Núna er ég að horfa á kosningaþátt á NFS um sveitarstjórnakosningarnar. Enn hefur enginn minnst á flugvöllinn í Vatnsmýrinni og þar með vona ég að Oktavíuvæðing umræðunnar sé liðin. Skoðanakannanir benda til þess að meirihlutinn sé fallinn. Framsókn tapar gífurlega en Sjálfstæðisflokkurinn litlu. Það er smá ósamræmi á milli kannana um hvort Samfylking eða VG sé með þrjá en L-listinn fær einn í öllum könnunum. Miðað við það sem ég heyrði í oddvita þess flokks í þættinum áðan þá er það einum fulltrúa of mikið. VG virðist hafa það helst á stefnuskrá sinni að byggja upp mannfreka láglaunastarfsemi (þ.e. ferðaþjónustu) og Sjálfstæðisflokkurinn er bara ánægður með sitt. Merkilegt þykir mér þó að allir dásama þeir skólakerfið á Akureyri (sem er gott) og minnihlutinn ræðst á meirihlutann í skipulagsmálum. Nú var borgarafundur eða hvað sem á að kalla það um skipulagsmál sem virðist hafa verið haldinn fekar upp á lookið en nokkuð annað, íbúar nálægt fyrirhugaðri Dalbraut mótmæltu og þá var hún blásin af svo mótmæltu allir aðrir því að hún var blásin af svo hún var sett inn á skipulagið á ný. Stefnufestan er þannig ekkert gífurleg í þessum málum en persónulega met ég það nú meira að hlusta á fólk en að sitja við sinn keip. Hins vegar finnst mérskrýtið að hvorki VG né Samfylkingin benda á það að Akureyrarbær eyðir mun minni hluta af tekjum sínum í grunnskólana en flest önnur sveitarfélög og gumar sig samt af því að vera skólabær. Aðallega vegna skólanna sem ríkið rekur. Um þetta var mjög áhugaverð grein hjá Gísla Baldvinssyni sem ég finn ekki akkúrat núna (greinina þ.e. en ekki Gísla) en hann er að því er ég best veit innsti koppur í búri hjá Samfylkingunni svo hann hefði getað bent mönnum á þetta.
Annars er mest fjallað um atvinnumál. Þar má skipta flokkunum í þessa hópa:
1. hópur: Framsók og L-listinn. Gráta það að fá ekki álver í Eyjafjörð en hafa ekkert fram að færa
2. hópur: Samfylking og Sjálfstæðisflokkur. Vilja byggja upp þjónustustarfsemi (ekki almennt vel launuð en krefst oft nokkurrar menntunar) og sjá álver í Þingeyjarsýslum sem tækifæri til að efla þjónustu á Akureyri.
3. hópur: VG. Alfarið á móti álveri en vill byggja upp ferðamannaþjónustu (eins og áður sagði mannfrek láglaunastarfsemi).
Ég sakna svolítið 4. hópsins sem mér finnst að Samfylkingin ætti að fylla. Þ.e. þeirra sem vilja styrkja og efla hámenntastör á Akureyri, halda þannig í útskriftarnema HA og koma svæðinu upp úr því að vera slíkt láglaunasvæði sem það er. Þessu er hægt að ná fram með nýsköpunarstyrkjum og tilslökunum á álögum á slík fyritæki, t.d. í gegnum útsvar, húsaleigu o.s.frv. Þetta gæti líka orðið landsbyggðarstefna Samfylkingarinnar á landsvísu í stað hálfvolgrar afstöðu með og á móti stóriðju og náttúruvernd.
Sem sagt: Samfylkingin er enn (í mínum huga a.m.k.) lang besti kosturinn hér á Akureyri (eftir að Oktavía fór) en VG og Sjálfstæðisflokkur í jöfnu 2. – 3. sæti. Framsókn fær 4. sætið hjá mér en L-listinn rekur lestina. (Þess ber að geta að ég er ekki hlutlaus í þessu mati enda félagi í Samfylkingunni).
