Mér sýnist nú á myndinni í Fréttablaðinu í dag að þessi íslenski öryggisvörður í írak sé nú bara hermaður. Hann var líka kallaður málaliði í útvarpinu. Auðvitað veit ég ekki hvaða orð er rétt að nota yfir þetta en hitt veit ég að flestallir þessir „verktakar“ sem eru þarna og er verið að taka í gíslingu eru málaliðar. Mér finnst eins og það sé verið að falsa fréttir þegar þessir menn eru kallaðir verktakar. Hvers eiga raunverulegir verktakar að gjalda? Nú getur vel verið að þessir Japanir hafi verið að vinna við brúarsmíði, hreingerningar eða aðra verktakastarfsemi, en ef þeir voru málaliðar þá á að kalla þá það. Rétt eins og bandarísku verktakana sem er alltaf verið að skjóta á. Ég á voðalega erfitt með að vorkenna fólki sem hefur tekið það að sér í verktöku að vera hermenn í framandi landi. Verst er kannski þegar þessu fólki er hampað í fjölmiðlum eins og einhverjum hetjum fyrir að vera í hermannaleik í Mið-Austurlöndum. Eins og þessi kona í Sjálfstæðu fólki um daginn. Best væri ef það væri hægt að koma vitinu fyrir fólkið og fá það til að hætta þessu en það er víst einfeldningsháttur að ímynda sér að það sé hægt. Ég segi nú samt eins og Lennon: Imagine all the people living live in peace.