Danmörk kvödd

Síðustu dagar hafa einkennst af niðurpökkun og þrifum en þó höfum við bæði lagt land undir fót og fengið gesti. Um síðustu helgi fórum við á Fjón. Áttum fyrst alveg frábæran dag í Egeskov slot, vorum þar sannir túristar. Mæli virkilega með ferð þangað fyrir þá sem eiga leið um nágrennið. Þarna var eitthvað fyrir alla. Höfðingjasleikjan ég fékk að skoða sjálfa höllina, við vorum reyndar öll hrifin af henni. Skottunni var reyndar meinilla við uppstoppuð dýrahöfuð og tók þó steininn úr þegar við komum að uppstoppuðu ljóni sem lá uppi í rúmi. Hún var sannfærð um að þetta væri lifandi ljón (eðlilega) og þurfti að láta halda á sér. Hún var fullvissuð um að ljónið svæfi, ekki kunni ég við að segja henni að það væri dautt. Annars höfðu dæturnar sérlega gaman af gríðarmiklu leiksvæði, þar sem foreldrarnir fóru illa með þær í hringekjum (eða hvað maður kallar svona prik á palli sem hægt er að snúa), Strumpan hafði líka gaman af því að fara í göngu á hengibrúm sem liggja á milli trjátoppa … móðirin kyngdi lofthræðslunni og lét sig hafa að fara með. Sömuleiðis átti Strumpan stórleik þegar hún tók að sér forystuhlutverk í völundarhúsi, gafst upp eftir rúmlega hálftíma rölt og faðirinn kom okkur á leiðarenda, þó með aðstoð korts. Hann fékk líka eitthvað fyrir sinn snúð, því innan um gamla bíla mátti líka sjá flugvélar. Það kórónaði auðvitað allt að við hrepptum dásemdarveður, 23 stiga hita en enga sól.

Við gistum á gistiheimili sem flokkast sennilega sem bændagisting, hún var að minnsta kosti staðsett í sveit rétt utan Odense og þar voru ýmis dýr búsett. Fengum stórt og gott herbergi, heimabakaðar bollur og kanelsnegle í morgunverð og hund og kött til að knúsa, auk þess sem það var góð aðstaða utan dyra, hengirúm og alles 🙂 . Mælum því óhikað með þessum stað (sem heitir Plougheld, svo ég klári nú meðmælin). Renndum til Odense eftir mat og keyrðum fram hjá því sem áður hét Nordisk landboskole og hýsti mig í þrjár vikur árið 1994. Ég skrækti upp yfir mig af fögnuði þegar við keyrðum hjá, svo dætrum mínum dauðbrá í aftursætinu. Hefði auðvitað átt að snarast út úr bílnum og láta taka af mér mynd fyrir framan húsið. Fundum indverskan take away stað, dömurnar léku sér við kettlinga fyrir utan á meðan við biðum eftir matnum.

Daginn eftir fórum við í heimsókn til Mette og Mads. Hún er með mér í LC, býr á Fjóni (í bæ rétt utan við Nyborg sem heitir Ørbæk) en er í tannréttinganámi í Árósum. Þau eru bændur og rækta epli, jarðarber, sólber, kirsuber og fleira og við fengum smá rúnt um plantekruna og tíndum haug af jarðarberjum. Vorum að auki leyst út með kartöflum, belgbaunum og þeirra eigin epla- og sólberjasafa. Frábær heimsókn, ekki síst að fá svo innsýn í landbúnað talsvert langt frá því sem maður þekkir á Íslandi.

Við komum heim seinni part sunnudags, fengum til okkar gesti í kvöldmat, gamlan nemanda minn út MA (hún er ein af þessum góðu sem maður er alveg til í að eiga samskipti við) og kærustuna hennar. Strumpan varð mikið spennt þegar hún komst að því að kærastan væri lögga og ræddi það mikið hvað hún hefði stefnt að því en væri núna hætt við.

Aðfaranótt þriðjudags komu svo tengdó og fór vel á því að þau yrðu síðustu gestirnir okkar, þar sem þau voru líka þau fyrstu. Dömurnar nutu þess í botn að hafa þau í heimsókn og það munaði heilmikið um að hafa þau að sinna þeim þegar foreldrarnir voru uppteknir við þrif og vinnu. Tengdamamma lét sig auðvitað ekki muna um að aðstoða við þrifin. Þau buðu okkur svo út að borða á fimmtudagskvöld, Strumpan fékk ósk sína uppfyllta, en það hafði verið aðal málið að fara eina lokaferð á Jensens bøfhus. Allir ánægðir eftir þá ferðina. Þau yfirgáfu svo pleisið í gær, á leið í bústaðinn í Svíþjóð. Við í góðum gír að þrífa og pakka, allt gengur frekar vel og ekkert stress. Skruppum meira að segja í dag á fornar slóðir og skoðuðum staðinn sem við gistum á með Árnýju og Hjörvari fyrir 8 árum. Strumpan náði svo einni vinkonugistingu svona í blálokin og við hjónin áttum góða kvöldstund yfir sushi.

Á morgun leggja þau feðgin í lestarferð til Kaupmannahafnar og á mánudag með flugi til Akureyrar. Ég verð örlítið lengur á ferðinni, fer til Skagen og gisti í tvær nætur og sigli svo áleiðis á þriðjudag.

Hvað stendur upp úr og hvers mun ég sakna? Ég ætla að eyða siglingunni í almenna nostalgíu og þunglyndi og skelli kannski inn status með uppgjöri eftir árið þegar heim er komið.

Hátíðarhöld

Strumpan kvaddi bekkinn sinn fyrir viku og var leyst út með alls kyns gjöfum auk teikninga með kveðjum frá öllum í bekknum. Ein til að mynda af henni sem hafmeyju, þar sem teiknarinn hafði skrifað að þetta væri „en tro kopi af dig“ … sá hafði verið með afmælisveislu heima og býr svo vel að hafa sundlaug og daman hafði heldur betur notið sín þar. Við tók svo róleg helgi með smálegri pökkun. Á mánudag fór Strumpan svo á útilífsnámskeið, að sjálfsögðu haldið í hinum enda bæjarins, með tilheyrandi skutlingi. Námskeiðið stóð alla vikuna og vildi svo vel til að það var brakandi blíða allan tímann. Því lauk með gistingu með foreldrunum. Ég fórnaði mér fyrir málstaðinn, enda í sumarfríi og hef enga löggilda afsökun. Eins og stundum áður þegar maður er ekki að nenna einhverju, reynist það skárra en maður þorði að vona. Það er þó óneitanlega skrýtið að taka þátt í svona viðburði þar sem maður þekkir engann og ekki er maður jafn fljótur að blanda geði eins og krakkarnir. Það hitti reyndar svo vel á að tvær bekkjarsystur Strumpunnar voru þarna líka en það skemmtilega var að þarna var líka nágrannastúlka, sem Strumpan hafði skelft með málæði miklu í sumarferð hverfisins í Djurs Sommerland. Þær hafa ekki átt neina samleið síðan, hin stúlkan ekki í hverfisskólanum. Þarna náðu þær svona ljómandi saman og léku sér líka eftir að námskeiðinu lauk á daginn. Ég spjallaði því lauslega við þessa foreldra en fæ engin verðlaun fyrir að vera partýljón, verður oft hugsað til sumra vinkvenna minna sem taka svona aðstæður með trompi. Þetta var allt afskaplega danskt, grillað á báli, farið í kvöldsund og það sem stóð upp úr voru tjöldin, eins konar indíanatjöld sem rúmuðu 10 manns hvert. Sérlega jákvætt fyrir mig með mína náttúrufóbíu að gista í tjaldi með engum botni. Lifði það af en verð að viðurkenna að ég átti alltaf von á svona „Snúðs og Snældu mómenti“ þar sem Snúður flýr tjaldið þegar járnsmiðurinn mætir á svæðið. Ég hélt að ég yrði kannski Snúður dagsins og myndi sofa uppi í tré, en það slapp til. Ekki get ég samt mælt með þessu nema sem öðru vísi upplifun, ég svaf illa og vaknaði öll skæld og snúin. Strumpan er agalega sár að komast ekki á svona námskeið að ári, ég reyndi að hugga hana með því að það væru vissulega útilífsnámskeið heima líka en hún vill bara fá nákvæmlega svona námskeið aftur og planar að vera allt næsta sumar í Danmörku.

