Arðsemi náms var til umfjöllunar í útvarpinu áðan. Ég hélt að kannski ætti að ræða um það vegna yfirvofandi kennaraverkfalls hversu mikil verðmæti færu í súginn á meðan á því stæði en nei það var verið að fjalla um hvað fólk græddi á námi. Kom auðvitað í ljós að læknarnir græddu mest, svo verkfræðingar og svoleiðis lið. Þar á eftir voru iðnaðarmenn en kennarar og aðrar uppeldisstéttir voru neðarlega á lista.
Ég fór að velta því fyrir mér að ef það yrði reiknað út hversu mikil arðsemi samfélagsins er af ákveðnum stéttum, þá hlytu kennarar að verða þar ofarlega á blaði. Nám, fyrst í leikskóla og svo grunn- og framhaldsskóla og jafnvel í háskóla eða iðnskóla, er jú undirstaða þess að verða nytsamur þjóðfélagsþegn. Kennarar eru því (eins og líklega margar aðrar stéttir líka) undirstaða og grundvöllur nútímalegs samfélags. Það er auðvitað tilætlunarsemi af mér að ætlast til þess að það endurspeglist í launaumslaginu mínu. Kannski gerir það það líka? Það er jú staðreynd að fólk í undirstöðuatvinnugreinum, s.s. landbúnaði og fiskvinnslu, er lægst launaða fólkið í landinu. Er það ekki augljóst að forstjóri Straums skapar mun meiri verðmæti í þjóðfélaginu en bóndi í Fljótunum, fiskverkunarmaður í Ólafsvík eða kennari á Akureyri? Þótt það séu þeir síðarnefndu sem fæða og fræða hann …
Góða nótt.