Jói mágur kom í gær og vírishreinsaði tölvuna, júhú! Það voru líka tvær sýningar á „Taktu lagið Lóa“ um helgina. Frumsýningin á föstudaginn tókst bara mjög vel þrátt fyrir að reykvélin hafi farið af stað á öðrum stöðum en hún átti að gera og sýningin í gær var líka ágæt. Það verður spennandi að lesa dómana þegar þeir koma.
Það að við séum byrjuð að sýna þýðir líka að maður hefur kvöldin virka daga loksins frí, ef frí skyldi kalla. Það stendur til að halda stjórnarfund í BKNE, það er verið að reyna að lokka mig í að spila fótbolta og svo á að vera ein æfing í vikunni líka.
Konan mín fór að skellihlæja þegar ég sagði henni að ég væri að hugsa um að hitta nokkra kalla á miðvikudagskvöldum og spila með þeim fótbolta. Ég hef ekki beint verið þekktur fyrir að hafa áhuga á líkamlegri áreynslu hingað til. Reyndar stökk ég hæð mína í loft upp af gleði þegar ég kláraði menntaskólann yfir því að ég myndi aldrei framar á ævinni þurfa að stunda leikfimi. Það verður spennandi að sjá hvort ég gugni á þessu!
Hins vegar þá á ég hvorki íþróttastuttbuxur né -bol og hef ekki átt í 14 ár. Hins vegar keypti ég af rælni íþróttaskó á útsölu í Hagkaup síðasta vor (kostuðu 1.000,- kr.) og hef núna loksins afsökun til að nota þá.
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: febrúar 2005
110907782889758838
Það er kominn einhver vírus í tölvuna heima sem bætir enn við bloggletina þessa dagana. Það er annars fátt að frétta. Frumsýning á „Taktu lagið Lóa“ á föstudaginn 25. og alveg brjálaðar æfingar alla vikuna. Ég fékk náttúrulega frí um helgina til að fara á aðalfund Félags Grunnskólakennara og held að um þann fund sé best að hafa sem fæst orð. Við hér fyrir norðan náðum samt fram þremur af fjórum markmiðum sem við fórum með á fundinn og það hlýtur að teljast gott.
Bætti við tengli á mömmu hér til hliðar. Endilega kíkið á hana.
110804395814341822
Merkilegt hvað Framsóknarmönnum finnst skrýtið hvað það er mikið talað um flokkinn þeirra á neikvæðu nótunum þessa dagana! Ætli það komi einhverjum öðrum á óvart? Ég er líka viss um að ég á eftir að líta á það sem samsæri gegn Samfylkingunni þegar lætin byrja af alvöru fyrir formannskosningarnar í vor. Ég veit ekki enn hvort ég á að kjósa klón A(kk) eða klón B(kvk). Bæði virðast þau vera með klúðurgenið en Evrópulitningurinn virðist eitthvað mengaður í klóni B. Hann virðist hins vegar hafa komist nokkuð ómengaður úr gjafanum JBH í klón A. Nú bíð ég bara eftir símtalinu frá þeim frambjóðenda sem sagðist ætla að vinna þetta svona maður á mann. Hann þarf að byrja á þessu ef hann ætlar að ná að hringja í 14.000 manns fyrir vorið, svona með þingstörfum og allt!
BBíB
110787043614265811
Mikið finnst mér merkilegt þegar fólk í áhrifastöðum á landsbyggðinni, sveitarstjórnarmenn og svoleiðis, er að slá sig til riddara með því að mótmæla flutningi flugvallarins úr Vatnsmýrinni. Svo er sumu af þessu fólki veitt BRAVÓ á staðbundnum sjónvarpsstöðvum fyrir að skipta sér af skipulagsmálum í hjarta annarra byggðarlaga. Ég held það kæmi annað hljóð í strokkinn hjá Akureyringum ef Eyrin væri undirlögð af flugvelli en nú stæði til að flytja hann inn í fjörð til að rýma mikilvægt byggingarland fyrir bæinn og Reykvíkingar færu að skipta sér af því. Innanlandsflug skiptir líka æ minna máli og í útvarpinu í gær heyrði ég að það væri aðeins um 3% þeirra sem til höfuðborgarinnar koma sem koma með innanlandsflugi. Þá held ég að það væri skynsamlegra fyrir Akureyringa að styðja flutning flugvallarins og fá í staðinn kannski stuðning Reykvíkinga við heilsársveg yfir hálendið til Akureyrar.
