Ég kíki reglulega inn á okursíðu dr. Gunna. Það sem kemur mér stanslaust á óvart á þessari síðu er hvað fólk er undrandi yfir því að hlutirnir séu dýrari í hverfisbúðum og bensínstöðvum en í Bónus og Rúmfatalagernum og ekki bara aðeins dýrari heldur stundum fimm sinnum dýrari eða meira (sbr. tölvuleikina í Elko og BT). Þetta er í raun ofureinfalt; maður á ekki að eiga í viðskiptum við klukku- og hverfisbúðir nema maður neyðist til þess. Það á aldrei að kaupa neitt á bensínstöðvum og bensín eingöngu í sjálfsafgreiðslu á þar til gerðum stöðvum (Egó, Orkan, ÓB eða Atlantsolía). Matvæli og slíkt skal kaupa í Bónus, Krónunni, Nettó eða Kaskó. Það sem ekki fæst þar er ónauðsynlegt (ókey ef mann endilega bráðvantar eitthvað sem ekki fæst þarna má fara í Fjarðarkaup, úrval eða Hagkaup). Húsbúnað skal kaupa í Rúmfatalagernum og byggingarvörur í Múrbúðinni. í Hagkaupum má kaupa föt, skó og leikföng. Lyf einungis í Apótekaranum eða Apótekinu í Hagkaupum. Europris er líka oft með undarlegustu hluti á lágu verði.
Maður á sem sagt aldrei að kaupa neitt í eftirfarandi: Sérverslunum, hverfisbúðum, klukkubúðum, bensínstöðvum, kaffihúsum (nema Hrútakaffi á Borðeyri), veitingastöðum og túristagildrum (ef einhverju er beint að ferðamönnum hækkar það strax um a.m.k. 100%. Þannig er bolur sem fæst í Rúmfatalagernum á 500,- kr. seldur ferðamönnum í túristasjoppu á 2.990,- kr.).
Þar að auki má benda á að Tiger (borið fram tíja) er í mörgum tilfellum að selja dót sem hægt er að fá ódýrar í Bónus og sambærilegum búðum.