Í löngu máli

Þá er mánuður síðan síðast og fer að minna á gamla daga, þegar mátti þakka fyrir að bloggið væri svo reglulegt og oft að það mætti kalla það hið mánaðarlega. Að þessu sinni hafa gestakomur og ferðalög komið í veg fyrir skriftir, ég þykist vera svo góður gestgjafi að ég sitji ekki löngum stundum í tölvunni þegar ég er með fólk í heimsókn.

Fyrir mánuði fórum við í fertugsafmæli til Kristinu sem er vinnufélagi Mumma. Hún býr við norðvestanverðan Limafjörðinn og sérlega ánægjulegt að fara á  nýjar slóðir, svona í bónus. Við mættum til hennar um fjögur. Sjaldan hef ég farið í samkvæmi þar sem ég þekkti færri, afmælisbarnið hafði ég ekki hitt áður en þekki Ellen sem er hinn danski vinnufélagi Mumma og manninn hennar, þau höfum við heimsótt. Afmælið hafði átt að vera úti en samkomutjaldið fauk nóttina áður, svo það var bara ruttað til í stofunni. Við fengum æðislegan mat, Kristina hafði ákveðið að hafa fiskiþema, svo það var hátíð fyrir þá sem eru hrifnir af fiski en heldur síðra fyrir aðra. Við höfum ekki mikið borðað fisk síðan við fluttum og þetta var því sérlega kærkomið. Við blönduðum geði við aðra gesti eftir bestu getu en af því að við áttum eftir langa keyrslu heim, yfirgáfum við svæðið um níu. Strumpan fékk reyndar leyfi til að fara með Ellen og Holger og fékk því að vera lengur. Við notuðum tækifærið og keyrðum aðra leið til baka til að sjá meira af nýju umhverfi, keyrðum yfir Mors (sem er eyja í Limafirðinum) og náðum smá útsýnistúr áður en myrkrið skall á. Strumpunni var svo skilað til okkar síðla næsta dag, búin að heilla Ellen upp úr skónum eins og venjulega. Þær höfðu meira að segja farið í badeland og Ellen fórnað sér í vatnsrennibrautir með dömunni.

Gestakomurnar hófust svo á fimmtudegi. Hanna, Ármann og Kári komu til okkar og það var afskaplega gaman að fá aftur gesti, við höfum ekki fengið nóg af því. Á föstudeginum fórum við á flóamarkað, hann var reyndar alveg í minni kantinum en Marianne, dagmamma Skottunnar var með bás þar. Strumpan keypti sér kúluspil, sem hefur svo sem ekki verið mikið hreyft síðan. Við gengum svo um Risskov, bæði meðfram ströndinni og svo einhverjar fínar götur. Kári var afar hrifinn af húsum og bílum og mundaði óspart myndavélina sem hann hafði fengið í fermingargjöf frá Mumma og systkinum. Seinni partinn fórum við í Randers Regnskov, eins og venjulega var gaman að koma þangað og Kári var sérlega skemmtilegur félagsskapur, sem og reyndar alla dagana, hann er hrifnæmur og gaman að fylgjast með honum upplifa nýja hluti.
Á laugardeginum fórum við til Skagen, byrjuðum í hádegisverði hjá Kim og Bente, fórum þaðan og röltum um miðbæinn, sáum safn gamalla mótorhjóla, fórum í Skagen Museum, þar sem ég sá mest lítið því Skottan var ekki í stuði fyrir málverk, við fórum því á kaffihúsið á safninu í staðinn. Þaðan ætluðum við í vatnsturninn en hann var lokaður og leiðin lá því út á Grenen. Gestirnir gengu alla leið út á oddann en við gömlu hjónin ásamt Skottunni létum duga að rölta aðeins um. Fórum síðan heim á leið, stoppuðum reyndar í Frederikshavn og borðuðum á frekar slöppum veitingastað. Sunnudeginum eyddum við í Legolandi. Það fór drjúgur tími í að skoða legobyggingar en annars stýrðu Kári og Strumpan ferðinni og fóru í tæki. Ég fór þó í einn nýjan rússíbana, hann var fyrst og fremst skemmtilegur af því að það var “frjálst fall” í honum, vagnarnir látnir detta niður fimm metra. Á mánudeginum héldu Hanna og co. áfram ferð sinni, við náðum reyndar smá bæjarferð í miðbæ Árósa áður en þau fóru í ferjuna yfir til Sjálands þaðan sem þau keyrðu í sumarbústaðinn í Svíþjóð.