Á mánudaginn héldum við annars upp á afmæli ömmu, hún hefði orðið 100 ára. Steiktum pönnukökur í tilefni dagsins. Á þriðjudag fengum við gesti í mat, Viðar frænda og hans fjölskyldu og í bónus voru Harpa systir hans, með mann og bónusdóttur. Áttum skemmtilega kvöldstund og vakti ekki sísta lukku að frændi, sem borðaði vel af matnum, komst að því að rétturinn hefði innihaldið döðlur, sem eru í litlu uppáhaldi. Það er líka gaman að því að Skottan kallar hann samviskusamlega Óla og sér þar klárlega einhvern frændasvip.

Um helgina ætlum við að leggja í lítið ferðalag. Ég á heimboð á Fjóni hjá einni LC systur minni svo við ætlum að keyra á Fjón í fyrramálið og gerast landkönnuðir og sækja þau svo heim á sunnudag. Síðasti séns að sjá og gera eitthvað nýtt áður en við förum heim.

Hvað er svo glatt?

Þá erum við enn og aftur búin að taka á móti gestum, að þessu sinni frændum okkar Norðmönnum. Unnur og Ágúst komu seint á fimmtudagskvöld, krakkarnir í góðum gír eftir ferðalagið og kvöldið því með lengra móti. Strumpan alveg að fara á límingunum að bíða eftir þeim og var ansi stjörf daginn eftir að fara í skólann. Föstudeginum eyddum við litlu mægður með gestunum í bænum, alltaf gaman að sýna Árósa. Strumpan var í afmæli seinni partinn og kom seint og síðar meir heim. Það er sérlega ánægjulegt að fá gesti þar sem börnin ná saman og það á svo sannarlega við, þó að það muni þremur árum á Strumpu og Karítas, þá leika þær sem mjög vel og litlu grísirnir fá stundum að fljóta með en léku sér sömuleiðis býsna vel.  Á laugardeginum fórum við í Marselisborgarskóg með smá eplabita. Það vakti mikla lukku hjá öllum, Skottan mundi meira að segja hvaða staður þetta var þegar við komum þangað. Það átti að nota ferðina og hengja allar snuddur upp í þar til hugsað tré en greinilega einhverjar tilfæringar í gangi, það fannst að minnsta kosti ekki, svo enn er Skottan með snuð. Eftir skógarferðina fórum við á miðbæjarrölt og enduðum á skondnu kaffihúsi. Blessunarlega hékk hann þurr á þessu ferðalagi. Það sama var ekki hægt að segja um sunnudaginn, gestirnir yfirgáfu okkur upp úr hádegi í skítaveðri. Við áttum brúðkaupsafmæli og ákváðum að fara út að borða. Strumpan hafði verið hjá vinkonu sinni og við sóttum hana og héldum þaðan á Jensens bøfhus. Þar var hins vegar kjaftfullt og löng bið, við fórum í staðinn á hamborgarastað hér rétt hjá, sem selur ægilega fína hamborgara, þeir minnstu eru reyndar 200 grömm og enginn barnamatseðill svo ferðin var nú ekki sú mest spennandi fyrir dæturnar. Við áttum smá tertubita heima sem við fengum okkur og þá var maginn orðinn vel fylltur og ég hafði ekki einu sinni lyst á að opna hvítvín og skála við eiginmanninn.

Á mánudag var Skottan sett í strangar æfingabúðir og var bleyjulaus allan daginn. Það gekk upp og ofan, gærdagurinn betur en dagurinn í dag síður. Það koma slys, sem er kannski aðallega spælandi þegar er búið að sitja á klósettinu tveimur mínútum áður. Það er hins vegar þægilegt að vera að þessu þegar maður er meira og minna heima við allan daginn.

Við erum aðeins að byrja að pakka. Enn sem komið er, eru það fyrst og fremst föt og bækur sem hafa farið niður enda er það sennilega það sem er minnst ómissandi. Þetta virðist vera gríðarlegt magn og verður fróðlegt að sjá hvernig fer. Það er búið að leggja drög að því hvaða hlutir fara í skip en mér er ómögulegt að gera mér grein fyrir hversu mikið magn það er. Við erum líka byrjuð að selja það sem við ætlum ekki með heim, búin að selja gömlu kerru Skottunnar og hjólakerruna, við lítinn fögnuð hennar. Hún hefur þungar áhyggjur af „hjólinu“ sínu og skilur auðvitað ekkert í því þegar við reynum að útskýra málið. Nú er bara að vona að hjólakerran okkar heima komi sterk inn (og að hjólreiðarnar okkar haldi áfram 🙂 .

Kveðjustundir

Í síðustu viku voru tvær kveðjustundir. Fyrst kvaddi ég LC klúbbinn minn, við áttum góða stund í „kolonihavehus“ einnar. Ég vona svo sannarlega að ég fái tækifæri til að hitta þær aftur en hálf skrýtin tilhugsun að það verði kannski ekki. Seinni kveðjustundin var svo á föstudag þegar við kvöddum dagmömmu Skottunnar. Það er mikil eftirsjá að henni, eina huggun mín er sú að Skottan hefði hvort eð er farið í leikskóla í haust, þetta var óumflýjanlegt. Skottan var leyst út með gjöfum, ekki nóg með að hún fengi gjöf frá Marianne, hún fékk líka gjöf frá Lærke vinkonu sinni. Foreldrar hennar hafa alltaf verið mjög elskulegir, þjást kannski svolítið af „einkabarnssyndróminu“. Við gerum okkur að minnsta kosti grein fyrir að þó Skottan og Lærke hafi náð vel saman í vetur þá eru litlar líkur á að það verði meira úr því. Ekki nóg með að maður gleymi þeim vinum sem maður á þegar maður er tveggja ára, líkurnar eru auðvitað að Skottan verði ekki mjög dönskumælt á næstu árum, svo þær gætu lítið átt samskipti þótt þær hittust. Engu að síður var þetta mjög indælt og við reynum auðvitað að halda einhverju sambandi. Það er nú svo að það kemst aldrei í vana að kveðja fólk sem maður hefur kynnst, þegar maður veit ekki hvernig verður með frekari hitting. Frekari kveðjustundir bíða, á morgun er síðasti fiðlutíminn og á miðvikudaginn síðasti hittingur hjá íslenskuhópnum.

Á föstudaginn var sumarhátíð í skólanum hjá Strumpunni. Með EM þema, en ekki hvað. Árgangurinn hennar „var“ Holland, þau æfðu lag á hollensku, sem þau fluttu og við vorum í hollenskum fótboltabúðum. Grilluðum hamborgara, (eigum enn eftir að læra mikið áður en við náum Dönum í lautarkörfum, gleymdum grilltöng og teppi til að sitja á), það var hoppdýna, kökusamkeppni, megafússball, að ógleymdri öl- og vínsölu. Þetta var ágæt stund, heldur kalt og fór að rigna þegar þau sýndu atriðið sitt, svo við flúðum heim fljótlega eftir það.

Strumpan fór í sundpróf á síðustu sundæfingu, var látin synda eins langt eins og hún gat, daman synti 760 metra. Er með öðrum orðum komin langt fram úr foreldrunum og mun vonandi halda áfram að æfa næsta vetur.

