Síðasta leiksýningin sem ég fór á í þessu leikhúsmaraþoni mínu var Þjónn í súpunni sem var sýndur á Friðriki V. en ekki í leikhúsi. Leiksýning og þriggja rétta máltíð á 5.900,-
Forsendur verksins eru þær að Friðrik er á leiðinni á hausinn með allt sitt og stingur af frá skuldunum og skilur fjölskylduna eftir í súpunni sem reynir veikum mætti og lítilli kunnáttu að bjarga málum. Bróðir Friðriks, Kristján N. (Kristján níundi), tekur að sér rekstur staðaransins ásamt konu sinni og fjölskyldu hennar. Margt fer úrskeiðis og ljóst að um algera viðvaninga í veitingahúsrekstri er að ræða. Leikarar standa sig allir með prýði og verkið er stórskemmtilegt á köflum. Ég skal viðurkenna að ég hef séð betri gamanleiki en líka verri. Verk sem skilur ekki mikið eftir sig en sem hægt er að hafa gaman af meðan á því stendur.
Ég gef þessu þrjár stjörnur (af 5).
Þar sem sýningin var á veitingastað, og það m.a.s. veitingastað sem hlotið hefur mikið lof fyrir sælkeramatreiðslu, er líklega ekki hægt að skrifa umfjöllun um þessa sýningu á þess að minnast á matinn.
í forrét var Lerkisveppasúpa. Hún var ágæt en sveppirnir voru vatnskenndir og ógeðslegir. Hefði líklega þurft að sía þá úr súpunni áður en hún var borin fram. Ég hef fengið álíka góða sveppasúpu úr Maggi-pakka. Brauðið með súpunni var hins vegar mjög gott.
í aðalrétt var kjúklingabringa á bygghrúgu með hvítlaukssósu. Það var allt vont við þennan rétt. Bygghrúgan var vatnssósa og bragðlaus. Að borða hana var svona eins og að bíta í litlar kúlur sem sprungu upp í manni svo bragðlítill safinn lak niður í kok. Kjúklingabringan var líka bragðlaus og nánast eins og kokkarnir hefðu gleymt að krydda hana. Mjög merkilegt hins vegar að það virtist vanta í hana vöðvaþræðina. Þetta var nánast eins og kjúklingafars sem búið var að pressa í bringu. Verulega ógeðslegt. Hvítlaukssósan var ágæt en líklega sprautað úr brúsa frá Mati- og Mörk (Gunnars okkar Norðlendinga). Ekki það sem maður á við að búast á veitingastað. Það vantaði algerlega grænmeti eða bragð í þennan rétt.
í eftirrétt var skyramisú. Það var allt í lagi. Lítið annað um það að segja. Tiramisú (Skyramisú) er nú eiginlega réttur sem ekki er hægt að klúðra. Sem minnir mig á að í fyrra skiptið sem ég fór að borða á Friðriki V. var súkkulaðið það eina sem var gott. M.a.s. ísnum tókst þeim að klúðra.
Ég ætlaði að enda þetta á því að segja að Friðrik V. klúðrar ekki því sem ekki er hægt að klúðra en hann klúðrar öllu öðru en í ljósi þessa með ísinn er það líklega ekki rétt. Friðrik V. klúðrar nánast öllu, líka því sem ekki á að vera hægt að klúðra.
Ég gef matnum eina störnu (af 5). út af því að brauðið með súpunni var gott og þeir höfðu vit á að hafa eftirrétt sem var allt í lagi.
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: október 2009
Nauðgun = káf á 5 píkum (eða tveimur og hálfri)?
Á dv.is er í dag að finna frétt sem ber yfirskriftina „12 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn átta ára stúlku“. Þar kemur fram að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi mann í eins árs fangelsi og til greiðslu 600 þúsund króna í miskabætur fyrir að þukla á kynfærum 8 ára stúlku.
Ég ætla ekki að fara að fjalla um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum hér og ég ætla ekki einu sinni að reyna að dæma um það hvort umræddur dómur sé of vægur, passlegur eða of þungur. Það er önnur umræða.
