Þá er fyrsti vinnudagur ársins búinn. Bara svona stutt í upphafi til að koma sér í gang. Samt fannst mér svolítið skrýtið að hefja misserið svona á því að hafa fyrirlestur og fund frá 8:30 – 12:30 svona í staðinn fyrir að gefa okkur tíma til að undirbúa kennsluna. Fyrst var fyrirlestur um Uppbyggingarstefnuna. íkaflega áhugavert. Ég ætla að leyfa mér að birta hér hluta af lesefninu sem fylgdi fyrirlestrinum. Hér er vísindaleg útskýring á innri áhugahvöt: „Hún hjálpar okkur að skilja það, hvernig manneskjan leitast stöðugt við í ákveðnum tilgangi og á mörgum vitundarstigum, að ná markmiðum sínum og fullnægja þörfum sínum í síbreytilegu umhverfi.“ Það var nú einmitt það. Um Uppbyggingarstefnuna er einnig sagt: „Hægt er að tala þannig um aðferðina sérstaklega og bera saman við aðrar uppeldisaðferðir og segja að hún sé lífsgildismiðuð fremur en reglumiðuð.“ Gott að hafa það á hreinu. Samt er náttúrulega stórkostlegast að lesa þetta: „íherslan færist frá ótta til óttaleysis, frá ytri stjórn til innri stjórnar, frá ytri hvatningu til innri hvatningar, frá umbun og refsingu til eigin lausnar á vanda, frá talhlýðni til sjálfsaga, frá reglum til lífsgilda, frá skömm til hugprýði, frá útskúfun til endurkomu og sátta, frá vonleysi og uppgjöf til sjálfstrausts og bjartsýni.“ Vá! Allt þetta er einungis að finna á fyrstu blaðsíðu þessa fjögurra síðna dreifildis sem heldur áfram á svipuðum nótum. Er svo nema von að maður segi að kennarastarfið sé varla fyrir hugsandi fólk lengur? Ég skal viðurkenna að eftir fyrstu síðuna og fyrsta hálftímann af Power Point kynningunni fór hugurinn að hvarfla frá þessu heillandi viðfangsefni og í staðinn skrifaði ég þetta ljóð sem lýsir hugarástandi mínu á þessum tíma líklega betur en löng útskýring:
„Hvítidauði“
Dalsins er umgjörðin dimm og hörð
með drifhvítri hættunni virkri.
Helköld er jörðin með hvítan svörð.
Himininn fullur af myrkri.
Fólkið sem hrærist þar fátt og kalt,
fennt inni veturna auma,
þó þrautir og mæða sé þeirra allt,
það á sér vonir og drauma.
En snjóteppið veltur úr vinda stól.
Veturinn, hann er svo dapur.
Svo þunglega hellist það heims um ból.
Hvítur er dauðinn og napur.
Að þessum stórkostlega fyrirlestri loknum var svo haldið í þemavinnu um virðingu og hvernig hægt væri að innræta nemendum hana. Mikil hugstormun og skapandi pælingar um eðli og birtingarmyndir virðingarinnar. Endaði svo með klukkutíma hópavinnu þar sem sett var saman aðgerðaráætlun með mælanlegum og sýnilegum viðmiðum, markmiðum og verkefnalistum. Ég hélt alveg haus allan tímann og lét sem ekkert væri þegar fólk var að kynna hugmyndir um veggspjaldavinnu, gátlista, samskiptabækur, leiðarbækur og portofolio vinnu. Ég lagði meira að segja fram í umræðuna að aðalatriðið til að vinna með virðingu með nemendum væri að umgangast þá eins og manneskjur og reyna að kynnast þeim persónulega í stað þess að líta á þá sem viðfangsefni og reyna að beita einhverjum trixum til að fá þá til að sýna ákveðna hegðun. Flestir tóku undir þetta en líklega er frekar erfitt að vinna aðgerðaáætlun út frá þessari hugsun. Mér tókst þó að sýna þolinmæði og kurteisi í allan dag og tel mig því hafa staðið vel við ársfjórðungsheitin mín.
Ókei, bæ….