Við hjónin fórum á miðvikudag og kusum forseta. Það má alltaf láta sig dreyma um að atkvæðið manns skipti máli. Hef annars lítið nennt að setja mig inn í umræðuna heima. Veit bara að ÓRG er kominn á tíma. Þó ég hafi aldrei kosið hann, var hann um tíma ekki í neinni sérstakri ónáð hjá mér en hann hefur rækilega náð að breyta því á síðustu árum. Hitt er annað mál að enginn forseti er svo unaðslegur að það sé ástæða til að púkka upp á hann í 20 ár, svo þó ég væri ekki búin að fá mig fullsadda af honum persónulega, þá er tímabært að láta hann fara. Þó ég hafi ekki kynnt mér Þóru neitt sérstaklega, þá virkar hún á mig eins og hún hafi bein í nefinu og ég get ekki ímyndað mér annað en að fyrri störf hennar séu prýðilegur bakgrunnur til þess að geta komið fram skammlaust og blandað geði við aðra. Ég geri ekki neinar óhóflegar kröfur.

Ég pæli annars í augnlækningum þessa dagana, læt mig dreyma um að láta laga nærsýnina. Ætla að skoða málið vandlega þegar ég kem heim. Er búin að fá mig fullsadda af linsum og gleraugum og ömurlegri sjón.

Gleðilega þjóðhátíð!

Í löngu máli

Þá er mánuður síðan síðast og fer að minna á gamla daga, þegar mátti þakka fyrir að bloggið væri svo reglulegt og oft að það mætti kalla það hið mánaðarlega. Að þessu sinni hafa gestakomur og ferðalög komið í veg fyrir skriftir, ég þykist vera svo góður gestgjafi að ég sitji ekki löngum stundum í tölvunni þegar ég er með fólk í heimsókn.

Fyrir mánuði fórum við í fertugsafmæli til Kristinu sem er vinnufélagi Mumma. Hún býr við norðvestanverðan Limafjörðinn og sérlega ánægjulegt að fara á  nýjar slóðir, svona í bónus. Við mættum til hennar um fjögur. Sjaldan hef ég farið í samkvæmi þar sem ég þekkti færri, afmælisbarnið hafði ég ekki hitt áður en þekki Ellen sem er hinn danski vinnufélagi Mumma og manninn hennar, þau höfum við heimsótt. Afmælið hafði átt að vera úti en samkomutjaldið fauk nóttina áður, svo það var bara ruttað til í stofunni. Við fengum æðislegan mat, Kristina hafði ákveðið að hafa fiskiþema, svo það var hátíð fyrir þá sem eru hrifnir af fiski en heldur síðra fyrir aðra. Við höfum ekki mikið borðað fisk síðan við fluttum og þetta var því sérlega kærkomið. Við blönduðum geði við aðra gesti eftir bestu getu en af því að við áttum eftir langa keyrslu heim, yfirgáfum við svæðið um níu. Strumpan fékk reyndar leyfi til að fara með Ellen og Holger og fékk því að vera lengur. Við notuðum tækifærið og keyrðum aðra leið til baka til að sjá meira af nýju umhverfi, keyrðum yfir Mors (sem er eyja í Limafirðinum) og náðum smá útsýnistúr áður en myrkrið skall á. Strumpunni var svo skilað til okkar síðla næsta dag, búin að heilla Ellen upp úr skónum eins og venjulega. Þær höfðu meira að segja farið í badeland og Ellen fórnað sér í vatnsrennibrautir með dömunni.

Gestakomurnar hófust svo á fimmtudegi. Hanna, Ármann og Kári komu til okkar og það var afskaplega gaman að fá aftur gesti, við höfum ekki fengið nóg af því. Á föstudeginum fórum við á flóamarkað, hann var reyndar alveg í minni kantinum en Marianne, dagmamma Skottunnar var með bás þar. Strumpan keypti sér kúluspil, sem hefur svo sem ekki verið mikið hreyft síðan. Við gengum svo um Risskov, bæði meðfram ströndinni og svo einhverjar fínar götur. Kári var afar hrifinn af húsum og bílum og mundaði óspart myndavélina sem hann hafði fengið í fermingargjöf frá Mumma og systkinum. Seinni partinn fórum við í Randers Regnskov, eins og venjulega var gaman að koma þangað og Kári var sérlega skemmtilegur félagsskapur, sem og reyndar alla dagana, hann er hrifnæmur og gaman að fylgjast með honum upplifa nýja hluti.
Á laugardeginum fórum við til Skagen, byrjuðum í hádegisverði hjá Kim og Bente, fórum þaðan og röltum um miðbæinn, sáum safn gamalla mótorhjóla, fórum í Skagen Museum, þar sem ég sá mest lítið því Skottan var ekki í stuði fyrir málverk, við fórum því á kaffihúsið á safninu í staðinn. Þaðan ætluðum við í vatnsturninn en hann var lokaður og leiðin lá því út á Grenen. Gestirnir gengu alla leið út á oddann en við gömlu hjónin ásamt Skottunni létum duga að rölta aðeins um. Fórum síðan heim á leið, stoppuðum reyndar í Frederikshavn og borðuðum á frekar slöppum veitingastað. Sunnudeginum eyddum við í Legolandi. Það fór drjúgur tími í að skoða legobyggingar en annars stýrðu Kári og Strumpan ferðinni og fóru í tæki. Ég fór þó í einn nýjan rússíbana, hann var fyrst og fremst skemmtilegur af því að það var “frjálst fall” í honum, vagnarnir látnir detta niður fimm metra. Á mánudeginum héldu Hanna og co. áfram ferð sinni, við náðum reyndar smá bæjarferð í miðbæ Árósa áður en þau fóru í ferjuna yfir til Sjálands þaðan sem þau keyrðu í sumarbústaðinn í Svíþjóð.

Á miðvikudeginum keyptum við “nýtt” hjól handa Strumpunni. Það sem var keypt síðasta sumar var orðið allt of lítið svo við ákváðum að leita að notuðu hjóli sem við tækjum með okkur heim. Það fannst prýðilegt hjól, með gírum og alles og vakti mikla lukku hjá nýja eigandanum. Hún hefur reyndar verið mjög dugleg að hjóla í skólann og þegar ég hjólaði með henni heim einn daginn tók ég eftir að hnéin á henni enduðu upp við eyru þegar hún hjólaði. Það var auðvitað ekki að gera sig. Ég veit svo sem ekki hvort það er auðvelt að fá notuð hjól heima og á hvaða verði þau eru, kannski er það ódýrara en að kaupa hjól hér sem maður þarf svo að borga undir heim. En það var hvort eð er vitað mál að það yrði að endurnýja hjólið hennar heima líka, svo það var alveg eins gott að fara þessa leið.

Við fengum pásu frá gestakomum fram á aðfaranótt fimmtudags. Þá komu Óli, Eygló og Gunnsteinn, ég sótti þau um miðja nótt á Billund. Fimmtudagurinn var því nokkuð með rólegu móti, við röltum um Egå, litum reyndar aðeins á ströndina. Á föstudeginum fór ég með gestunum í bæinn, á laugardeginum fórum við á ströndina og á sunnudeginum í Tivoli Friheden. Sem sagt, aðeins rólegri dagskrá en með síðustu gestum en hins vegar var veðrið alveg magnað, það var um og yfir 25° hiti og sól alla dagana. Ég endaði þokkalega rauð, enda með afbrigðum léleg að bera á mig sólarvörn, það eru alltaf dæturnar sem koma í fyrsta sæti í þeim pakka. Ég skilaði gestunum til Billund á mánudeginum, frændi minn elskulegur svaf alla leið í bílnum, vaknaði fyrir utan flugstöðina og fagnaði ákaft að vera kominn til Íslands. Síðan brunaði ég heim, við kláruðum að pakka og héldum af stað til Svíþjóðar. Yfirgáfum Árósa í dásamlegu veðri, komum í sumarbústaðinn um kvöldið í yndislegu veðri og síðan ekki sólina meir. Eftir að hafa pakkað sumarfötum og aftur sumarfötum sem ekki voru hreyfð allan tímann, þá var þetta frekar súrt.

