Núna er ég að horfa á kosningaþátt á NFS um sveitarstjórnakosningarnar. Enn hefur enginn minnst á flugvöllinn í Vatnsmýrinni og þar með vona ég að Oktavíuvæðing umræðunnar sé liðin. Skoðanakannanir benda til þess að meirihlutinn sé fallinn. Framsókn tapar gífurlega en Sjálfstæðisflokkurinn litlu. Það er smá ósamræmi á milli kannana um hvort Samfylking eða VG sé með þrjá en L-listinn fær einn í öllum könnunum. Miðað við það sem ég heyrði í oddvita þess flokks í þættinum áðan þá er það einum fulltrúa of mikið. VG virðist hafa það helst á stefnuskrá sinni að byggja upp mannfreka láglaunastarfsemi (þ.e. ferðaþjónustu) og Sjálfstæðisflokkurinn er bara ánægður með sitt. Merkilegt þykir mér þó að allir dásama þeir skólakerfið á Akureyri (sem er gott) og minnihlutinn ræðst á meirihlutann í skipulagsmálum. Nú var borgarafundur eða hvað sem á að kalla það um skipulagsmál sem virðist hafa verið haldinn fekar upp á lookið en nokkuð annað, íbúar nálægt fyrirhugaðri Dalbraut mótmæltu og þá var hún blásin af svo mótmæltu allir aðrir því að hún var blásin af svo hún var sett inn á skipulagið á ný. Stefnufestan er þannig ekkert gífurleg í þessum málum en persónulega met ég það nú meira að hlusta á fólk en að sitja við sinn keip. Hins vegar finnst mérskrýtið að hvorki VG né Samfylkingin benda á það að Akureyrarbær eyðir mun minni hluta af tekjum sínum í grunnskólana en flest önnur sveitarfélög og gumar sig samt af því að vera skólabær. Aðallega vegna skólanna sem ríkið rekur. Um þetta var mjög áhugaverð grein hjá Gísla Baldvinssyni sem ég finn ekki akkúrat núna (greinina þ.e. en ekki Gísla) en hann er að því er ég best veit innsti koppur í búri hjá Samfylkingunni svo hann hefði getað bent mönnum á þetta.
Annars er mest fjallað um atvinnumál. Þar má skipta flokkunum í þessa hópa:
1. hópur: Framsók og L-listinn. Gráta það að fá ekki álver í Eyjafjörð en hafa ekkert fram að færa
2. hópur: Samfylking og Sjálfstæðisflokkur. Vilja byggja upp þjónustustarfsemi (ekki almennt vel launuð en krefst oft nokkurrar menntunar) og sjá álver í Þingeyjarsýslum sem tækifæri til að efla þjónustu á Akureyri.
3. hópur: VG. Alfarið á móti álveri en vill byggja upp ferðamannaþjónustu (eins og áður sagði mannfrek láglaunastarfsemi).
Ég sakna svolítið 4. hópsins sem mér finnst að Samfylkingin ætti að fylla. Þ.e. þeirra sem vilja styrkja og efla hámenntastör á Akureyri, halda þannig í útskriftarnema HA og koma svæðinu upp úr því að vera slíkt láglaunasvæði sem það er. Þessu er hægt að ná fram með nýsköpunarstyrkjum og tilslökunum á álögum á slík fyritæki, t.d. í gegnum útsvar, húsaleigu o.s.frv. Þetta gæti líka orðið landsbyggðarstefna Samfylkingarinnar á landsvísu í stað hálfvolgrar afstöðu með og á móti stóriðju og náttúruvernd.
Sem sagt: Samfylkingin er enn (í mínum huga a.m.k.) lang besti kosturinn hér á Akureyri (eftir að Oktavía fór) en VG og Sjálfstæðisflokkur í jöfnu 2. – 3. sæti. Framsókn fær 4. sætið hjá mér en L-listinn rekur lestina. (Þess ber að geta að ég er ekki hlutlaus í þessu mati enda félagi í Samfylkingunni).