Á miðvikudeginum keyptum við “nýtt” hjól handa Strumpunni. Það sem var keypt síðasta sumar var orðið allt of lítið svo við ákváðum að leita að notuðu hjóli sem við tækjum með okkur heim. Það fannst prýðilegt hjól, með gírum og alles og vakti mikla lukku hjá nýja eigandanum. Hún hefur reyndar verið mjög dugleg að hjóla í skólann og þegar ég hjólaði með henni heim einn daginn tók ég eftir að hnéin á henni enduðu upp við eyru þegar hún hjólaði. Það var auðvitað ekki að gera sig. Ég veit svo sem ekki hvort það er auðvelt að fá notuð hjól heima og á hvaða verði þau eru, kannski er það ódýrara en að kaupa hjól hér sem maður þarf svo að borga undir heim. En það var hvort eð er vitað mál að það yrði að endurnýja hjólið hennar heima líka, svo það var alveg eins gott að fara þessa leið.

Við fengum pásu frá gestakomum fram á aðfaranótt fimmtudags. Þá komu Óli, Eygló og Gunnsteinn, ég sótti þau um miðja nótt á Billund. Fimmtudagurinn var því nokkuð með rólegu móti, við röltum um Egå, litum reyndar aðeins á ströndina. Á föstudeginum fór ég með gestunum í bæinn, á laugardeginum fórum við á ströndina og á sunnudeginum í Tivoli Friheden. Sem sagt, aðeins rólegri dagskrá en með síðustu gestum en hins vegar var veðrið alveg magnað, það var um og yfir 25° hiti og sól alla dagana. Ég endaði þokkalega rauð, enda með afbrigðum léleg að bera á mig sólarvörn, það eru alltaf dæturnar sem koma í fyrsta sæti í þeim pakka. Ég skilaði gestunum til Billund á mánudeginum, frændi minn elskulegur svaf alla leið í bílnum, vaknaði fyrir utan flugstöðina og fagnaði ákaft að vera kominn til Íslands. Síðan brunaði ég heim, við kláruðum að pakka og héldum af stað til Svíþjóðar. Yfirgáfum Árósa í dásamlegu veðri, komum í sumarbústaðinn um kvöldið í yndislegu veðri og síðan ekki sólina meir. Eftir að hafa pakkað sumarfötum og aftur sumarfötum sem ekki voru hreyfð allan tímann, þá var þetta frekar súrt.

Sumarbústaðaferðin reyndist vera vinnuferðin mikla, aðallega fyrir þá sem ekki þurftu að hugsa um börn reyndar, ég lagði lítið af mörkum nema í uppvask. Hinir komu heilmiklu í verk, það var ákveðið að veggfóðra svefnherbergin og hvítta loftin, auk þess sem Ármann snaraði upp geymsluskúr á lóðinni. Við nutum þess að gista aftur í bústaðnum í lok ferðar og þarf ekki að orðlengja hvað það var ljúft að koma í hann svona nýyfirfarinn. Hingað til hefur alltaf þurft að byrja á að fara út með drasl, grill, stiga, sláttuvél og þess háttar en núna var allt snyrtilegt og aðkoman allt önnur.

