(Rétt skal vera rétt. Eftir að ég skrifaði þessa færslu hef ég fengið betri upplýsingar (og lesið skýrsluna betur) og vil því taka fram: Presturinn sem um ræðir var ekki forstöðukona á Bjargi. Hún kom að starfinu þar sem kennari og skólafulltrúi (hún átti s.s. að hafa eftirlit með starfinu þar), var í Hjálparnefnd stúlkna og stjórn heimilisins og að því er ég held lögreglukona og fór sem slík með stúlkurnar í einangrunarvistun á upptökuheimili Ríkisins. Hún hafnar öllum ásökunum og segir þær ósannar og að slíkar ásakanir á hendur starfsfólki væru glæpur í sjálfu sér. í viðtali í Ostrunni fara viststúlkur mjög hörðum orðum um starfskonurnar og sérstaklega hana).
Ég verð að viðurkenna að upplýsingar úr skýrslu nefndar um könnun á starfsemi þriggja barnaheimila koma mér því miður ekki á óvart. Maður var búinn að heyra áður um hvað viðgekkst á Breiðavík, Heyrnleysingjaskólinn og mál þar komust að því er mig minnir í fréttir fyrir nokkrum árum og einhverja umræðu hafði ég heyrt um skólaheimilið Bjarg þó hún hafi farið undarlega lágt.
Það hefur komið fram að strax árið 1980 var fjallað um reynslu Sævars Ciselskis um vistina á Breiðavík og frásögn stúlkna sem voru á Bjargi hafði birst í einhverju vikublaði mörgum árum áður. Hins vegar var aldrei tekið mark á þessum frásögnum á sínum tíma sem nú eru að koma í ljós að voru jafnvel bara yfirborð á mun alvarlegri pytti. Það fólk sem stóð fyrir þessu ofbeldi hefur starfað óáreitt í samfélaginu og jafnvel stofnað heilu kirkjudeildirnar.
Fyrrverandi forstöðukona Bjargs gengur meira að segja svo langt að segjast: „..hafa aldrei á starfstíma heimilisins orðið vitni að illri meðferð eða ofbeldi gagnvart viststúlkum og að frásagnir um að starfsfólk hafi beitt þær kynferðislegu ofbeldi væru ósannar og slíkar ásakanir á hendur starfsfólki væru glæpur í sjálfu sér.“ Það er heldur aumt að ljúga því upp á fórnarlömb sín að þau séu að ljúga.
Samkvæmt skýrslunni stakk ein stúlkan af og hlaut að launum nákvæma skoðun til að athuga hvort að hún væri hrein mey. Þá skoðun mun forstöðukonan hafa framkvæmt sjálf. Fórnarlömbin segja enn fremur að á kvöldin hafi hún komið og þuklað á stelpunum innanlæra og á brjóst, kysst svo með því að reka tunguna upp í þær. Sjálf sagði forstöðukonan að hún kyssti þær á kvöldin ef foreldrar hefðu farið fram á það. Ætli foreldrarnir hafi beðið sérstaklega um tunguna?
Þessi kona gengur enn laus í samfélaginu og er ein þeirra sem hafa fylkt sér að baki Gunnari Björnssyni prestperra á Selfossi. Líklega finnst henni undarlegt að Gunnar hafi bara kysst þær á kinnina en ekki notað tunguna.
Af hverju fjalla fjölmiðlar ekki um þessa konu af sama ákafa og þeir fjalla um áðurnefndan Gunnar?