í mínu starfi þarf ég mikið að vinna með alls kyns tölvuvædd tæki og tól, s.s. tölvur, símkerfi, ljósritunarvél, mynd- og skjávarpa, plöstunarvél, gormabinditæki og kaffivél (eða könnu). Ég er alveg sæmilega vel að mér í öllum þessum tækjum og það sem ég veit ekki kemst ég að með því að fikta (lærði t.d. þannig á Publisher). Hér á vinnustaðnum er líka haldinn fjöldi námskeiða til að kenna fólki á þessi tæki og forrit (reyndar ekki kaffikönnuna) og alltaf er einhver tilbúinn til að aðstoða fólk og leiðbeina. í þessu ljósi kemur mér á óvart hve margir samstarfsmenn (konur) mínir eru tækjafælnir og virðast eiga erfitt með að átta sig á hvernig þetta virkar. Ég sé ekki alveg hvernig ég gæti sinnt starfi mínu ef ég kynni ekki að fara með þessi tæki.
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: ágúst 2005
112496918738372153
„Læra íslensku leiðina ífengi selt yfir búðarborð“ Þessi fyrirsögn var letruð stórum stöfum í Markaðnum sem fylgdi Fréttablaðinu í gær. Einhvern veginn fannst mér þetta ekki alveg ganga upp. Enda kom í ljós þegar ég fór að lesa fréttina að um tvær fréttir var að ræða. Það hafði bara ekki verið hirt um að aðskilja þær með ramma eða striki og því runnu fyrirsagnirnar svona saman.
112480174818309975
Sumir bloggarar hafa það fyrir sið að blogga oft á dag. Aðrir blogga daglega eða sjaldnar. Oft vill það verða svoleiðis að fólki finnst það jafnvel þurfa að blogga þó það hafi ekkert að segja bara vegna þess að það er orðið það langt síðan það bloggaði síðast. Sjálfur hef ég fundið fyrir þessu en hef ákveðið að ef eina ástæðan fyrir bloggfærslu er sú að mér finnst of langt síðan síðast þá er betra að sleppa henni.
í síðustu viku voru starfsdagar og námskeið. í upphafi var þetta mjög skemmtilegt og fínt en það var full mikið að sitja námskeið frá 8 – 16 á föstudeginum, síðasta vinnudegi fyrir skólasetningu. Þá samdi ég vísu:
í fyrstu var hér fræðsla og stuð
og fjörug samtöl í ýmsum skotum,
en núna þykir mér þaulsetan puð
og þolinmæðin á þrotum.
112479425080650509
Ég hef áhyggjur af því að Ísland sé að breytast í fasistaríki. Þessar áhyggjur mínar byrjuðu þegar Falun Gong (sem ég held að séu ákaflega varhugaverð samtök) stefndu fólki hingað til lands til að mótmæla komu Kínaforseta (sem ég held að sé varhugaverðari en Falun Gong). Þessum mótmælendum var nefnilega komið fyrir í einhverjum tilvikum í fangabúðum á Reykjanesi. Aðrir mótmælendur voru hafðir þar sem ólíklegt var að höfðingjarnir sæu til þeirra. Þeir fáu sem komust í sjónlínu voru fjarlægðir og það stundum með óþarflega harkalegum aðgerðum.
Af þessu hafði ég hins vegar ekki miklar áhyggjur þar sem ég taldi mig skynja að þessar aðgerðir nytu lítils stuðnings í samfélaginu og væru bara ofsafengin viðbrögð nokkurra öfgahægrimanna með fasíska tendensa.
Þegar ég sá í Fréttablaðinu á fimmtudaginn (þeir kalla þórsdaga það) að u.þ.b. 60% þeirra sem tóku þátt í netkönnun blaðsins voru því fylgjandi að mótmælendum Kárahnjúkavirkjunnar yrði vísað úr landi var mér eiginlega öllum lokið. Ég hélt nefnilega að það væru bara Ingvi Hrafn og aðrir hægrikjánar með svipaðan lýðræðisþroska sem fyndist í alvöru flott að brjóta mannréttindi á þeim sem þeir eru ósammála. Nú vil ég taka fram að mér finnst þetta mál að engu leyti snúast um Kárahnjúkavirkjun og hvort maður sé fylgjandi henni eða ekki. Málið snýst um það hvort við séum fylgjandi rétti fólks til að mótmæla og fá réttláta meðferð jafnvel þótt mótmælin séu í andstöðu við almannavilja, jafnvel þótt mótmælendur valdi einhverjum skaða að á því máli sé tekið sérstaklega en ekki notað til að magna upp andlýðræðislegan ofsa og viðbragða (eins og að vísa fólki úr landi) sem hvorki eiga sér lagalega né siðferðislega réttlætingu. Enn hef ég hvergi séð að nokkur mótmælenda (fyrir utan þann sem sletti skyrinu) hafi verið ákærður fyrir skemmdarverk. Ef lögreglan er farin að taka upp á því að elta fólk sem yfirvöld telja óæskileg, beita það harðræði og útlendingastofnun jafnvel farin að vísa fólki úr landi sem eru íbúar EES og hafa öll sömu réttindi hérlendis og Íslendingar, þá stefnum við hraðbyri í fasistaríki, svipað því og er nú þegar farið að myndast í Bandaríkjunum og Bretlandi.
