Það var gaman af tímatökunum í formúlunni í hádeginu. Reyndar ollu McLaren menn mér vonbrigðum. Ég hafði búist við þeim sterkari eftir að þeir fengu nýju vélina. Eins og staðan er núna lítur út fyrir að þetta verði slagur á milli Alonso og Schumacher og þá held ég nú meira með Alonso.
Núna ætla ég hins vegar að vinda mér í að fjalla um Eurovision lögin frá síðustu kynningu svona fyrst þriðji þátturinn er í kvöld. Ég tek þá upp þráðinn þar sem ég hætti síðast:
Kýpur
Þeir senda ákaflega brjóstgóða söngkonu sem hefur víst helst unnið sér það til frægðar að vera bakraddasöngkona hjá einhverju frægum störnum í Ameríkunni. Lagið gæti svo sem verið í hvaða Disney-mynd sem er en er samt voða ósérstakt. Hún gæti samt fengið einhver stig út á brjóstin. Ég gef 2 stig.
Mónakó
Það er ung og sæt stelpa sem syngur fyrir Mónakó þetta árið og þeim í kynningarbæklingnum fannst myndbandið hálf klámfengið. Mér fannst það samt hátíð miðað við myndbandið hjá Hvíta-Rússlandi. Þetta er hins vegar notalegt lag með Hawaii-stemmingu og ég hef gaman að þessu. Þetta er a.m.k ögn skemmtilegra en Kýpur og því gef ég 3 stig.
Makedónía
Ég hlýt að vera kominn með Makedóníu-heilkennið því mér finnst þetta með betri lögum í keppninni í ár. Viðlagið er ákaflega grípandi og þetta er skemmtileg blanda af þjóðlegu og aljóðlegu. Það vantar eitthvað upp á til að þetta sé frábært en mjög gott engu að síður. Ég gef 4 stig.
Pólland
Það er ekki hægt að segja annað en að þetta lag sé mjög sérstakt. Rauðhærði gæinn fer hins vegar í taugarnar á mér og mér finnst hann syngja skelfilega. Rapparinn er líka mjög slæmur. Söngkonurnar eru hins vegar gullfallegar og syngja vel. Þar að auki er ágætis mmelódía í þessu meðan rauðhærða fríkið þegir. Gott lag til að hlusta á með lokuð augu í keppninni. Ég gef 3 stig.
Rússland
Rússarnir þykja góðir í ár en ég verð að viðurkenna að ég sé það ekki þó að ballerínurnar á sviðinu séu flottar. Lagið er hins vegar dæmigerð meðalmennska. ígætis melódía samt og strákurinn vissulega sætur. Ég hallast að því að gefa þessu 3 stig þó mér finnist Mónakó betra. Þetta á skilið eitthvað aðeins meira en 2 stig. Já, ég gef 3.
Tyrkland
Þetta er lag sem menn annað hvort þola ekki eða elska. Svipað og með Silvíu Nótt, enda nákvæmlega sami húmor á stelpunni. Þess vegna ætti lagið að fá mikið af stigum frá Íslandi en það líður ákaflega fyrir það að lagasmíðin sjálf er frekar léleg. sem sagt, ég fíla húmorinn í þessu vel en finnst lagið sjálft slæmt. í raun hef ég orðið fyrir talsverðum vonbrigðum með Tyrki síðustu tvö ár því þar á undan áttu þeir frábær lög í mjög langan tíma. Ég fer t.d. ekki ofan af því að Dinle með Sabnem Paker er eitt flottasta Eurovision-lag ever. Ég gef þessu hins vegar 2 stig.
úkraína
Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja um þetta. Lagið er grípandi og skemmtilegt, fínt lag til að dilla sér við á dansgólfi einhversstaðar. Umgjörðin er líka fín og þetta er allt mjög gott. Hins vegar er ekki vottur af frumleika í þessu og þess vegna ætlaði ég að dæma þetta mjög niður en svo fattaði ég náttúrulega að meginhluti Eurovison-laga fellur undir þessa skilgreiningu og þess vegna ætla ég að vera góður og gefa þessu 3 stig.
Finnland
Finnarnir fara sömu leið og Norðmenn í fyrra en ganga enn lengra. Það er áhugavert að íhuga hvernig flytjendunum á eftir að líða í þessum búningum á sviðinu í Aþenu. Þeir hljóta að svitna alveg svakalega. Það er samt gaman af svona atriðum þó svo að þessi tónlist höfði ekki til mín. Lagið er samt mjög grípandi og ef ekki væri fyrir það að þungarokk er ekki minn tebolli þá gæfi ég þessu fullt hús stiga. Ég gef 4 stig.
Þá læt ég staðar numið að sinni en fjalla um afganginn af lögunum í undankeppninni síðar.