Kveðjustundir

Í síðustu viku voru tvær kveðjustundir. Fyrst kvaddi ég LC klúbbinn minn, við áttum góða stund í „kolonihavehus“ einnar. Ég vona svo sannarlega að ég fái tækifæri til að hitta þær aftur en hálf skrýtin tilhugsun að það verði kannski ekki. Seinni kveðjustundin var svo á föstudag þegar við kvöddum dagmömmu Skottunnar. Það er mikil eftirsjá að henni, eina huggun mín er sú að Skottan hefði hvort eð er farið í leikskóla í haust, þetta var óumflýjanlegt. Skottan var leyst út með gjöfum, ekki nóg með að hún fengi gjöf frá Marianne, hún fékk líka gjöf frá Lærke vinkonu sinni. Foreldrar hennar hafa alltaf verið mjög elskulegir, þjást kannski svolítið af „einkabarnssyndróminu“. Við gerum okkur að minnsta kosti grein fyrir að þó Skottan og Lærke hafi náð vel saman í vetur þá eru litlar líkur á að það verði meira úr því. Ekki nóg með að maður gleymi þeim vinum sem maður á þegar maður er tveggja ára, líkurnar eru auðvitað að Skottan verði ekki mjög dönskumælt á næstu árum, svo þær gætu lítið átt samskipti þótt þær hittust. Engu að síður var þetta mjög indælt og við reynum auðvitað að halda einhverju sambandi. Það er nú svo að það kemst aldrei í vana að kveðja fólk sem maður hefur kynnst, þegar maður veit ekki hvernig verður með frekari hitting. Frekari kveðjustundir bíða, á morgun er síðasti fiðlutíminn og á miðvikudaginn síðasti hittingur hjá íslenskuhópnum.

Á föstudaginn var sumarhátíð í skólanum hjá Strumpunni. Með EM þema, en ekki hvað. Árgangurinn hennar „var“ Holland, þau æfðu lag á hollensku, sem þau fluttu og við vorum í hollenskum fótboltabúðum. Grilluðum hamborgara, (eigum enn eftir að læra mikið áður en við náum Dönum í lautarkörfum, gleymdum grilltöng og teppi til að sitja á), það var hoppdýna, kökusamkeppni, megafússball, að ógleymdri öl- og vínsölu. Þetta var ágæt stund, heldur kalt og fór að rigna þegar þau sýndu atriðið sitt, svo við flúðum heim fljótlega eftir það.

Strumpan fór í sundpróf á síðustu sundæfingu, var látin synda eins langt eins og hún gat, daman synti 760 metra. Er með öðrum orðum komin langt fram úr foreldrunum og mun vonandi halda áfram að æfa næsta vetur.

Við hjónin fórum á miðvikudag og kusum forseta. Það má alltaf láta sig dreyma um að atkvæðið manns skipti máli. Hef annars lítið nennt að setja mig inn í umræðuna heima. Veit bara að ÓRG er kominn á tíma. Þó ég hafi aldrei kosið hann, var hann um tíma ekki í neinni sérstakri ónáð hjá mér en hann hefur rækilega náð að breyta því á síðustu árum. Hitt er annað mál að enginn forseti er svo unaðslegur að það sé ástæða til að púkka upp á hann í 20 ár, svo þó ég væri ekki búin að fá mig fullsadda af honum persónulega, þá er tímabært að láta hann fara. Þó ég hafi ekki kynnt mér Þóru neitt sérstaklega, þá virkar hún á mig eins og hún hafi bein í nefinu og ég get ekki ímyndað mér annað en að fyrri störf hennar séu prýðilegur bakgrunnur til þess að geta komið fram skammlaust og blandað geði við aðra. Ég geri ekki neinar óhóflegar kröfur.

Ég pæli annars í augnlækningum þessa dagana, læt mig dreyma um að láta laga nærsýnina. Ætla að skoða málið vandlega þegar ég kem heim. Er búin að fá mig fullsadda af linsum og gleraugum og ömurlegri sjón.

Gleðilega þjóðhátíð!