Sumarbústaðaferðin reyndist vera vinnuferðin mikla, aðallega fyrir þá sem ekki þurftu að hugsa um börn reyndar, ég lagði lítið af mörkum nema í uppvask. Hinir komu heilmiklu í verk, það var ákveðið að veggfóðra svefnherbergin og hvítta loftin, auk þess sem Ármann snaraði upp geymsluskúr á lóðinni. Við nutum þess að gista aftur í bústaðnum í lok ferðar og þarf ekki að orðlengja hvað það var ljúft að koma í hann svona nýyfirfarinn. Hingað til hefur alltaf þurft að byrja á að fara út með drasl, grill, stiga, sláttuvél og þess háttar en núna var allt snyrtilegt og aðkoman allt önnur.

Að lokinni vinnutörn í bústaðnum héldum við litla fjölskyldan til Säter í heimsókn til Önnu og Martins. Þetta er löng keyrsla og Skottan sagði í hverjum bæ “Anna og Martin her?” en var að öðru leyti ótrúlega ljúf í bílnum, hún hafði lag á því í lengstu ferðunum svo foreldrarnir færu ekki á taugum. Við komum að kvöldi laugardags til þeirra. Leist ekkert á hitamælinn í bílnum sem lækkaði bara og lækkaði eftir því sem norðar dró og endaði í 6°. Það varð því lítið um útivistir í þessari heimsókn, þó fórum við mæðgur með Önnu og Martin í leiðangur niður í Säterdalinn, með viðkomu á leikvelli. Í dalnum eru nokkur dýr, geitur og kindur, pony, svín og fleiri svo þetta vakti mikla lukku hjá yngstu deildinni. Á mánudeginum fórum við til Borlänge, þangað þarf alltaf að fara, því þar er svo góð verslunarmiðstöð. Þar gátum við eytt nokkrum krónum og gert góð kaup eins og venjulega. Við keyrðum síðan til Stokkhólms á þriðjudag, í heldur betra veðri og vorum þar hjá Sigga og Sigrúnu fram á föstudag. Dagskráin var mjög afslöppuð, við röltum í bæinn á þjóðhátíð þeirra Svía, gengum um Humlegården og enduðum á kaffihúsi á Östermalm. Ég hætti ekki að undrast íbúa Stokkhólms sem mér finnst upp til hópa vera einum of uppteknir af útlitinu, mér líður alltaf eins og ég sé sveitó þegar ég kem þangað. Á fimmtudeginum reyndum við að heimsækja Viktoríu og Daníel, fórum í Hagaparken og gengum þar um. Þrátt fyrir að vera svikin af þeim, þau opnuðu ekki fyrir okkur í þetta skiptið, þá var þetta sérlega skemmtilegur túr, garðurinn er óhemjufallegur og gaman að rölta þar um og við höfum þá að minnsta kosti séð þakið á höllinni hennar Viktoríu, það verður ekki mikið betra. Fengum okkur kaffi (og Estelleköku) í prýðilegu veðri, sátum úti og nutum veitinganna. Næsta dag keyrðum við í bústað, aftur löng og mikil keyrsla og Skottan enn og aftur þvílíki fyrirmyndaraftursætisfarþeginn. Gistum eina nótt í köldu veðri en yfirgáfum bústað í sól og blíðu í gærmorgun og héldum heim á leið. Þá var bílþolinmæðin hins vegar að þrotum komin og gilti einu hvaða skemmtiatriði voru reynd. Sem betur fer var ferjuferð í endann og vekur alltaf jafn mikla lukku svo síðasti hlutinn varð þolanlegur. Eins og ævinlega gott að koma heim, ude er godt men hjemme er bedst. Réttar fimm vikur í heimkomu sem virðist vera að bresta á. Skottan á bara eftir eina viku hjá dagmömmu, Strumpan reyndar þrjár vikur í skólanum en nokkuð ljóst að næstu vikur verða fljótar að líða. Við þurfum að fara að huga að niðurpökkun og að selja lausamuni fyrir brottför.

Í lokin smá fréttir af leikskólamálum. Ég var búin að nefna að við fengjum ekki inni á þeim leikskóla sem við vildum vegna þess að hann er svo vinsæll og lítill séns á að það yrði laust pláss þegar umsóknin okkar loksins yrði tekin gild eftir lögheimilisbreytingar. Ég sendi svo fyrirspurn til starfsmanns skóladeildar og spurði hvort það breytti engu að við borguðum okkar útsvar til bæjarins þó við værum ekki með lögheimili. Fékk þau svör að við yrðum að hafa lögheimili til þess að umsóknin yrði gild. Við hjónin settumst niður og skrifuðum bréf og sendum á deildarstjóra skóladeildar og skólanefnd þar sem við rákum raunir okkar og kváðumst vera lítt sátt við það að borga til bæjarins án þess að eiga rétt á þjónustu. Þá bar svo við að ég fékk bréf frá sömu konu og ég hafði átt samskipti við, þar sem hún sagði að við þyrftum að útvega staðfestingu frá skattinum um að við borguðum útsvar, þá færi umsóknin okkar í annan farveg. Við útveguðum þessa staðfestingu og fengum í framhaldinu úthlutað plássi á Hólmasól, svo blessunarlega fer Skottan á leikskólann sem við vildum og byrjar líklega strax í ágúst.

Noregur í nærskoðun

Það er ekki seinna vænna en að skrifa eitthvað um það sem á dagana hefur drifið undanfarið, ef einhvern tímann hefur verið ástæða til að skrifa oftar (og minna í einu þá) er það núna. Fyrst skal telja afskaplega ánægjulegt foreldraviðtal sem ég fór í með kennurum Strumpunnar. Það var aðeins öðru vísi en það sem ég á að venjast frá Íslandi, hún er með tvo umsjónarkennara sem báðir tóku þátt í samtalinu auk þess sem starfsmaður úr vistun sem hefur umsjón með bekknum hennar þar, var líka með. Fjölmennt foreldraviðtal. Það kom mér svo sem ekkert á óvart að heyra frökeninni minni hrósað en alltaf er það jafn gaman, ekki síður þegar maður fær að heyra það frá mörgum sem hafa ólík sjónarhorn. Þau voru öll þrjú sammála um ágæti hennar og sögðu að hennar yrði sárt saknað úr bekknum. Það sem stóð upp úr var auðvitað að fá niðurstöður úr samræmda prófinu sem hún tók í dönsku. Það er ekki gefin einkunn í þeim skilningi, meira eitthvað í ætt við normaldreifingu og Strumpan reyndist vera meðal 10% efstu. Dönskukennarinn (hennar – ekki ég í þetta sinn) var himinsæll með árangurinn. Það var stolt móðir sem knúsaði Strumpuna eftir viðtalið og við hæfi að leiðin lá svo út í búð til að kaupa línuskauta sem hún lagði sjálf til pening fyrir en fékk líka styrk frá foreldrum til að brúa bilið.

Tveimur dögum síðar lá leiðin til Noregs. Við keyrðum af stað til Hirtshals um morguninn, fengum okkur aðeins að borða þar og siglum svo til Kristiansands. Siglingin gekk áfallalaust, ælupésinn hafði fengið sjóveikitöflur til að halda heilsunni svo þrátt fyrir veltur var maginn til friðs. Við pöntuðum sæti á efsta dekki og sátum þar að mestu og fór vel um okkur. Það tók síðan óratíma að komast frá borði og frá höfninni og ekki laust við að það væri hnútur í maganum því við smygluðum ósköpum af áfengi með okkur handa Norðmönnunum. Það eru svívirðilega strangar reglur um innflutning á áfengi, þegar Íslendingi bregður við, þá er það svart. Allt hafðist þetta samt, við komumst með smyglvarninginn út af hafnarsvæðinu og keyrðum sem leið lá til Grimstad. Ekki fannst mér Kristiansand fallegur bær í þetta sinnið en geysilega falleg leið sem við keyrðum og við glöddumst mikið yfir öllum göngunum sem við fórum í gegnum, það er ekki ofsögum sagt að Noregur sé sundurgrafinn.