Svo var að birtast ný skoðanakönnun sem sýnir að Samfylkingin er dottin niður fyrir 30% og Sjálfstæðisflokkur nálgast 40% aftur. Það er slæmt. Þar virðist duga þeim vel að láta lítið á sér bera og láta samstarfsflokkinn um að taka á sig skammirnar fyrir allt sem aflaga hefur farið í stjórnarsamstarfinu. Framsókn er líka mjög lág og þetta hlýtur því að tengjast innanflokksátökum í þessum tveimur flokkum og afsannar þannig hið fornkveðna að betra er illt umtal en ekkert. Vinstrigrænir koma ágætlega út úr þessu og Frjálslyndir mælast nokkuð stöðugir. Það finnst mér bæði jákvætt og merkilegt. Yfirleitt hafa framboð sprottin af svekkelsi og gloríum eins manns dugað skammt. Sjálfum finnst mér Frjálslyndir mun skaplegri og viðfeldnari hægrimenn en Sjálfstæðismenn.
110744355344396301
Það hefur aldeilis verið mikil bloggleti í gangi á þessum bænum. Ég lofa samt ekki að ég verði duglegri við þetta á næstu vikum. Æfingar á Taktu lagið Lóa ganga bara vel en samt er komið verulegt stress í marga um hvort þetta takist fyrir frumsýningu sem á að vera 25. Ég er kominn með mjög undarlegt skegg vegna þátttöku minnar í þessu leikriti og þó svo að krökkunum í skólanum finnist það flott þá fór ég allt í einu að hugsa um hvernig þetta myndi virka á fulltrúa á aðalfundi Félags Grunnskólakennara en þar er ég að fara að reyna að bjóða mig fram í embætti eftir rúmar tvær vikur. Ég er ekki viss um að ég myndi sjálfur treysta manni með svona skegg.
Mig langar til að blogga aðeins um formannsslaginn í Samfylkingunni. Það eru svo margir að kvarta yfir því að það sé verið að hella þessu yfir fólk sem engan áhuga hefur og það er í sjálfu sér rétt. Hins vegar er enginn að þvinga fólk til að fylgjast með stjórnmálum og mér hefur reyndar fundist að of fáir láti þau sig varða heldur en hitt. Ekki að það hafi mikil áhrif á stjórnmál á Íslandi hvort þeirra Össurar eða Ingibjargar vinnur. Eru þau ekki nánast sama manneskjan í mismunandi kyni? Ég hef áður sagt að ég vildi heldur sjá einhvern þriðja frambjóðanda taka þetta. Einhvern sem væri meiri jafnaðarmaður en þau tvö, staðfastari og einlægari Evrópusinni en Ingibjörg. Ætli ég hallist sjálfur ekki meira að Össuri einmitt vegna þess. Sjálfur kem ég hins vegar ekki auga á þennan þriðja frambjóðanda og þá er náttúrulega euðvelt að rausa úti í horni. Er framboðsfresturinn annars útrunninn?
Davíð Oddson virðist hafa tekið stakkaskiptum eftir að hann gekkst undir þessa aðgerð í fyrra. Hann er að vísu ennþá jafn þvermóðskufullur (t.d. varðandi írak) og alltaf (Þvermóðska er það sem ég kalla staðfestu hjá jafnaðarmönnum) en ég hef ekki heyrt hann missa sig í skítkast, hroka og leiðindi í langan tíma. Ætli það hafi ekki bara verið þegar hann kallaði okkur afturhaldskommatitt. Kannski eru það fleiri en ég sem ætla að taka sig á og reyna að bæta sig í viðmóti og framkomu á árinu?
ífram Davíð. (Ég held ég hafi aldrei sagt þetta áður!)