Ég er ákaflega spenntur fyrir Duran Duran tónleikunum í sumar. Hingað til hef ég ekki fundið hjá mér neina þörf fyrir að fara á tónleika. Ekki einu sinni Pixies tónleikana þó ég hafi verið ákaflega mikill aðdáandi á sínum tíma. Málið er bara það að Duran Duran er á stalli með U2, Rolling Stones, ABBA, Queen og Bítlunum, hljómsveitum sem eru hver fyrir sig merkisberi ákveðinnar tónlistarstefnu og tímabils. Eitístónlist er bara fyrst og fremst Duran Duran.
Þess vegna er gaman til þess að hugsa að ég uppgötvaði hljómsveitina ekki fyrr en um ’90 þegar eitísið er að líða undir lok. Fram að því hafði FGTH og Smiths verið mínir menn. Samt var ég með Orra Hauks í ræðuliði í menntó en hann er náttúrulega Duranisti nr. 1 á Íslandi.
Ég eignaðist samt Arena þegar hún kom út (síðasta platan fyrir Arcadia og Power Station tímabilið) en keypti svo ekki aftur Duranplötu fyrr en Decade kom út. Núna á ég sem sagt þrjá Duran geisladiska: Decade, Seven and the Ragged Tiger og The Wedding Album (sem ég held að heiti ekki TWA en er aldrei kölluð annað) svo á ég Arena á vínil og ég held að Gulla eigi allar hinar gömlu Duranplöturnar. Ég á hins vegar engan plötuspilara! Mig vantar sem sagt: Notorius, Big Thing, Liberty, Thank You, Medazzaland, Night Versions: The Essential Duran Duran, Greatest, Strange Behaviour og Pop Trash svo ég eigi allt safnið. Svo væri náttúrulega gaman að eiga gömlu plöturnar á geisladiskum.
Ég þarf a.m.k. að koma mér upp plötuspilara. Á einhver á Akureyri svoleiðis græju sem hann vantar að losa sig við?