Við fundum hús Unnar og Ágústs án erfiðleika, auðvitað vopnuð hinu ómissandi Garmin en líka búin að skoða húsið á google maps. Það urðu fagnaðarfundir nema hvað heimasætan unga tók tímann sinn í að hrista af sér feimnina. Þegar sá þröskuldur var horfinn voru börnin öll dugleg að leika og Skottan sýndi okkur enn og aftur að hún er komin vel á veg að vera laus við feimni. Dagarnir okkar í Noregi fóru svo í bæjarferðir, stórar og smáar. Á laugardeginum fórum við fyrst til Litla Sands sem er á milli Grimstad og Kristiansands, afar sjarmerandi smábær og þaðan til Kristiansands og ég át allar mínar skoðanir um bæinn því miðbærinn er svo stórkostlega flottur að hann vó upp á móti ljótu hafnarsvæði Stena Line. Sérstaklega er huggulegt annað hafnarsvæði þar sem er búið að gera upp heilmikið af gömlum húsum og byggja menningarhús (sem er að vísu með ljótasta frystihúsið sem nágranna). Ég var að minnsta kosti algjörlega heilluð. Á sunnudeginum fórum við í gönguferð um Grímstaði, sem er líka gullfallegur bær, mikið byggður á klöppum og minnti mig til skiptis á Borgarnes og Karlshamn í Svíaríki. Strumpunni fannst reyndar ekki mikið til þessarar skemmtidagskrár koma, enda er fátt annað en tívolíferðir og dýragarðar sem ná inn á topplistann hjá henni. Hún talaði samt fjálglega um það að við ættum að fara í heimsreisu, sem foreldrunum fannst frekar skrýtin hugmynd miðað við áhugaleysið á Noregi. Hún reyndi að hressa sig við og horfa í kringum sig og spyrja en það var greinilegt að hún gat hugsað sér margt áhugaverðara en að ganga um og skoða hús. Mánudagurinn var hinn rólegasti, við skoðuðum verslunarmiðstöð Grímstaða og miðbæinn ögn betur en létum meiri dagskrá eiga sig. Heim héldum við svo í bítið á þriðjudegi, lögðum af stað frá gestgjöfum okkar upp úr sex og sigldum klukkan átta. Sigldum í dásamlegu veðri og kvöddum Noreg eftir góða dvöl. Nú get ég státað af því að hafa komið til allra Norðurlandanna, svona fyrir utan litlu nágrannana og verð að segja eins og er að Noregur kemur ansi sterkur inn. Verðlagið auðvitað alveg bilað en það er engu logið um fegurðina, að minnsta kosti ekki á þessum litla bletti sem við náðum að skoða.

Við skiluðum okkur svo í hús upp úr hádegi í þvílíku blíðskaparveðri og það hélst út vikuna. Ég stakk af frá Árósum á föstudeginum til að fara til Kaupmannahafnar á landsþing Ladies Circle og árshátíð LC og Round Table. Við vorum 10 sem fórum úr klúbbnum mínum, sérstaklega til að fylgja einni klúbbsystur okkar sem var að taka við sem landsforseti. Það var sér rútuferð fyrir LC og RT til borgarinnar, hún var skemmtileg og létt yfir fólki. Rútuferðin tók reyndar talsvert lengri tíma en til stóð vegna þess að það þurfti að gera mörg pissustopp á leiðinni (það var að vísu klósett en það hrökk í lás ef hurðinni var skellt of fast og lykillinn að klósettinu geymdur á þeim góða stað sem lykillinn að rútunni var líka.) Við vorum sex sem gistum saman á hóteli, Copenhagen Island, sem er með þeim flottari sem ég hef gist á. Höfðum ekki mikinn tíma eftir komuna til annars en að skella okkur í föt og mæta á svæðið. Það var ofurhetjuþema á föstudagskvöldinu og við höfðum flestar pantað okkur forláta Ghostbusters búninga frá Bandaríkjunum, sem höfðu borist deginum áður. Kvöldið byrjaði á heimapartýi þar sem var borðað og dansað (þau voru misjafnlega hressileg partýin, í mínu partýi var til dæmis ein sem strippaði, bæði í partýinu og líka í rútunni á leið til baka) og við enduðum svo öll í einu risapartýi. Það var sérlega gaman að sjá búningana, margir klúbbar höfðu tekið sig saman og voru eins, það var til dæmis hópur af Mario og hvar er Valli, margar Línur og Ofurmenn og -konur He-man, Þór, Ástríkur og Steinríkur en líka frumlegri búningar eins og norsk ofursæði. Kvöldið var alveg frábært, góður plötusnúður og skemmtilegur félagsskapur. Ég hitti líka tvo gamla kunningja frá landsfundinum á Íslandi fyrir ári, eina norska og einn danskan sem var einmitt nýlentur aftur í Danmörku eftir landsfund á Íslandi. Gaman að endurfundum. Ég yfirgaf samt svæðið upp úr eitt, verandi þessi litla B-manneskja sem ég er og fór heim á hótel til að næla mér í svefn fyrir morgundaginn.

Næsti dagur byrjaði snemma því við áttum að mæta á landsfundinn klukkan 10. Herbergisfélagar mínir voru heldur slappari en ég og hefðu sleppt því að mæta ef ekki hefði verið fyrir skemmtiatriði sem við áttum að halda. Fundurinn var ekkert rosalega skemmtilegur, hljóðið vont framan af og lítið hægt að fylgjast með. En við fórum svo á svið þegar okkar kona tók við sem landsforseti. Við sýndum atriði sem gekk út á að sýna hinar mörgu hliðar hennar svo við höfðum allar hlutverk, ég var til dæmis “wellness Susanne” og fór á svið í náttslopp, með handklæði um höfuðið og á töfflum. Átti að segja eitthvað smá og skála við Susanne og hef aldrei á ævinni upplifað eins hrikalegan sviðskrekk (og höfðu Gajol skotin sem ég var búin að fá ekkert að segja). Ég skalf svo mikið að ég gat varla hellt í glasið mitt, hvað þá skálað. Við enduðum svo allar saman á sviðinu að dansa og skutum konfetti yfir salinn og það var algjört spennufall þegar þetta var búið.

Eftir fundinn fórum við á hótelið og fengum okkur fegurðarblund og fórum svo að taka okkur til. Vorum mættar aftur klukkan sex í galadinner. Því miður sátum við ekki saman (þó vissulega finnist mér líka við hæfi að blanda geði við fólk sem maður þekkir ekki neitt) en ég var svo heppin að einn af borðfélögum mínum var hress og skemmtilegur og við spjölluðum eins og gamlir kunningjar. Við fengum prýðisgóðan mat og síðan var ball, bæði með plötusnúði og hljómsveit, aftur með frábærri tónlist svo ég fékk góða útrás fyrir dansþörfina. Afrekaði það meira að segja að hrynja í gólfið þegar ég var að dansa uppi á stól en blessunarlega er ég með stuðningspúða í bak og fyrir og þeir komu sér vel í þetta skiptið svo ég slapp við slys en hef þó risastóran marblett á rassinum til minja. Ég dansaði líka uppi á borði en bara í svona 10 sekúndur, þá kom öryggisvörður og teymdi mig niður. Ég hélt út aðeins lengur en fyrra kvöldið en var bara svo ferlega þreytt í fótunum að þó ég hefði viljað dansa alla nóttina hefði ég ekki haldið það út. Það er af sem áður var. Ég var því komin heim á hótel fyrir tvö, sjaldan verið fegnari að henda mér upp í rúm.

Daginn eftir var svo heimför með rútu klukkan 11, ferðin heim rólegri og fljótlegri en föstudagsferðin og gott að koma heim aftur eftir magnaða helgi.