Það sem vakti athygli mína var að á dv.is í dag var líka að finna aðra frétt: „Hæstiréttur þyngdi dóm yfir barnaníðingi“. Þar stendur: „Dæmdi Hæstiréttur manninn í fimm ára fangelsi fyrir að hafa í mörg skipti nauðgað dóttur sinni sem var tveggja og þriggja ára þegar brotin voru framin.“ (Það kemur svo hins vegar fram í dómnum að um „önnur kynferðismök við telpuna en samræði“ var að ræða). Það kemur meira að segja fram í fréttinni að Hæstiréttur þyngdi dóm héraðsdóms sem hljóðaði upp á tveggja ára fangelsi.
Spurningin er bara hvort þetta er eðlilegt? 5 sinnum lengri fangelsisvist og 2,5 sinnum hærri miskabætur? Ég vil alls ekki gera lítið úr alvarleika þess sem kom fyrir þessa átta ára gömlu stúlku en er í alvörunni bara fimm (eða 2,5) sinnum alvarlegra að misnota 2 – 3 ára barn kynferðislega marg oft í rúmlega eitt ár? E.t.v. er það bara ég en ætti sá síðarnefndi ekki að fá lífstíðarfangelsi eða a.m.k. 15 ár?
Það er líka merkilegt að á dv.is er fyrrgreindi maðurinn nafngreindur en ekki sá sem fékk þyngri dóminn.
Leiksýning 3: Lilja
Svo var það fimmtudaginn 8. október að mér var boðið á generalprufu (aðalæfingu) á Lilju eftir Jón Gunnar Þórðarson í leikstjórn höfundar hjá LA.
Það verður að segjast eins og er að þetta er mjög magnað stykki og allt við það mjög fagmannlegt. Leikarar stóðu sig með prýði og ekki síst Jana María Guðmundsdóttir sem leikur Lilju sjálfa. Sumir leikaranna fara með mörg hlutverk og ferst það vel úr hendi. Það er einna helst að óþægilegt sé að Þráinn Karlssön leikur tvö mjög viðamikil hlutverk, annað fyrir hlé og hitt eftir hlé, og þó hann geri báðum mjög góð skil finnst mér ekki sniðugt að láta sama leikara leika tvö svo stór hlutverk.
Lýsing og sviðsmynd eru hreint frábær og ótrúlegt hvað leikmyndahönnuðum (Dýri Bjarnar Hreiðarsson, Bjarki írnason og Sunna Björk Hreiðarsdóttir) tekst að gera þetta litla pláss í Rýminu hjá LA stórt. Leikmyndin er á tveimur hæðum og hræddastur var ég um að leikarar myndu hrynja á milli hæða á stundum.
Leikritið sjálft er mjög átakanlegt og byggir á mynd Lukas Moodysson Lilja 4-ever. Það er ekkert verið að fara út af söguþræði myndarinnar og það má segja að þarna sé mestu mannvonsku heimsins demt framan í áhorfendur án þess að draga neitt undan. í raun er sýningin tilfinningaklám af verstu sort.
Samt ákaflega vel unnið verk, áhrifaríkt og skilur áhorfendur eftir í nettu sjokki. Ég gef alveg 4 stjörnur (af 5).
Leiksýning 2: Við borgum ekki! Við borgum ekki!
Daginn eftir að Memento mori var frumsýnt fór ég svo að sjá Við borgum ekki! Við borgum ekki! hjá Leikfélagi Akureyrar. Reyndar hafði ég ætlað mér á tónleika með Ljótu hálvitunum þetta kvöld, en þar sem konan var búin að vera veik dagana á undan hafði ég ekki farið og keypt miða því ég var ekki viss um að hún yrði búin að ná sér. í hádeginu þennan dag, þegar ljóst var að hún treysti sér á tónleika, fór ég svo í Pennan-Eymundsson til að kaupa miða en þá var uppselt.
Ég var eiginlega búinn að afskrifa það að fara á Við borgum ekki! Við borgum ekki! því ég hélt að þetta yrði bara sýnt hér á Akureyri í september og þá komst ég ekki. Það var því ákveðið með mjög stuttum fyrirvara að við hjónin myndum skella okkur í leikhús í staðinn fyrir að fara á tónleika.