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: apríl 2006
Af ritfærni og daglegum raunum
Um daginn skrifaði ég smá hugleiðingar um fermingu sonar míns. Um hana komu stax nokkrar athugasemdir hér á blogginu og meðal annars fyrirspurn um hvort ekki mætti birta þessar hugleiðingar á vantrúarvefnum. Ég tók því bara nokkuð vel og sé núna að þar hafa einnig skapast talsverðar umræður um pistilinn. Sá pistill var svo sem ágætlega skrifaður þó hann teljist seint nein ritsnilld og ég held að umræðurnar um hann stafi frekar af innihaldinu en framsetningunni. Hins vegar voru tengdaforeldrar mínir í brunch hjá okkur í hádeginu og þá snerust umræðurnar af einhverjum ástæðum að fólki sem er ákaflega fært á sínu sviði, hvort sem það er í bakstri, matargerð, listum eða öðru. Af einhverjum ástæðum varð mér á að benda á að flestir hefðu eitthvað svona sem þeir væru mjög klárir í þó þeir væru meðalmenn á öllum öðrum sviðum. T.d. ætti ég sjálfur frekar auðvelt með að setja saman læsilegan texta og jafnvel lauma í hann vísunum, myndlíkingum, myndhverfingum, andstæðum og ýmsum öðrum brögðum sem gerðu textann læsilegan án þess að verið væri að beygja hann um of að stílbrigðunum þannig að innihaldið yrði þræll framsetningarinnar. Þetta var gripið á lofti sem sjálfsdýrkun og mér legið á hálsi að telja sjálfan mig fullkominn. Það hafði ég þó aldrei sagt heldur aðeins talið sjálfum mér það til tekna að geta komið frá mér rituðu máli á faglegan máta (enda vinn ég m.a. við að kenna unglingum að gera það). Þetta finnst mér samt einkennandi á stundum að menn mega varla sjá eigin kosti á einhverju sviði án þess að vera orðnir sjálfhverfir narcisistar í augum annarra. Ég get meira að segja líka sé eigin ókosti á mörgum öðrum sviðum en það er alls ekki jafn gaman að fjalla um það.
Titill hinn fyrsti
Héðan í frá verða öll mín blogg með titli. Þar með er ég að forframast í bloggfræðum og stíga mikilvægt skref í átt að fullkomnun bloggfyrirbærisins. Annars er önnur ástæða sú að Mikki er hættur að birta fyrstu orðin í bloggfærslunni sem titil ef titilinn vantar (ef þið skiljið hvað ég á við). Ég las áðan bloggfærslu manns sem telur sig „vel þekktan í vissum kreðsum“. Ég var voðalega ánægður með sjálfan mig því ég held að ég sé vel þekktur í vissum kreðsum líka en svo fór ég að hugsa málið og komst að þeirri niðurstöðu að líklega eru vel flestir Íslendingar vel þekktir í vissum kreðsum (ekki sömu kreðsunum allir auðvitað). Mér finnst kreðsa fyndið orð (tíhíhí).
114475658884486467
Eldri sonur minn er að fara að fermast eftir rúma viku. Hann fermist borgaralega enda verið alinn upp utan trúfélaga og trúarbragða. Vegna þessa fór ég að hugsa um ferminguna mína á sínum tíma. Málið var það að ég uppgötvaði það frekar fljótt í fermingarfræðslunni að ég gat ekki ímyndað mér að staðfesta skírnarheitið og þegar ég sótti messu í kapellunni á hrafnistu eins og okkur var skylt að gera endaði það með því að ég lét mig hverfa og gekk út. Mér ofbauð svo trúarofstækið (í hefðbundinni messu hjá þjóðkirkjunni) að ég mætti aldrei aftur. Samt lét ég ferma mig! Af hverju? Jú, vegna þess að ég taldi mér trú um á þeim tíma að ég væri Deisti. Ég þóttist sjá slík merki í náttúrunni og náttúrulögmálunum sem báru þess vitni að þetta gæti ekki allt verið sprottið af tilviljun. Eitthvert æðra vald hlyti að hafa búið til þessi lögmál og sett allt af stað þó svo að það sama vald væri annaðhvort farið á braut, skipti sér ekki af sköpunarverkinu eða hefði einfaldlega ekki mátt til þess. Mér fannst því gersamlega tilgangslaust að vera að tilbiðja það. í dag gengur fólk sem trúir á e-ð svona undir nafninu sköpunarsinnar og kalla kenninguna vitþróunarkenningu (sem andsvar við þróunarkenningu). Munurinn er náttúrulega sá að þróunarkenningin er vísindi en vitþróunarkenningin eru hindurvitni. Allt á þetta rætur að rekja aftur til 17. aldar þegar endurreisnarmenn fóru að vegsama skynsemina og endurvekja forna tækniþekkingu og margir þeirra sáu að kristnin meikaði engann sens (ekki einu sinni á þeim tíma). Deismi var bull þá og vitþróun er það í dag.
Ég man líka greinilega hvenær þessi hræsni fór af mér. Það var daginn eftir ferminguna þegar ég vaknaði og tók vörutalningu á gjöfunum. Þá rann upp fyrir mér ljós af hverju ég hafði fermst og það hafði sko ekkert með neinn Deus að gera. Þess vegna vildi ég bjóða syni mínum upp á að fermast, fara í fermingarfræðslu sem snýst um manngildi, siðfræði o.s.frv. og fá hina eftirsóttu fermingarveislu án þess að vera að hræsnast með einhverja trú í því samhengi. Ef hann verður trúaður sem fullorðinn maður þá getur hann bara gengið í eitthvert trúfélag.