Hvunndagurinn þessa dagana býsna rólegur. Ég reyni að sinna smáverkum á hverjum degi til að hafa eitthvað á afrekalistanum en stundum er það ekki mikið meira en að fara í sturtu og setja í þvottavél 🙂 . Við á leiðinni í afmæli á laugardaginn, til vinnufélaga Mumma og svo bresta á gestakomur og ferðalög í framhaldi af því.

 

Hámenning og lágmenning

Sumardagurinn fyrsti var haldinn nokkkuð hátíðlegur á heimilinu að íslenskum sið. Dæturnar voru á sínum stað um morguninn svo við hjónin notuðum tækifærið til að fara í Aros, það var takmarkaður áhugi á að deila þeirri ferð með áhugalitlum dætrum í hlaupagír. Ég hafði svo sem komið inn áður og séð Strákinn ofan frá en ekki meir. Við byrjuðum á því að kíkja á hann. Það var alveg jafn magnað og ég hafði ímyndað mér, hann er alveg ótrúlega vel gerður.

Síðan tókum við rúnt um safnið en slepptum reyndar efstu hæðinni sökum tímaskorts, enduðum í Regnboganum. Ég átti örlítið bágt vegna loftóróleika, vildi ekki labba alveg meðfram glerinu. Safnið allt ýtir reyndar undir þessa tilfinningu, glerlyftur og stigar opnir með útsýni niður allt húsið. Regnboginn var skemmtilegur eins og öll verkins hans Ólafs yfirleitt.

Síðdegis fórum við Strumpan í sirkus. Hún hafði verið mjög áhugasöm um það þegar kom sirkus síðasta sumar en það var haft af henni og því meðal annars borið við að það væri skemmtilegra að fara þegar hún skildi það sem fram færi. Þetta loforð var því efnt núna. Strumpan fékk að hafa með sér pening því ég var búin að lýsa því yfir að ég væri ekki að fara í sirkus til að borða. Hún var ekki lengi að sjá eitthvað freistandi, það var nefnilega verið að selja candy floss. Sýningin sjálf var að mestu leyti skemmtileg, mikið af loftfimleikum sem voru ansi tilkomumiklir. Þar bar hæst fjölskylda sem sýndi listir sínar á fílsbaki. Í hléi var boðið upp á að fara á fílsbak, sirkusfólkinu leggst alltaf eitthvað til í peningaplokki. Strumpan sem hafði ekki beðið þess bætur að hafa ekki fengið að fara á bak úlfalda í sinni fyrstu sirkusferð, þá fjögurra ára, fékk að fara núna, svo það yrði ekki varanlegt ör á sálinni. Því miður var ég ekki með almennilega myndavél, bara símann, svo myndirnar eru meira táknrænar en notkunarhæfar.

Síðustu tvær vikur er Skottan búin að vera vistuð hjá afleysingardagmömmu. Ekki þeirri sömu og hún hefur verið hjá áður, ég var hálffegin því, hafði ekki alveg fundist það virka. Daman var ekkert sæl yfir skiptunum til að byrja með, það munaði samt því að hún grét ekki þegar ég skildi við hana. Svo gekk mjög vel yfir daginn, það voru tveir krakkar þarna sem hún kannaðist við og lék sér með. Hún náði reyndar að veikjast enn eina ferðina, kvefaðist og fékk asma, það hefur þó ekki alltaf verið svo slæmt að hún gæti ekki farið til dagmömmu, oft er hún hitalaus, en núna kom leiðindafylgifiskurinn ælupúkinn líka og að þessu sinni hjá dagmömmunni. Hún var því heima tvo daga. Á hverjum morgni tilkynnti hún líka að hún ætlaði ekki til Gitte, átti það jafnvel til að fara inn í stofu að leika sér áður en við fórum af stað, til að sýna hvað hún ætlaði að hafa það huggulegt. Þetta sama barn faðmaði dagmömmunna alltaf í kveðjuskyni, svo ekki risti þetta djúpt. Nú er aftur komið að rútínunni, hún fer til Marianne á morgun.

Skottan hefur líka átt spretti sem fyndna barnið. Það er verið að æfa hana í að svara þegar hún er spurð að nafni. Aðal brandarinn til að byrja með var að segjast heita Bríet og þvertaka fyrir að heita Sunna, síðan kom nýtt afbrigði sem fólst í að segjast heita Jónsdóttir. Nú er þessi brandari búinn og barnið farið að kynna sig með sínu venjulega nafni, gjarnan hvíslar hún þó svarið.

Það eru líka byrjaðar æfingabúðir í að vera bleiulaus. Ekki ganga þær vel en keppandinn er mjög áhugasamur og vill gjarnan fá að vera bara í nærbuxum. Þetta hefur þó ekki gengið sem skyldi, staðan er nokkurn veginn pissað á gólf 15, pissað í klósett 0. Það er þó engin uppgjöf í gangi og búið að fjárfesta í fleiri nærbuxum. Stefnan er tekin á pissulaust gólf fyrir leikskóla eða fyrir þriggja ára aldur.

Þetta sama barn er líka að breytast í forhertan nammiglæpamann og hefur í því skyni þróað afburðagott nammiþefskyn. Það eina sem upp á vantar er að fela slóðina ögn betur og láta ekki góma sig fljótlega eftir að glæpurinn hefur verið framinn, svo hægt sé að njóta þýfisins betur.

Í gær var farið í bæjarferð, eiginmaðurinn búinn að panta sér rakstur, mæðgurnar ætluðu að eiga góða stund í bænum á meðan. Stundin var ekki jafn ljúf eins og stefnt var að. Ekki nóg með að það væri skítakuldi (sem var ekkert alslæmt því það afsakaði auðvitað HogM ferðina) heldur tók Skottan upp á því að fara í feluleik í HogM og var ekkert á því að láta góma sig. Hún náði þó að finna sér kjól, sem hún neitaði að leyfa móðurinni að halda á og dró á eftir sér um alla búð. Þessi nýja HogM íþrótt var móðurinni ekki að skapi, hún hefur frekar viljað stunda íþróttina „kaupum sem mest á sem stystum tíma“ og átt þokkalega spretti í henni. Það bætti þó úr skák að undir lokin var hægt að renna á lyktina af íþróttaálfinum, svo hann fannst og var gerður upptækur.

Eftir þessa „góðu“ ferð (þar sem glæst fortíð móðurinnar í HogM reddaði því sem reddað varð, kauplega séð) var Strumpunni komið í vinkvennaheimsókn og fór svo að hún gisti þar, hjónin áttu því notalega kvöldstund með sushi, hvítvíni og danskri eðalmynd. Unglingurinn var svo sóttur um hádegisbil í dag, hefði að sjálfsögðu viljað fá að vera lengur.

Í vikunni er stefnt að framhaldsferð í HogM, án barna í þetta sinn og síðan taka við siglingar, þegar Noregur verður sóttur heim í fyrsta sinn.

Góðir gestir

Þá eru MA kennarar komnir og farnir. Fyrst fengum við dönskudeildina og heiðurmeðlimi í mat (Selmu og Þengil, Ragnheiði og Jónas og Gunnu). Mummi skellti í fiskefrikadeller, það verður auðvitað að halda í danskt þema. Við vorum leyst út með gjöfum, stelpurnar fengu sælgæti og við líka auk þess að fá Gammel dansk. Áttum ágæta kvöldstund í þessum góða selskap.

