Þá erum við búin að fá að heyra og sjá öll lögin í undanúrslitakeppninni. Ég verð nú að segja að þessi síðasti hluti var lang slappastur. Fyrst kom …
Makedónía: Dansararnir voru flottir og lagið bauð alveg upp á góða stemmingu. Það var fín laglína í þessu og svona, en flutningurinn var fyrir neðan allar hellur og hálf vandræðalegur á köflum. Voðalega vanalegt lag sem flytjandinn náði að eyðileggja. Ég hefði gefið 1.
Andorra: Ég hafði voðalega gaman af Andorra í fyrra og þegar ég heyrði þetta lag á diskinum þá fannst mér það ágætt. Það hins vegar missir mikið í þessu myndbandi. Magnaði trommutakturinn sem var í þessu er horfinn og söngkonan að missa sig í einhverjum geiflum. Hún söng samt mjög vel og mikið er nú fallegt landslagið í Andorra. Ég hefði gefið 1 stig fyrir að syngja á katalónsku.
Sviss: Þetta er flott lag. Grípandi og góð stemming í því. Stelpuband með flott rokk og þetta svínvirkar saman. Aðalsöngkonan líka með pinna í tungunni og það er frekar pönkað. Ég fékk samt soldinn kjánahroll yfir textanum: Cool Vibes, why don’t you kill me? Ég hefði samt gefið 4.
Króatía: Þetta var mjög smart vídeó. Píparinn og dansararnir í glerkúplunum voru dulúðarfullir og framandi. Það var svipuð stemming í þessu og hjá Makedónum en mun betur gert samt. Lagið kannski ekki alveg eins gott en söngvarinn mun betri og allur flutningur kraftmeiri og skemmtilegri. Ég hefði gefið 2.
Búlgaría: Hvað er eiginlega í gangi þarna? Þetta myndband var nokkuð flott en lagið að sama skapa hreinasta hörmung. Ég hefði þó verið til í að gefa þeim eitthvað fyrir það ef þeir hefðu sungið á búlgörsku. Flugvélin, fornbíllinn og gellan fá samt stig. Ég hefði gefið 1.
írland: írarnir eru ömurlegir í ár. Að vísu voru kommúnistastjarnan og rauða alpahúfan skemmtileg en passuðu bara engan veginn inn í þetta lag sem átti að fjalla um ást en snérist frekar um einhvern rembing og kreisting. Línudansararnir áttu að lyfta þessu upp en voru álíka út úr kú og stjarnan og húfan. Ég vil fá lag á gelísku frá írum. Ég hefði gefið 0.
Slóvenía: Þetta lag byrjaði rosalega vel og minnti á eitt besta lag sem hefur verið í Eurovision, hið slóvenska Neka mi ne svane, en síðan tapaði það sér í einhverju rokki sem það náði ekki að vera. Myndbandið átti að vera voðalega sexý og flott en öll naflaskotin af söngvaranum hálfum á kafi í sundlauginni og atriðið þegar hann dýfði lokkunum aðeins ofaní og sveiflaði svo makkanum aftur var eiginlega bara hlægilegt. Ég hefði gefið 1.
Danmörk: Danir hafa voðalegar væntingar til þessa lags rétt eins og Finnarnir til síns lags. Ég held þó að báðar þjóðir eigi eftir að verða fyrir vonbrigðum og ég varð fyrir vonbrigðum með Dani í ár. Þetta lag er n.k. léleg eftirherma af gamla Rollo og King slagaranum Never ever let you go sem var nálægt sigri í keppninni 2001. Það verður samt að segjast eins og er að Danirnir eru góðir meira að segja þegar þeir eru lélegir. Ég hefði gefið 3.
Pólland: Pólverjar eru síðastir í undankeppninni og hafa ákveðið að fara leið sem fellur mér vel að skapi, þ.e. að syngja á sínu eigin móðurmáli og leita í sína eigin tónlistarhefð. útkoman er fjörugt og skemmtilegt lag þar sem austur-evrópskur og hálf-sígaunskur andi svífur yfir vötnum. Ég var eiginlega kominn alveg upp í 4 með þetta lag þegar hægi kaflinn kom sem dró það talsvert niður. Ég hefði gefið 3.
Það gera 16 stig frá mér í dag fyrir 9 lög og það verður nú að segja að það er frekar slappt. Reyndar ekki nema tveimur stigum minna en ég gaf í fyrstu vikunni. Núna ætla ég að fara og fá mér kaffi en á eftir þá tek ég þetta kannski saman og spái í því hvaða tíu lönd komast í úrslitakeppnina.