Hátíðarhöld

Strumpan kvaddi bekkinn sinn fyrir viku og var leyst út með alls kyns gjöfum auk teikninga með kveðjum frá öllum í bekknum. Ein til að mynda af henni sem hafmeyju, þar sem teiknarinn hafði skrifað að þetta væri „en tro kopi af dig“ … sá hafði verið með afmælisveislu heima og býr svo vel að hafa sundlaug og daman hafði heldur betur notið sín þar. Við tók svo róleg helgi með smálegri pökkun. Á mánudag fór Strumpan svo á útilífsnámskeið, að sjálfsögðu haldið í hinum enda bæjarins, með tilheyrandi skutlingi. Námskeiðið stóð alla vikuna og vildi svo vel til að það var brakandi blíða allan tímann. Því lauk með gistingu með foreldrunum. Ég fórnaði mér fyrir málstaðinn, enda í sumarfríi og hef enga löggilda afsökun. Eins og stundum áður þegar maður er ekki að nenna einhverju, reynist það skárra en maður þorði að vona. Það er þó óneitanlega skrýtið að taka þátt í svona viðburði þar sem maður þekkir engann og ekki er maður jafn fljótur að blanda geði eins og krakkarnir. Það hitti reyndar svo vel á að tvær bekkjarsystur Strumpunnar voru þarna líka en það skemmtilega var að þarna var líka nágrannastúlka, sem Strumpan hafði skelft með málæði miklu í sumarferð hverfisins í Djurs Sommerland. Þær hafa ekki átt neina samleið síðan, hin stúlkan ekki í hverfisskólanum. Þarna náðu þær svona ljómandi saman og léku sér líka eftir að námskeiðinu lauk á daginn. Ég spjallaði því lauslega við þessa foreldra en fæ engin verðlaun fyrir að vera partýljón, verður oft hugsað til sumra vinkvenna minna sem taka svona aðstæður með trompi. Þetta var allt afskaplega danskt, grillað á báli, farið í kvöldsund og það sem stóð upp úr voru tjöldin, eins konar indíanatjöld sem rúmuðu 10 manns hvert. Sérlega jákvætt fyrir mig með mína náttúrufóbíu að gista í tjaldi með engum botni. Lifði það af en verð að viðurkenna að ég átti alltaf von á svona „Snúðs og Snældu mómenti“ þar sem Snúður flýr tjaldið þegar járnsmiðurinn mætir á svæðið. Ég hélt að ég yrði kannski Snúður dagsins og myndi sofa uppi í tré, en það slapp til. Ekki get ég samt mælt með þessu nema sem öðru vísi upplifun, ég svaf illa og vaknaði öll skæld og snúin. Strumpan er agalega sár að komast ekki á svona námskeið að ári, ég reyndi að hugga hana með því að það væru vissulega útilífsnámskeið heima líka en hún vill bara fá nákvæmlega svona námskeið aftur og planar að vera allt næsta sumar í Danmörku.

Á mánudaginn héldum við annars upp á afmæli ömmu, hún hefði orðið 100 ára. Steiktum pönnukökur í tilefni dagsins. Á þriðjudag fengum við gesti í mat, Viðar frænda og hans fjölskyldu og í bónus voru Harpa systir hans, með mann og bónusdóttur. Áttum skemmtilega kvöldstund og vakti ekki sísta lukku að frændi, sem borðaði vel af matnum, komst að því að rétturinn hefði innihaldið döðlur, sem eru í litlu uppáhaldi. Það er líka gaman að því að Skottan kallar hann samviskusamlega Óla og sér þar klárlega einhvern frændasvip.

Um helgina ætlum við að leggja í lítið ferðalag. Ég á heimboð á Fjóni hjá einni LC systur minni svo við ætlum að keyra á Fjón í fyrramálið og gerast landkönnuðir og sækja þau svo heim á sunnudag. Síðasti séns að sjá og gera eitthvað nýtt áður en við förum heim.