir á Siglufirði, Ólafsfirði, Dalvík og Grenivík glaðir að þurfa að keyra inn á Akureyri til að komast til læknis?
Ég held líka að Akureyringar hafi kannski ekki hugsað þetta til enda. Rekstur grunnskólanna er t.d. mun ódýrari á hvern nemenda hér en í hinum sveitarfélögunum, snjómokstur og almenn þjónusta sömuleiðis þegar kostnaðinum er deilt niður á íbúa. ítta Akureyringar sig á því að með sameiningu hækkar þessi kostnaður á hvern íbúa í hinu nýja sveitarfélagi miðað við það sem gerist á Akureyri núna?
í ljósi þessa þykir mér líklegt að einu sveitarfélögin sem samþykki þetta verði Siglufjörður, Ólafsfjörður og Dalvík. Dreifbýlissveitarfélögin og Grenivík gerðu best í því að hafna og kaupa aukaþjónustu af Akureyri. Ég held að það væri skynsamlegast fyrir Akureyringa að hafna þessu líka en á þó frekar von á því að þeir samþykki. Hins vegar væri mér sama þó til yrði nýtt sveitarfélag við utanverðan Eyjafjörð vestanverðan. Þeir ættu þá kannski meiri möguleika á að fá framhaldsskóla þangað. Draum sem verður pottþétt úti ef af alsherjarstórsameiningu verður.
BBíB
112626048826073197
Bara örstutt um brotthvarf Davíðs Oddssonar úr pólitík. Mér finnst ótrúlegt hvernig fjölmiðlar og stjórnmálamenn láta núna í ljósi þess að þessi ákvörðun mátti vera lýðum ljós allt frá því að Davíð lét lögfesta „peningar handa mér“ frumvarpið sem gengur undir dulnefninu „Eftirlaunafrumvarpið“. Ég held að Davíðs verði fyrst og framst minnst í Íslandssögunni fyrir skapofsa- og bræðisköst, valdníðslu, spillingu, að pota vinum og ættingjum í valdastöður, grafa undan hæstarétti í orði og á borði, ráðast persónulega að mönnum í atvinnulífinu, bláu höndina og að vera fyndinn. Þess vegna finnst mér sorglegt þegar fólk flaðrar upp um hann eins og einhverja súperstjörnu. Það er skiljanlegt með Össur sem hefur verið vinur og kunningi Davíðs í gegnum tíðina, en þegar ég las væmnisógeðið frá Ingibjörgu Sólrúnu í Fréttablaðinu þakkaði ég mínum sæla fyrir að vera nú þegar búinn að missa allt álit á þeirri konu því annars hefði það horfið við þann lestur. Davíð Oddsson var vondur stjórnmálamaður sem því miður er ekki hægt að draga fyrir dóm vegna starfa sinna og þá ekki síst fyrir þær sakir að hann er sjálfur búinn að skipa nánustu vini og ættingja sem dómara þar. Hann er og verður þekktur fyrir stjórnsýslu sem maður hefði búist við í Tógó en ekki á Íslandi. Megi hans fordæmi verða lengi uppi öðrum til viðvörunar!
112608127104619902
Þetta er nú allt að skríða saman þessa dagana. Og þegar ég vaknaði í morgun var farið að snjóa. Veturinn bara kominn og allt komið á fullt. í mínum huga eru haustin einhvers konar nýtt upphaf með óræðum loforðum um framtíð sem beri eitthvað áhugavert og spennandi í skauti sér. Svo bara kemur upp eitthvert helv… vesen sem skemmir allt fyrir manni. Sem betur fer er nú að leysast úr því máli. Þá þarf ég bara að gera ársreikninga BKNE og þar með er öllu veseni lokið (í bili). Merkilegt með vesen að þegar einu lýkur þá tekur yfirleitt nýtt við.
112593253315308722
Fátt þoli ég verr en vesen.
112569801554721176
Orð dagsins er úff.