Ég hef verið að kíkja á þessa helstu netmiðla sem ég skoða, sem eru aðallega Múrinn og Kreml, og sé að þar hefur ekkert nýtt efni bæst við síðan í gær. Ég tel nú að svona vefir verði að bæta við efni daglega til að fólk haldi áfram að skoða þá. Svo hef ég líka verið að bæta við linkum hér til hliðar. Ég er orðinn svakalega fær í þessu. Farinn að breyta html-inu og allt. Hins vegar þýðir þetta að ég hef í sjálfu sér ekki mikið að tala um í dag.
Og þó. Mundi allt í einu eftir umræðunni frá Samfok um slaka stærðfræðikennslu í grunnskólunum og skelfilega máttlaus svör formanns Kennarafélags Reykjavíkur. Ég var nefnilega á fundi í gær og þar var borin upp sú spurning hvort skólinn okkar (já, ég er grunnskólakennari) ætti að taka þátt í þemaverkefninu Unglingurinn og landsbyggðin. Þá þyrmdi yfir mig. Grunnskólinn í dag er farinn að snúast svo mikið um svona þemaverkefni, dag íslenskrar tungu, dag stærðfræðinnar, þemadaga, vor- og haustferðir, ræðukeppnir, útivistardaga o.s.frv. það er varla tími fyrir neina kennslu lengur. Þar að auki hafa nemendur í dag þvílík réttindi að ef þeir eru að skemma kennslu er nánast ómögulegt að losna við þá í einhvert varanlegt úrræði. Þannig eru dæmi um nemendur sem hafa eyðilagt kennslu í sínum bekkjum árum saman með hávaða, látum, dónaskap, ofbeldi og ýmsu fleira. Ég þori að fullyrða að það er a.m.k. einn svona í hverri meðalstórri bekkjardeild í landinu. Og svo eru menn að undrast að börnin læri ekkert í skólanum. Er það furða? Spyr ég nú bara.