Ég hitti stundum fólk sem er ekki trúað en lætur samt skíra og ferma börnin sín en segir svo í framhaldinu að þau geti svo ákveðið þetta sjálft þegar þau verða fullorðin. Það finnst mér undarlegt.
Sjálfur er ég mjög hrifinn af ísatrú. Vættirnar í umhverfinu finnast mér vera mjög skemmtileg tákn fyrir náttúruna. Fossbúinn, gilbúinn og tröllin í fjöllunum eru mjög sterk tákn fyrir umhverfið, rétt eins og goðin sjálf tákna náttúruöflin. Goðsögurnar eru svo dæmisögur sem færa okkur heim allskyns grundvallar sannindi eins og til dæmis að varast græðgi, passa okkur á viðsjárverðu fólki, sækja okkur fróðleik o.s.frv.
Mig grunar að margt kristið fólk sé álíka kristið og ég er ísatrúar. Þ.e. það lítur á Biblíuna sem safn dæmisagna sem færi manni heim sjálfssögð sannindi um gildi góðmennsku, kærleika, fyrirgefningar o.s.frv. Guð er ágætt tákn fyrir hið góða í manninum og himnaríki er það að líða vel í samneyti með guði (þ.e. hinu góða í manni sjálfum). Helvíti er þá að sama skapi það að vera ekki í sambandi við þennan sama guð og líða illa. Þetta eru allt fallegt tákn til að nota yfir líðan okkar og umhverfi án þess að trú á nokkra yfirnáttúru sé þar á ferð.
Ég er voðalega hræddur um að ef kristnir teldust einungis þeir sem eru það í raun (samkvæmt trúarjátningunni) þá myndi fækka verulega í þjóðkirkjunni. A.m.k. held ég að mjög fáir í dag trúi í raun á þríeinan guð (já, yfirnáttúrulega og almáttuga veru sem skapaði og ræður öllu, ekki tákn, sem er bæði þrír og einn!) að hann hafi sent son sinn til jarðarinnar (fæddann af hreinni mey) til að deyja fyrir syndir okkar (en við fæðumst öll bersyndug) og að ef við trúum þessu komumst við í himnaríki eftir dauðann (ekki í samband við hið góða í sjálfum okkur heldur á raunverulegan stað eftir að við deyjum) en ef við trúum því ekki komum við til með að þjást í helvíti (sbr. himnaríka, raunverulegur staður sem við förum til eftir að við deyjum ef við trúum ekki á Jesú) þangað til téður Jesús kemur og dæmir okkur (Upp úr bók!). Þessu þarf raunverulega að trúa til að teljast kristinn þó svo ég efist um að margir sem segjast vera kristnir átti sig á því.
114418264976551515
Frá því um miðjan nóvember hef ég verið í DDV (De Danske vægtkonsulanter) og verið að reyna að glíma við aukakílóin. Jafnframt því hef ég haldið dagbók á netinu en samt meira bara svona fyrir sjálfan mig. í vigtun í dag kom hins vegar í ljós að ég er meira en hálfnaður miðað við upphaflegt markmið og því hef ég ákveðið að gera þessa dagbók opinbera til að halda mér betur við efnið í síðari hálfleik. Staðan í dag er því sú að ég hef farið úr 127 kílóum í 103,5. Það er þyngdartap upp á 23,5 kíló. Vonandi gengur jafn vel með það sem eftir er niður í kjörþyngd. Opinberunin felst nú ekki í öðru samt en að setja tengil á hana hér við hliðina
114409832701426340
Ætli ég verði ekki að endurskoða það sem ég sagði í síðustu viku um formúluna. Síðasta keppni var vissulega mjög skemmtileg en ekki réttlætti hún ummæli mín. Renault og þá sérstaklega Alonso hafði verulega yfirburði og ljóst að ekkert lið í dag er með tærnar þar sem þeir hafa hælana. McLaren á möguleika á að ná þeim ef þeir bæta í á næstu vikum. Ferrari voru heillum horfnir og hvorki Honda né Williams eiga nokkuð í þessi tvö lið. Eins og er virðast því Renault vera lang bestir og McLaren lang næstbestir. Ég á ekki von á því að Toyota nái að halda þeim árangri sem þeir náðu í ístralíu. Barichello er hins vegar alveg að klúðra málum hjá Honda og merkilegt hvað hann er miklu slakari en Button.
Núna kemur langt formúluhlé en að því loknu verður spennandi að sjá hvort eitthvað hafi breyst.