Undanfarið hafa birst nokkrar kannanir á fylgi stjórnmálaflokkanna í blöðunum. Þessar kannanir hafa verið mjög misvísandi og það sem er mest sláandi í þeim er líklega afar hátt hlutfall óákveðinna annars vegar og hins vegar hvað fylgi flokkanna sveiflast mikið. Það er helst að VG sé á svipuðum slóðum í þeim öllum en þó minnir mig að fylgið hafi verið á milli 19 og 25% í þeim. Ég hef hingað til ekki verið mjög nákvæmur í pólitískum spám en mig langar samt að velta því fyrir mér hvað þetta gæti þýtt fyrir einstaka stjórnmálaflokka.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur hingað til haft það orð á sér að mælast hærri í skoðanakönnunum en kosningum. Sjálfstæðismenn virðast gera upp hug sinn fyrr en aðrir og vera reiðubúnari til að gefa sig upp í skoðanakönnunum. Það kom mér því ekki á óvart að hann mældist með 45% fylgi í könnun þar sem óákveðnir voru tæp 40% en þegar hann mælist með innan við 40% fylgi í könnun þar sem rúm 40% eru óákveðin eða neita að svara hlýtur að teljast mjög slæmt fyrir flokkinn. Með þessu áframhaldi lítur út fyrir svipaða útreið hjá flokknum og í síðustu kosningum (varla verri þó).
Framsóknarflokkurinn fær hins vegar iðulega betri kosningu en skoðanakannanir gefa tilefni til að ætla. Samt hlýtur fylgi innan við 4% að teljast mjög slæmt. Framsóknarmenn virðast hins vegar vera feimnastir til að gefa sig upp og kjósendur þeirra óákveðnastir allt fram undir kjördag. Það er því fráleitt að ætla að Framsókn fái þessa útreið í kosningum enda hefur hún ávallt verið mjög sterk í kosningabaráttunni. Ég held samt að ekkert bjargi flokknum frá því að missa töluvert fylgi frá síðustu kosningum.
Samfylkingin hefur sveiflast ótrúlega til í þessum könnunum en samt vil ég vera svo djarfur að halda því fram að fylgið hafi e.t.v. ekki breyst neitt að marki á milli þeirra. Heldur frekar að kjósendur hennar séu frekar að gefa sig upp nú en áður. Mér sýnist líka að bloggið sé að verða mikilvægari miðill í kosningabaráttunni en áður og þar sýnist mér Samfylkingin hafa verulega góða stöðu. Þ.e. mjög margt Samfylkingarfólk er að blogga og þau blogg fá mikla svörun. Þar að auki tel ég að flokkurinn eigi enn mikið af óákveðna fylginu.
Frjálslyndir virðast missa flugið milli kannanna en eins og með Samfylkinguna tel ég varlegt að trúa því. Frjálslyndir hafa fengið mjög óvægna (kannski ekki ósanngjarna samt) umfjöllun upp á síðkastið. Þeir höfða til frekar lágra hvata hjá mannskepnunni og reynslan sýnir að þótt enginn vilji viðurkenna að hafa þessar skoðanir (eða fordóma ef við viljum frekar nota það orð) þá eru þær víða. Ég held því að Frjálslyndir eigi eftir að fá meira fylgi í kosningunum en skoðanakannanir koma til með að sýna.
Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur verið að sækja stöðugt í sig veðrið og hefur líklega þá ímynd að vera hvað stefnufastastur stjórnmálaflokka á Íslandi. Það gæti reyndar einnig þýtt að kjósendur VG séu líklegir til að hafa ákveðið sig nú þegar en umhverfisverndarsinnar sem ekki falla aðrar áherslur VG séu tvístígandi. Það er fylgi sem Samfylkingin er e.t.v. að sækja þessa dagana. Ég tel því líklegt að VG fái lakari (og jafnvel mun lakari) útkomu í kosningum en þessar kannanir gefa í skyn.
Ég ætla því að varpa fram spá svona í lokin:
Sjálfstæðisflokkur 34%
Framsóknarflokkur 9%
Samfylkingin 31%
Frjálslyndir 9%
Vinstri-grænir 17%
(Verði þetta úrslitin – eða nálægt þeim – gætu stjórnarmyndunarviðræður orðið mjög erfiðar).