Að lokinni vinnutörn í bústaðnum héldum við litla fjölskyldan til Säter í heimsókn til Önnu og Martins. Þetta er löng keyrsla og Skottan sagði í hverjum bæ “Anna og Martin her?” en var að öðru leyti ótrúlega ljúf í bílnum, hún hafði lag á því í lengstu ferðunum svo foreldrarnir færu ekki á taugum. Við komum að kvöldi laugardags til þeirra. Leist ekkert á hitamælinn í bílnum sem lækkaði bara og lækkaði eftir því sem norðar dró og endaði í 6°. Það varð því lítið um útivistir í þessari heimsókn, þó fórum við mæðgur með Önnu og Martin í leiðangur niður í Säterdalinn, með viðkomu á leikvelli. Í dalnum eru nokkur dýr, geitur og kindur, pony, svín og fleiri svo þetta vakti mikla lukku hjá yngstu deildinni. Á mánudeginum fórum við til Borlänge, þangað þarf alltaf að fara, því þar er svo góð verslunarmiðstöð. Þar gátum við eytt nokkrum krónum og gert góð kaup eins og venjulega. Við keyrðum síðan til Stokkhólms á þriðjudag, í heldur betra veðri og vorum þar hjá Sigga og Sigrúnu fram á föstudag. Dagskráin var mjög afslöppuð, við röltum í bæinn á þjóðhátíð þeirra Svía, gengum um Humlegården og enduðum á kaffihúsi á Östermalm. Ég hætti ekki að undrast íbúa Stokkhólms sem mér finnst upp til hópa vera einum of uppteknir af útlitinu, mér líður alltaf eins og ég sé sveitó þegar ég kem þangað. Á fimmtudeginum reyndum við að heimsækja Viktoríu og Daníel, fórum í Hagaparken og gengum þar um. Þrátt fyrir að vera svikin af þeim, þau opnuðu ekki fyrir okkur í þetta skiptið, þá var þetta sérlega skemmtilegur túr, garðurinn er óhemjufallegur og gaman að rölta þar um og við höfum þá að minnsta kosti séð þakið á höllinni hennar Viktoríu, það verður ekki mikið betra. Fengum okkur kaffi (og Estelleköku) í prýðilegu veðri, sátum úti og nutum veitinganna. Næsta dag keyrðum við í bústað, aftur löng og mikil keyrsla og Skottan enn og aftur þvílíki fyrirmyndaraftursætisfarþeginn. Gistum eina nótt í köldu veðri en yfirgáfum bústað í sól og blíðu í gærmorgun og héldum heim á leið. Þá var bílþolinmæðin hins vegar að þrotum komin og gilti einu hvaða skemmtiatriði voru reynd. Sem betur fer var ferjuferð í endann og vekur alltaf jafn mikla lukku svo síðasti hlutinn varð þolanlegur. Eins og ævinlega gott að koma heim, ude er godt men hjemme er bedst. Réttar fimm vikur í heimkomu sem virðist vera að bresta á. Skottan á bara eftir eina viku hjá dagmömmu, Strumpan reyndar þrjár vikur í skólanum en nokkuð ljóst að næstu vikur verða fljótar að líða. Við þurfum að fara að huga að niðurpökkun og að selja lausamuni fyrir brottför.

Í lokin smá fréttir af leikskólamálum. Ég var búin að nefna að við fengjum ekki inni á þeim leikskóla sem við vildum vegna þess að hann er svo vinsæll og lítill séns á að það yrði laust pláss þegar umsóknin okkar loksins yrði tekin gild eftir lögheimilisbreytingar. Ég sendi svo fyrirspurn til starfsmanns skóladeildar og spurði hvort það breytti engu að við borguðum okkar útsvar til bæjarins þó við værum ekki með lögheimili. Fékk þau svör að við yrðum að hafa lögheimili til þess að umsóknin yrði gild. Við hjónin settumst niður og skrifuðum bréf og sendum á deildarstjóra skóladeildar og skólanefnd þar sem við rákum raunir okkar og kváðumst vera lítt sátt við það að borga til bæjarins án þess að eiga rétt á þjónustu. Þá bar svo við að ég fékk bréf frá sömu konu og ég hafði átt samskipti við, þar sem hún sagði að við þyrftum að útvega staðfestingu frá skattinum um að við borguðum útsvar, þá færi umsóknin okkar í annan farveg. Við útveguðum þessa staðfestingu og fengum í framhaldinu úthlutað plássi á Hólmasól, svo blessunarlega fer Skottan á leikskólann sem við vildum og byrjar líklega strax í ágúst.