Í gær fór allur hópurinn í heimsókn í Egå Gymnasium sem er hér í næsta nágrenni, svo ég skottaðist til fundar við félagana þar. Skólinn er hreint magnaður frá a – ö, alveg nýr og húsnæðið algjör draumur, íþróttasalurinn er til að mynda hluti af húsinu og hægt að horfa á tíma, því hluti salarins er glerveggur. Það er stór aðstaða til að matast, það er fyrirlestrasalur sem hægt er að breyta eftir þörfum, litlir krókar og kimar hér og þar til að vinna í hópum, raungreinastofurnar eru með græjum sem ég ímynda mér að enginn framhaldsskóli á Íslandi hafi, allar stofur með skjávörpum og snjalltöflum og útsýni af kennarastofunni sem slagar upp í útsýnið úr Gamla skóla (bara ekki af kennarastofunni). Nemendurnir voru ekki síður til fyrirmyndar, ég fór til að mynda inn í tvo bekki, í dönskutíma og enskutíma. Í dönskutímanum var sérlega áberandi að allflestir nemendurnir tóku virkan þátt, þegar kennarinn spurði yfir bekkinn voru alltaf nokkrar hendur á lofti og ekki alltaf þær sömu, nemendurnir svöruðu þegar á þá var bent, enginn greip fram í, þeir hlustuðu hver á annan og fóru svo djúpt í söguna sem þeir voru að lesa að manni fannst frekar að þessi tími ætti sér stað í háskóla. Satt best að segja var þessi hópur meira á háskólaplani en þeir hópar sem eru með mér í tímum.

Eini gallinn á gjöf Njarðar var að við fórum án þess að fá vott né þurrt (nema þeir sem báðu um vatn og fengu það náðarsamlegast) svo það var svangur hópur sem hélt með mér heim. Veðrið var því miður ekki eins og pöntunin hafi hljóðað upp á (og var búið að lofa dagana á undan) en það hélst þurrt, svo þeir hörðustu komu sér fyrir í garðinum, öðrum var púslað þétt í stofu, borðstofu og eldhúsi. Það bjargaði reyndar heilmiklu að hluti hópsins, sem hafði farið með Gunnu á pöbbarölt (eða skoðunarferð) skilaði sér seint eftir ævintýri við að finna leiðarendann. Ég hafði svo skellt í alvöru danska lagköku en látið Føtex taka af mér ómakið með kransakökuna, síðan var ég með bjór og hvítvín sem var svo vel falið í geimskipslegu íláti að enginn fékk sér af því. Fólkið fékk því loks smá hressingu eftir erfiðan seinnipart.

Mér til mikillar undrunar var Skottan alveg hress með þennan fjölda og sólaði sig í athyglinni (eins og Strumpan en það kom hins vegar engum á óvart). Henni þótti reyndar Valdimar ögn skrýtinn, enda skartar hann veturgömlu skeggi og er farinn að minna á Gandalf. Gestirnir stoppuðu mislengi, þeir síðustu fóru rétt fyrir sex, höfðu þá þurft að bíða af sér eina hressilega skúr eða kannski meira hagl. Það var hálf dauflegt í kofanum eftir að hann tæmdist og eftirsjá af því að vera ekki með hópnum alla ferðina. Ég náði heldur ekki að spjalla almennilega við alla. Í dag fóru þau í Aros, áður en þau héldu áfram, ég hefði fylgt þeim þangað nema hvað ég var að fara í tíma um Sult Knuts Hamsun og mátti engan veginn missa af því.

Sem betur fer er alls konar félagslíf framundan, fyrst fer ég á aðalfund LC á laugardag, síðan kemur reyndar helgi sem er alls óplönuð en eftir það hellast yfir okkur viðburðir. Það styttist líka alltaf í heimför, nú er búið að kaupa far fyrir alla, Mummi kemur flugleiðis með dætur 16. júlí en ég læt bíða eftir mér og bílnum og kem til landsins 19.

Af sunnudagsrúntum og páskastemmingu

Ég gleymdi alltaf að segja frá einum yndislegum sunnudagsrúnti sem við tókum í síðasta mánuði. Ég hafði rekist á frásögn um hverfi hér í Árósum sem heitir Finnebyen. Þannig var að eftir seinni heimstyrjöld var gríðarlegur húsnæðisskortur hér og sveitarfélagið festi kaup á 122 timburhúsum frá Finnlandi, sem voru 56 fermetrar að stærð 🙂 . Í dag er reyndar búið að byggja við flest ef ekki öll húsin. Upprunalega voru þau öll máluð í gulum, rauðum, grænum eða bláum lit. Mig hafði langað til að skoða þetta hverfi frá því að ég las um það svo við ákváðum að gera loks ferð. Það er skemmst frá því að segja að þetta er dásamlega krúttlegt hverfi, mikið lagt upp úr sérstöðunni og húsunum vel við haldið.

Í framhaldinu fórum við og keyrðum í gegnum þorp sem við sáum í þyrlufluginu, það er agnarlítið og nánast orðið samvaxið við Árósa en stendur samt enn eitt og sér. Þetta var líka gjörsamlega sætt, alveg nákvæmlega eins og ég hefði verið til í að búa í. Við enduðum svo rúntinn á því að fara upp að alræmdum stúdentagörðum, Skjoldhøj kollegiet, sem er byggt á 8. áratugnum, meðan það þótti enn fínt að henda upp steinsteypuklumpum. Þarna búa fyrst og fremst erlendir stúdentar því það vill enginn annar búa þar. Það er stanslaust verið að brjótast inn og hjá sveitarfélaginu er rifist um hvort á að rífa bygginguna niður eða gera hana upp, það er kominn tími á viðhald, ekkert verið gert í 40 ár en það er varla talið svara kostnaði.

Af öðrum rúntum er það helst að á föstudaginn langa fórum við í heimsókn í sumarbústað til Viðars frænda og fjölskyldu. Þau voru með bústað í láni á vesturströndinni, aðeins norðar en Esbjerg, á Henne Strand. Okkur þótti tilvalið að líta á þau, aldrei komið á þessar slóðir áður. Höfðum reyndar verið að spá í að gista en Skottan var ekki alveg heil eftir magapestina svo við gerðum dagsferð. Bústaðurinn var ansi flottur, bjálkahús, alveg hvítmálaður að innan og frekar gamaldags húsgögn. Skemmtilega staðsettur í sumarbústaðahverfi án þess að vera alveg ofan í næsta granna. Þarna er greinilega mikið af Þjóðverjum, kjarninn sem þjónustar byggðina var afar þýskuvænn, allar merkingar bæði á þýsku og dönsku. Við gengum meðal annars niður að strönd, þrátt fyrir kulda og skít, Skottan gekk eins og herforingi, kærði sig alls ekki um að láta halda á sér. Strumpan náði góðu sambandi við frændsystkini sín, Viktoría frænka hennar er ári eldri og Strumpunni þótti mikið til þess koma hvað hún var góður gestgjafi. Við keyrðum síðan heim eftir kvöldmat, áttum rólega heimferð þar sem unga daman svaf alla leið.

Páskadagur var að mestu leyti hinn ágætasti, þó ég hafi reyndar verið hálfgerður Helgi (sem er frægur fyrir hátíðaveikindi), páskaeggið fór illa í mig og ég var óróleg í maganum allan daginn, þetta hlýtur að vera ellimerki. Dæturnar fóru í páskaeggjaleit, sem tók óvenju fljótt af því Strumpan las svo vel úr vísbendingunum. Skottan var alsæl að fá nammi, það er ekki daglegur kostur í ungu lífi. Litla eggið hennar var reyndar gert upptækt áður en það var klárað en eflaust hefði hún ekki átt í vandræðum með að sporðrenna því öllu. Um hádegisbilið lögðum við síðan í’ann í Tivoli Friheden, við Árósabúarnir höfðum alveg klikkað á að fara þangað í fyrra, svo það var heldur betur tímabært. Það var fallegt veður, en svolítið kalt, rólegt í Tívolí og litlar raðir. Strumpan fékk turpas eins og venjulega en við keyptum bara miða handa Skottunni. Fyrsta tækið sem var prófað var rússibani, Strumpan var afar sátt við að vera orðin nógu há til að fara í rússíbana sem fór á hvolf. Við hin fylgdumst með af hliðarlínunni. Það var ekki laust við að kæmi skelfingarsvipur á dömuna í ferðinni en hún var alsæl, í pínu adrenalínrússi þegar hún kom út og fór strax í næstu ferð. Við gengum síðan áfram um garðinn og til að byrja með var það bara stóra daman sem fór í tæki en síðan fundum við tæki sem voru við hæfi lítilla og þá fóru þær báðar. Skottunni fannst líka æsispennandi að fara í tæki, hápunkturinn til að byrja með var tæki sem hún fór í alveg sjálf, bílar sem keyrðu eftir spori sem lá að hluta upp pínu brekku. Það var dama með sólskinsbros sem stýrði styrkri hendi. Undir lokin fór ég einn túr með Strumpunni í rússíbanann góða, lokaði kyrfilega augunum fyrsta hlutann en náði að hafa þau opin undir lokin. Ég er að verða gömul! Dömurnar fóru svo saman í stubbarússíbana, ég var ekki viss um hvort Skottan væri með skelfingarsvip eða gleðisvip en hún var í skýjunum þegar hún kom úr tækinu og vildi fara aftur. Hún stefnir í að verða fyrirtaks áhættufíkill.

