Daginn eftir að Memento mori var frumsýnt fór ég svo að sjá Við borgum ekki! Við borgum ekki! hjá Leikfélagi Akureyrar. Reyndar hafði ég ætlað mér á tónleika með Ljótu hálvitunum þetta kvöld, en þar sem konan var búin að vera veik dagana á undan hafði ég ekki farið og keypt miða því ég var ekki viss um að hún yrði búin að ná sér. í hádeginu þennan dag, þegar ljóst var að hún treysti sér á tónleika, fór ég svo í Pennan-Eymundsson til að kaupa miða en þá var uppselt.
Ég var eiginlega búinn að afskrifa það að fara á Við borgum ekki! Við borgum ekki! því ég hélt að þetta yrði bara sýnt hér á Akureyri í september og þá komst ég ekki. Það var því ákveðið með mjög stuttum fyrirvara að við hjónin myndum skella okkur í leikhús í staðinn fyrir að fara á tónleika.
Við borgum ekki! Við borgum ekki! er dæmigerður farsi, en þó ekki. Hann byggir sem sagt ekki á þessum dæmigerða misskilningi og því að persónur eru ævinlega að fara á mis hver við aðra, heldur hefst leikurinn á lýgi sem svo vindur upp á sig þar til í óefni er komið. Það er búið að laga verkið talsvert að aðstæðum (hruninu og öllu því) og vel má segja að það eigi mikið erindi við samfélagið í dag. Það er samt ekkert verið að velta sér upp úr kreppunni þó svo að hún leggi grunninn að sýningunni.
Sviðsmynd er mjög látlaus og hentar sýningunni vel, engin tilþrif í sviðslausnum eða lýsingu en slíkt ætti heldur kannski ekkert svo vel við þetta verk. Sviðsmyndin, hljóðvinnslan og ljósahönnunin nægir alveg. Það þarf ekki tilþrif á þeim sviðum til að halda áhorfendum við efnið. Hér er það textinn og aksjónin sem er aðalatriðið.
Leikararnir komast allir veL frá sínu. Halldór Gylfason leikur mörg smáhlutverk og gerir þeim öllum góð skil. Þetta eru þakklát hlutverk sem bjóða leikurum upp á mikil tilþrif og Halldór nýtir það vel. Meira að segja er svolítið gert grín að því hvað allar aukapersónur eru líkar.
Af öðrum leikurum stóðu hjónin sem leikin voru af Ara Matthíassyni og Maríönnu Clöru Lúthersdóttur upp úr. Þau voru aðsópsmikil á sviðinu og hrein unun að fylgjast með þeim sökkva dýpra og dýpra í blekkinguna.
Jóhann G. Jóhannsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir léku hin hjónin og gerðu það ágætlega. Það má kannski segja að þau séu með erfiðari hlutverk en hin þrjú þar sem þeirra karakterar bjóða ekki upp á jafn mikil tilþrif þar sem bæði eru frekar hlédræg og óframfærin.
Ég hló nánast stanslaust allan tímann og það er jú það sem gamanleikur snýst um. Verk sem ristir e.t.v. ekki djúpt en er alveg þrælfín skemmtun.
Ég gef hiklaust 4 stjörnur (af 5)