Við borgum ekki! Við borgum ekki! er dæmigerður farsi, en þó ekki. Hann byggir sem sagt ekki á þessum dæmigerða misskilningi og því að persónur eru ævinlega að fara á mis hver við aðra, heldur hefst leikurinn á lýgi sem svo vindur upp á sig þar til í óefni er komið. Það er búið að laga verkið talsvert að aðstæðum (hruninu og öllu því) og vel má segja að það eigi mikið erindi við samfélagið í dag. Það er samt ekkert verið að velta sér upp úr kreppunni þó svo að hún leggi grunninn að sýningunni.
Sviðsmynd er mjög látlaus og hentar sýningunni vel, engin tilþrif í sviðslausnum eða lýsingu en slíkt ætti heldur kannski ekkert svo vel við þetta verk. Sviðsmyndin, hljóðvinnslan og ljósahönnunin nægir alveg. Það þarf ekki tilþrif á þeim sviðum til að halda áhorfendum við efnið. Hér er það textinn og aksjónin sem er aðalatriðið.
Leikararnir komast allir veL frá sínu. Halldór Gylfason leikur mörg smáhlutverk og gerir þeim öllum góð skil. Þetta eru þakklát hlutverk sem bjóða leikurum upp á mikil tilþrif og Halldór nýtir það vel. Meira að segja er svolítið gert grín að því hvað allar aukapersónur eru líkar.
Af öðrum leikurum stóðu hjónin sem leikin voru af Ara Matthíassyni og Maríönnu Clöru Lúthersdóttur upp úr. Þau voru aðsópsmikil á sviðinu og hrein unun að fylgjast með þeim sökkva dýpra og dýpra í blekkinguna.
Jóhann G. Jóhannsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir léku hin hjónin og gerðu það ágætlega. Það má kannski segja að þau séu með erfiðari hlutverk en hin þrjú þar sem þeirra karakterar bjóða ekki upp á jafn mikil tilþrif þar sem bæði eru frekar hlédræg og óframfærin.
Ég hló nánast stanslaust allan tímann og það er jú það sem gamanleikur snýst um. Verk sem ristir e.t.v. ekki djúpt en er alveg þrælfín skemmtun.
Ég gef hiklaust 4 stjörnur (af 5)
Leiksýning 1: Memento mori
Þetta byrjaði allt sumarið 2005. Þá var haldin leiklistarhátíð áhugaleikfélaga Leikum Núna! á Akureyri (sjá blogg mitt um hana hér). Á þessum tíma var ég að leika í Taktu lagið Lóa hjá Freyvangsleikhúsinu og bauðst ódýr passi á þessa hátíð. Þar sem ég er að eðlisfari mjög nískur maður gerði ég mér far um að fara á sem flestar sýningar og sleppti engum nema sýningartími skaraðist.
Það var helsta ástæða þess að ég fór að sjá Memento mori hjá Hugleik og Leikfélagi Kópavogs. Fyrirfram hafði ég haldið að þetta væri eitthvað „artý fartý“ og ekkert fyrir mig en ég heillaðist alveg af þessu stykki og það hafði mikil áhrif á mig. Vissulega talsvert listrænna og framúrstefnulegra en það leikmeti sem ég var vanur en þrusugott, frábærlega leikið og mjög fyndið. Lifði sýningin svo óáreitt í huga mér um sinn.
Innan Freyvangsleikhússins hafði svo verið talað lengi um að gera eitthvað öðruvísi að hausti. Setja upp minni sýningu, listrænni, með meiri galsa, eitthvað sem við gætum meira gert sjálf. úr þessari hugmynd hafði aldrei orðið neitt. S.l. sex ár hef ég tekið þátt í uppfærslum Freyvangsleikhússins með einni undantekningu (sem voru Prímadonnur). Ég ákvað að taka að mér lítið hlutverk í Vínlandi en fékk hlutverk sem krafðist nærveru minnar á sviðinu nánast allan tímann. Ég ætlaði ekki að vera með í Kardimommubænum eða Þið munið hann Jörund, en var kallaður til þegar leikarar heltust úr lestinni, annars vegar Pylsugerðarmaðurinn og hins vegar Trampe greifi. Ég hafði því í raun tekið mun meiri þátt í uppfærslunum s.l. þrjú ár en ég hafði ætlað mér.
