Enn á ég fimm færslur eftir ef ég ætla mér að ná því markmiði að blogga tuttugu sinnum um helgina. Ég held reyndar að ég verði að fresta síðustu fjórum færslunum til morguns enda klukkan orðin margt og tími til kominn að fara að sofa fyrst maður á að vakna í vinnu á morgun.
Mig langar þó að minnast aðeins á að við í leiklistarvali Giljaskóla erum að fara að setja upp ákaflega skemmtilegt leikrit sem heitir Krimmi á árshátíðinni í mars. Nú þegar er búið að skipa í hlutverk og smíða sviðsmynd, mála franska glugga og setja herlegheitin upp í stofunni minni. Nemendur sitja því og læra íslenska málfræði og gera dönsk hlustunarverkefni innan um sófa, fráleggsborð, arinn og franska glugga og ég held að leitun sé að heimilislegri kennslustofu í grunnskólum á Akureyri og þó víðar væri leitað.
Ég var enda við að útbúa 1/4 bls. auglýsingu í Dagskránna um fund um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem verður haldinn hér á Akureyri 31. janúar n.k. Þangað verða allir sem eiga aðild að sjóðnum að koma og spyrja Eirík Jónsson formann Kí og stjórnarmann í LSR spjörunum úr um sjálfseignarsparnað og lífeyrisréttindi. Þið lásuð þetta fyrst hér. Ég er ekki einu sinni búinn að senda trúanaðarmönnum auglýsingu en það verður gert á morgun. Aðallega vegna þess að ég er ekki búinn að ganga 100% frá fundarstaðnum ennþá en kláraði auglýsinguna í Dagskránna þar sem það þarf að skila henni inni fyrir 12 á hádegi á morgun og ég er nú eiginlega alveg viss um að það verði ekkert vandamál að tryggja fundarstaðinn.
Ég kveð þá að sinni og fer að sofa (líklega skrepp ég þó í sturtu fyrst) svo ég vakni nú hress og skemmtilegur í vinnuna í fyrramálið. (5)