Afsakið hlé

Eitthvað er langt á milli skipta hjá mér þessa dagana (ég fer að verða jafn slæm og Eygló!). Þar af leiðandi langar færslur, nóg að segja.

Ef ég byrja nú á framhaldssögu af Strumpu þá er hún ólm að ganga þessa dagana. Ótrúlega gaman að fylgjast með framförunum hjá henni, bæði tækni og öryggi. Hún uppsker líka gríðarlega athygli og mikið klapp svo það er eðlilegt að hún fórni sér. Hún hefur annars verið með einhverja ræmu í hálsinum svo við fórum ekkert í sund í gær.

Kílóin eru í góðum gír. Ég fór í vigtun á miðvikudag, vægast sagt með öndina í hálsinum (nema það hafi verið leifarnar af páskaegginu) yfir tölunum eftir Páskana. Nema hvað, þetta leit allt ljómandi vel út, 0.9 kíló farin, þar af hálft fitukíló. Skil þessar tölur engan veginn. Ég fór líka í sentimetramælingu. Ég veit ekki hvort mér líst eins vel á þróunina þar, ég er að verða enn meiri pera í laginu. Það hrynja af mér sentimetrar um brjóst (auðvitað…) og mitti en þeir sitja sem fastast þegar neðar dregur. Þetta verður skrautleg útkoma. Mig er farið að klæja í lófana að kaupa mér buxur, því maður finnur þetta fyrst og fremst á þeim (þrátt fyrir læri/mjaðmir) en ætla að sitja á mér þangað til námskeiðinu lýkur (og kaupi mér þá buxur sem ég passa í í mánuð…hehehe).

Þá eru það húsamál. Ég hef svo sem ekkert verið að útmála mig um þau hér, en við settum íbúðina okkar á sölu fyrir nokkru. Þetta byrjaði eiginlega af því að ég fór í klippingu, og sem við Bjössi vorum að spjalla segir hann mér að þriggja herbergja raðhúsaíbúðir hafi rokið upp í verði. Svo við fórum að kanna málið og það stóðst nokkuð hjá honum. Við létum því meta íbúðina okkar og fórum að svipast um eftir stærra (alltaf þegar ég vísa í stækkandi fjölskyldu heldur Mummi að ég sé ólétt, en ég er bara að meina að Strumpan fer að fá eigið herbergi).
Nema hvað, við skoðuðum tvær íbúðir, hæðir í gömlum húsum á fínum stað og það allt, hvorug íbúðin heillaði okkur alveg upp úr skónum. En sem ég fór að fylgjast með framkvæmdum þeirra móðurbræðra minna á húsinu afa og ömmu og það barst í tal að þeir ætluðu að láta meta það, fórum við að spá í hvort við ættum ekki að kaupa það. Fyrst svona bæði í gamni og alvöru en nú virðist alvaran vera orðin meiri. Það er komið verð á húsið og næsta skref er að athuga hvað bankinn segir við okkur.

Sem sagt, nóg að gerast. Ég lofa að flytja reglulegri fréttir!