Þegar ég skoðaði þetta mál betur varð mér ljóst að sú þróun er reyndar löngu hafin hér á landi enda vandséð að finna útlendingafjandsamlegra land í Vestur-Evrópu en Ísland. útlendingastofnun hefur nánast undantekningalaust (held það finnist eitt dæmi um hið gagnstæða síðustu 10 ár) vísað hælisleitendum burt og öll vinnubrögð þeirrar stofnunar einkennast einfaldlega af útlendingahatri sem einkum beinist að óhvítum, ógermönskum og ókristnum. Þetta hljómar alltaf óhuggulegra og óhugnanlegra eftir því sem maður hugsar meir um það. Ég rétt vona að 60% þeirra sem sjá ástæðu til að taka þátt í þessari vefkönnun hjá Fréttablaðinu endurspegli ekki 60% þjóðarinnar því þá erum við í slæmum málum og bara tímaspurspál hvenær við eignumst okkar eigin Kristalsnótt.
112362439847417276
Pabbi og mamma eru í heimsókn og í dag fórum við á Smámunasafnið og Jólagarðinn. Þetta Smámunasafn er alveg stórkostlegt. Á þórsdag byrja ég í vinnunni aftur en þá eru endurmenntunardagar. Ég er enn að velta því fyrir mér hvort ég eigi að prufa nýja lúkkið mitt þá eða bíða með það fram á starfsdaga eftir helgi eða jafnvel fram að skólasetningu mánadaginn 22. Þetta er hluti af átaki hjá mér til að reyna að auka virðingu kennarastéttarinnar. Vissulega frekar ódýrt að ætla sér að ná því markmiði með skyrtu og bindi en samt tilraunarinnar virði. Það er a.m.k. umhugsunarefni hvort virðingin myndi aukast ef kennarar klæddust almennt jakkafötum og drögtum í vinnunni?
Eins gott að skólinn er að fara að byrja, mér er farið að leiðast all hrikalega í þessu sumarfríi og þegar mér leiðist kem ég engu í verk (varla að blogga einu sinni). Þessi sumarfrí kennara eru alltof löng. Alveg væri ég til í að stytta þau gegn því að minnka álagið aðra daga ársins, t.d. minnka kennsluskylduna en það var ekki gert síðast þegar kennsluárið var lengt þá var bara styttur undirbúningstíminn (enda fóru allir að undirbúa sig mikið minna – not). Ég er ekki búinn að gera neitt af því sem ég ætlaði að gera í sumar. Hins vegar sagði afgreiðslumaðurinn í Nætursölunni við vin sinn í símann meðan ég var að bíða eftir að Kári væri búinn á klósettinu að hann hefði ekki gert neitt í fríinu sínu og það hefði verið alveg frábært. Ég er að hugsa um að tileinka mér þetta hugarfar.
112320570619007259
Ég hef merkilega gaman af þáttunum Mythbusters á Discovery. Umsjónarmennirnir taka fyrir ýmsar nútímaþjóðsögur og athuga síðan hvort það sem þær fjalla um sé mögulegt (þ.e. ekki hvort það hafi gerst eða ekki) og ef það er ekki mögulegt hvað þurfi þá til til að framkvæma það. Einna skemmtilegast fannst mér þegar þeir skutu bílaárekstrarbrúðu út úr risastóru röri sem var 1 metri í þvermál. Til að það tækist þurfti hins vegar miklar tilfæringar og því ljóst að þjóðsagan sem þessi tilraun byggði á hefði alls ekki getað átt sér stað.
112311458523934483
íðan sló ég upp „vanalegt kökudeig“ á Google og þetta er niðurstaðan sem ég fékk. Sannarlega áhugavert.
112308791238931245
Núna erum við búin að skipta úr Internet Explorer yfir í Mozilla Firefox. Ég er ekki alveg viss út af hverju en eitthvað voru öryggisstillingarnar í Explorernum að böggast út í nýja ADSL-sjónvarpið og neitaði hann að fara á netið en bara á svæðinu hennar Gullu. Þetta vandamál er úr sögunni núna, en e.t.v. er það líka úr sögunni í Explorernum eftir að Jói mágur útskýrði fyrir Gullu hvernig hún ætti að breyta þessum stillingum. Hins vegar hef ég innbyggða andúð á Microsoft svo ég er bara mjög ánægður með þessi skipti. Næst er bara að skipta Windowsinu út fyrir Linux og þá erum við í góðum málum. Ég get hvort sem er ekki spilað Civilization eftir að við fengum nýja skjáinn. Ég er viss um að þetta er bara eitthvert stillingaratriði en skjárinn slekkur alltaf á sér þegar tölvan fer að breyta skjástillingunum fyrir leikinn og það hefur hingað til reynst mér ómögulegt að kveikja á honum aftur nema með því að endurræsa tölvuna.
Annað bögg er að flautan á bílnum fór á full blast kl. 4 í nótt vegna rigningarinnar sem er búin að vera en rafkerfið í bílnum fer allt til fjandans þegar það verður of rakt. Hann var orðinn þurr upp úr hádegi og hægt að nota hann aftur, hins vegar þurfti Gulla að taka leigubíl í vinnuna í morgun. Það er margoft búið að fara með bílinn á verkstæði til að láta laga þetta en ekkert gengið. Það eina sem virkar er að taka rafmagnið úr sambandi og bíða eftir að hann þorni. Svo þarf ég líka að láta stilla ljósin svo ég geti farið með hann í skoðun. Ég er að vona að þetta sílikonkúplingardæmi sé ekki eithvað sem kemur til með að valda vandamálum þar.
112295729958869916
Núna er ég að fara að sofa.
112285834293083118
Ég er ekki í góðum fíling en ég átta mig ekki á út af hverju.