Mummi eldaði svo páskalamb af nýsjálensku. Það olli ákveðnum vonbrigðum, bragðið var ágætt en kjötið hálf seigt og ég að auki ekki búin að ná mér í maganum (sem var aðallega galli þegar kom að sítrónufrómasinum, ég náði alls ekki góðum afköstum). Fjölskyldan var hálfþreytuleg eftir daginn, dömurnar sendar snemma í bæl og undirrituð sofnuð um 10 eftir erfiðan dag 😉 .

Á morgun er von á MA kennurum til Árósa. Við fáum matargesti annað kvöld og allan hópinn í innlit á miðvikudag (ég er að hafa af þeim dýrmætan tíma sem annars gæti nýst í búðum!)

Heilsupósturinn (viðkvæmir hlaupi yfir fyrsta hlutann)

Strumpan var aðalefni síðustu færslu, hún er nú búin að ná sér vel, lítur orðið þokkalega út en þráir heitast að veikjast aftur, bara vægar í þetta skiptið, því þjónustan er nánast orðin „non existent“ eftir að hún náði sér á strik. Skottan krækti sér í enn eina magakveisuna, svo nú má sú eldri horfa upp á hvernig er dekrað við litla dýrið. Móðirin hefur staðið sig betur í hjúkrunarhlutverkinu núna, þrátt fyrir að ælur séu ofarlega á lista yfir það versta sem hún veit. En það er að minnsta kosti skárra að standa á hliðarlínunni með dallinn en að standa í stórfenglegum þrifum, svo þar hefur hún verið síðan aðfaranótt sunnudags. Við héldum reyndar að allt væri á uppleið eftir ælulausan gærdag en eftir ofsafengið seríosát í morgun, ýfðist maginn aftur upp og skilaði innihaldinu. Síðan hefur ástandið lagast, daman borðað þokkalega og það sem meira er, orkan er greinilega líka að skila sér, í gær var hún svo máttvana að hún gat varla talað, hvað þá að hún hreyfði sig en núna er hún farin að leika sér. Það er auðvitað grunnt á góða skapinu og ekki bætti nú úr skák að hún klemmdi sig áðan en deyfðin er á undanhaldi.

Við héldum langþráð afmælispartý fyrir Strumpuna á þriðjudag. Buðum öllum bekkjarsystrunum, áttum reyndar bara von á þeim helmingi sem hafði svarað en svo komu allar dömurnar. Við sóttum þær í vistun og gengum heim, það tók reyndar drjúgan tíma af þeim tveimur tímum sem voru áætlaðir í veisluna. Enda fór svo að það var ekki hægt að gera allt sem stóð til. Strumpan hafði meðal annars planað pakkaleik og stoppdans og tilheyrandi verðlaun voru klár en svo fór að hvorugt komst á dagskrá. Við vorum svo heppin að það var frábært veður og því fór stór hluti veislunnar fram úti í garði, þar á meðal sá dagskrárliður sem hélst inni og sló rækilega í gegn, andlitsmálun a lá Mummi. Einni dömunni varð að orði að það væri frábært að fá svona ókeypis andlitsmálningu, það fannst mér fyndið. Veitingarnar ruku misvel út, pönnukökurnar vöktu svo mikla lukku að ég rauk í að steikja meira, en afmæliskakan sjálf var óhreifð. Tvær stelpur fengu svo leyfi til að vera lengur, ég bauð upp á naglalakk, sem afmælisbarnið og önnur af stelpunum þáði, auk einnar öfundsjúkrar Skottu 🙂 . Foreldrarnir voru mikið fegnir þegar þessu var lokið og stóra daman sátt við sitt. Ég verð nú að skjóta að einni sögu sem sýnir að uppeldið hefur að einhverju leyti skilað sér, ein stelpan kom með tvo „top model“ bréfpoka sem gjöf og Strumpan tók við þeim með bros á vör enda verið hamrað á því að vera þakklátur með það sem maður fær. Móðirin var sennilega minna þakklát en dóttirin.

Ég átti frábæra ferð til Skagen fyrir 10 dögum. Var boðin í sextugsafmæli hjá dönsku mömmu minni 🙂 (eða hún er að minnsta kosti danska amman dætranna), hún átti reyndar afmæli í desember en hélt stelpupartý núna. Fékk far uppeftir með vinahjónum hennar sem nýttu helgina í hjónaferð, ég gisti heima hjá Bente ásamt einni vinkonu hennar. Á laugardeginum fór ég í bæinn með Piu gistivinkonu minni, við keyptum okkur hræðileg afmælisdress í Bláa krossinum, það stóð nefnilega í boðskortunum að við ættum að vera „festligt“ klæddar. (Lukkulega getur Mummi notað hluta af mínu dressi, ég keypti nefnilega Hawaiskyrtu sem passar svona prýðilega á hann, dæturnar urðu hins vegar óskaplega sáttar við rauða kúrekahattinn sem var hinn hlutinn af glaðlega útbúnaðinum). Við vinkonurnar fengum okkur öl niður á höfn, fórum síðan heim í síðbúinn hádegisverð og fegurðarblund í framhaldi af því. Veislan hófst klukka fimm, það voru 14 dömur í veislunni, ég hafði engar séð áður nema bílstjórann minn og gistifélaga sem ég hafði hitt deginum áður. Bente fékk kokk til að sjá um matinn, það var hlaðborð með óhemju góðum mat, mikið af fiskréttum sem voru algjört gúmmulaði. Síðar um kvöldið voru kokteilar, það var alveg frábært og með ólíkindum að veislan skyldi ekki leysast upp í rugl, miðað við veitingarnar. Við vorum að til þrjú, ég sem er engin B manneskja, hef ekki vakað svona lengi í háa herrans tíð. Daginn eftir var síðan afgangaveisla og haldið heim seinni partinn í dásamlegu veðri enda voru Mummi og dömurnar úti í garðverkum þegar ég kom.

Ég er aðeins farin að huga að praktískum málum fyrir heimferð og meðal annars hafði ég samband við leikskólann sem við sóttum um fyrir Skottuna, svona til að athuga hvort umsóknin væri ekki örugglega enn inni. Það kom auðvitað í ljós að svo var ekki, ég þurfi að sækja um aftur þar sem umsóknin var tekin út þegar við fluttum og verður ekki gild fyrr en við flytjum heim aftur og þar af leiðandi frekar ólíklegt að við fáum inni á leikskólanum sem við sóttum um. Ég er hundfúl, þetta er eini leikskólinn sem heita má að sé í nágrenni við okkur og er ekki algjörlega út leið fyrir okkur (það er að segja Mumma, allir leikskólar eru úr leið fyrir mig.) Það þýðir hins vegar ekkert að vera í fýlu yfir þessu, við erum ákveðin að ef hún fær ekki inni þarna, þá verður hún færð til um leið og tækifæri gefst, því þó ég sé frekar á móti því að færa krakka til þá er ég ekki að fara að keyra Skottuna næstu þrjú árin. Búin að njóta þess að geta gengið í vetur og vil endilega eiga kost á því áfram.