Þegar við ákváðum í haust að setja upp Dýrin í Hálsaskógi eftir áramót ákvað ég því enn einu sinni að halda mig til hlés í þeirri uppfærslu og þá kviknaði sú hugmynd að gera þá loksins alvöru úr því að setja upp verk að hausti.
Mér datt strax í hug verkið Memento mori og bar það undir stjórnina ásamt þeirri frómu ósk að fá að leikstýra því sjálfur. Mér til mikillar ánægju var það samþykkt. Æfingar hófust fyrstu vikuna í september og svo var frumsýnt 2. október þó oft liti út fyrir að það mundi ekki nást, enda erfitt að ná hópnum saman framan af.
Ég gaf það út strax í byrjun að allir sem hefðu áhuga á að vera með fengju að vera með og var því með tíu leikara fyrir verk sem skrifað var fyrir átta. Það kom ekki að sök þar sem í verkinu eru mörg minningaratriði þar sem aðalpersónurnar rifja upp atburði úr lífi sínu og þá fannst mér eiginlega koma betur út að hafa þessa tvo aukaleikara til að leika í þeim atriðunum, frekar en að láta hina aðalleikarana um það.
Ég ákvað líka strax í byrjun að reyna að gleyma sem mestu um uppsetninguna hjá Hugleik og Leikfélagi Kópavogs, því annars ætti ég á hættu að setja bara upp eftirlíkingu af þeirri sýningu sem gæti aldrei orðið jafn góð. Sú sýning var nefnilega mjög mögnuð. Leikarar notuðu búninga sýna mikið og bjuggu í raun til alla sviðsmynd með þeim. Leikur var líka sterkur og jafnvel ýktur (ég kalla það stundum pawer-acting).
í staðinn útbjó ég mjög einfalda sviðsmynd úr svörtum kössum sem hægt er að nota til að búa til palla, hásæti, kofa, pyntingarbekk og háhýsi. Ég notast meira við sviðsmuni þó þeir séu ekki áberandi, en helsti munurinn er líklega (fyrir utan að vera með fleiri leikara) að skiptingar milli raunveruleika og minninga eru framkvæmdar með ljósum. Leikurinn er frekar einlægur en kraftmikill, þó vonandi sé talsverður kraftur á réttum stöðum.
Niðurstaðan er að ég vona ánægjuleg fyrir áhorfendur (og nóg heyrðist mér hlegið á þessum tveimur sýningum sem ég hef farið á) og líka áhrifarík. Það verða hins vegar aðrir en ég að dæma um hvernig til tókst.
Leikhúsfíkill
Ég er að fara í leikhús í kvöld. Þessi fullyrðing er hvoru tveggja; ekki alveg rétt og ekkert merkileg nema fyrir það að það er í fjórða sinn á einni og hálfri viku sem ég fer í leikhús.
í fyrsta lagi er hún ekki rétt því ég er að fara á leiksýningu á veitingastaðnum Friðriki V. Þar á að sýna Þjónn í súpunni með þriggja rétta máltíð. Það kostar 5.900,- kr. á manninn sem er mun minna en ég borgaði bara fyrir matinn í síðasta (og eina) skipti sem ég fór á Friðrik V. Ég vona að maturinn núna verði betri en þá.
í öðru lagi er þetta svolítið merkilegt því 2. október fór ég á frumsýningu á Memento mori hjá Freyvangsleikhúsinu (og fór reyndar aftur 9. október og fer aftur 17. október). Samt kannski ekki svo skrýtið í ljósi þess að ég leikstýrði þessu sjálfur og hef þ.a.l. talsvert meiri áhuga á því hvernig tekst til en hinn almenni leikhúsgestur.
3. október fór ég svo á Við borgum ekki! Við borgum ekki! eftir Dario Fo. Það var leikhópurinn Nýja Ísland sem setti þetta upp í samvinnu við Borgarleikhúsið og Leikfélag Akureyrar.
8. október var mér boðið á generalprufu á Lilju hjá LA. Og eins og áður sagði er ég svo að fara á fjórðu sýninguna í kvöld.
Vel af sér vikið hjá mér. Ég mun svo blogga einhverja umfjöllun um hverja sýningu á næstunni. Fylgist spennt með! (Frábær cliffhanger hjá mér).
Vantrúarpenni
Trúarleg meðferð
Ég verð að vísa á þennan pistil hjá Jennýu Önnu. Það er rétt sem hún bendir á að það er undarlegt að hugsa til þess í dag aað enn skuli ríkið beina fólki í meðferð hjá áhugasömum trúarhoppurum og styrkja þá starfsemi í stað þess að reka vísindalega meðferð með menntuðum sérfræðingum. Það er sérstaklega undarlegt í ljósi reynslunnar af slíkum stofnunum í gegnum tíðina bæði hérlendis, t.d. stúlknaheimilið Bjarg, sem og erlendis, t.d. írskir klausturskólar. Það ætti öllum að vera ljóst að slík starfsemi er stórhættuleg.
AA er ekki eins augljóst dæmi. Margir sem fara í meðferð þar gleyma sér samt í einhvers konar ofsatrú og heilagleika fyrst eftir að meðferð lýkur og verða jafnvel eitt helsta kennivald fjölmiðla og almennings í trúarlegum efnum um tíma (fara jafnvel að svara eilífðarspurningunum í útvarpi eins og ekkert sé sjálfsagðara). Sem betur fer rjátlar þetta af flestum en þó eru mörg dæmi þess að menn fara úr alkanum í AA og þaðan í guðfræðina (sem er náttúrulega ekki fræðigrein frekar en stjörnuspeki) og enda sem prestar á hálfri til heillri milljón frá þjóðinni á mánuði (já, líka þeim sem eru ekki í költinu).
Vissulega ekki jafn skelfilegt dæmi og Byrgið en umhugsunarvert samt.
Hjörvar segir það sem ég vildi sagt hafa.
Allegóría
Einu sinni var fjölskyldufaðir, eða kannski elsti sonur, gamall frændi eða afi eða e-ð. A.m.k. þá réð þessi einstaklingur öllu sem hann vildi í fjölskyldunni og öllum fannst það bara alveg frábært, sérstaklega gömlu frænkunni og móðurinni, enda fengu þær stundum að ráða e-u líka, en bara ef fjölskylduföðurnum hentaði. Sá eini sem hafði eitthvað við þetta fyrirkomulag að athuga var uppreisnargjarni sonurinn sem var farinn að hanga í kommúnu og taka þátt í Saving Iceland, svo það tók hvort sem er enginn mark á honum.
Hins vegar þá hafði fjölskyldufaðirinn leiðst út á varasamar brautir, kynnst vafasömum mönnum og farið að stunda vara- og vafasöm viðskipti. Hann var sem sagt búinn að skrifa upp á ansi marga vafasama pappíra. Frænkan og móðirin vissu svo sem af þessu en trúðu fjölskylduföðurnum sem hvað eftir annað fullyrti að allt yrði í himna lagi. Þær voru m.ö.o. orðnar bullandi meðvirkar í þessu öllu saman. Sá eini sem maldaði í móinn var uppreisnargjarni sonurinn sem enginn tók mark á.
En svo fór að lokum að allt fór til fjandans, víxlarnir féllu á fjölskylduna og þau neyddust til að borga. Þó svo fjölskyldufaðirinn segði að það ætti ekki að borga skuldir óreyðumanna.
Núna er ástandið þannig að móðirin er búin að taka völdin af föðurnum og hætt að vera meðvirk, búin að gera fjölskyldunni grein fyrir að það verði að borga skuldirnar og setja föðurinn í meðferð. En þá ber svo við að hinir neita að spila með. Fjölskyldufaðirinn neitar að fara í meðferð og stendur bara í eldhúsinu, þvælist fyrir og gargar: Við borgum ekki, við borgum ekki, gamla frænka er bullandi meðvirk eins og alltaf og æfinlega og ruglar bara út í eitt, en nú ber svo við að sá eini sem varaði við þessu allan tímann, sá eini sem hvað eftir annað benti á að fjölskyldufaðirinn væri í sukkinu, tekur undir með honum. Hann vill ekki borga skuldirnar sem fjölskyldufaðirinn efndi til og gargar sig hásan um óréttlæti heimsins.
Eftir stendur móðirin með skuldirnar á bakinu og allir farnir að kenna henni um þær!