Danmörk kvödd

Síðustu dagar hafa einkennst af niðurpökkun og þrifum en þó höfum við bæði lagt land undir fót og fengið gesti. Um síðustu helgi fórum við á Fjón. Áttum fyrst alveg frábæran dag í Egeskov slot, vorum þar sannir túristar. Mæli virkilega með ferð þangað fyrir þá sem eiga leið um nágrennið. Þarna var eitthvað fyrir alla. Höfðingjasleikjan ég fékk að skoða sjálfa höllina, við vorum reyndar öll hrifin af henni. Skottunni var reyndar meinilla við uppstoppuð dýrahöfuð og tók þó steininn úr þegar við komum að uppstoppuðu ljóni sem lá uppi í rúmi. Hún var sannfærð um að þetta væri lifandi ljón (eðlilega) og þurfti að láta halda á sér. Hún var fullvissuð um að ljónið svæfi, ekki kunni ég við að segja henni að það væri dautt. Annars höfðu dæturnar sérlega gaman af gríðarmiklu leiksvæði, þar sem foreldrarnir fóru illa með þær í hringekjum (eða hvað maður kallar svona prik á palli sem hægt er að snúa), Strumpan hafði líka gaman af því að fara í göngu á hengibrúm sem liggja á milli trjátoppa … móðirin kyngdi lofthræðslunni og lét sig hafa að fara með. Sömuleiðis átti Strumpan stórleik þegar hún tók að sér forystuhlutverk í völundarhúsi, gafst upp eftir rúmlega hálftíma rölt og faðirinn kom okkur á leiðarenda, þó með aðstoð korts. Hann fékk líka eitthvað fyrir sinn snúð, því innan um gamla bíla mátti líka sjá flugvélar. Það kórónaði auðvitað allt að við hrepptum dásemdarveður, 23 stiga hita en enga sól.

Við gistum á gistiheimili sem flokkast sennilega sem bændagisting, hún var að minnsta kosti staðsett í sveit rétt utan Odense og þar voru ýmis dýr búsett. Fengum stórt og gott herbergi, heimabakaðar bollur og kanelsnegle í morgunverð og hund og kött til að knúsa, auk þess sem það var góð aðstaða utan dyra, hengirúm og alles 🙂 . Mælum því óhikað með þessum stað (sem heitir Plougheld, svo ég klári nú meðmælin). Renndum til Odense eftir mat og keyrðum fram hjá því sem áður hét Nordisk landboskole og hýsti mig í þrjár vikur árið 1994. Ég skrækti upp yfir mig af fögnuði þegar við keyrðum hjá, svo dætrum mínum dauðbrá í aftursætinu. Hefði auðvitað átt að snarast út úr bílnum og láta taka af mér mynd fyrir framan húsið. Fundum indverskan take away stað, dömurnar léku sér við kettlinga fyrir utan á meðan við biðum eftir matnum.

Daginn eftir fórum við í heimsókn til Mette og Mads. Hún er með mér í LC, býr á Fjóni (í bæ rétt utan við Nyborg sem heitir Ørbæk) en er í tannréttinganámi í Árósum. Þau eru bændur og rækta epli, jarðarber, sólber, kirsuber og fleira og við fengum smá rúnt um plantekruna og tíndum haug af jarðarberjum. Vorum að auki leyst út með kartöflum, belgbaunum og þeirra eigin epla- og sólberjasafa. Frábær heimsókn, ekki síst að fá svo innsýn í landbúnað talsvert langt frá því sem maður þekkir á Íslandi.

Við komum heim seinni part sunnudags, fengum til okkar gesti í kvöldmat, gamlan nemanda minn út MA (hún er ein af þessum góðu sem maður er alveg til í að eiga samskipti við) og kærustuna hennar. Strumpan varð mikið spennt þegar hún komst að því að kærastan væri lögga og ræddi það mikið hvað hún hefði stefnt að því en væri núna hætt við.

Aðfaranótt þriðjudags komu svo tengdó og fór vel á því að þau yrðu síðustu gestirnir okkar, þar sem þau voru líka þau fyrstu. Dömurnar nutu þess í botn að hafa þau í heimsókn og það munaði heilmikið um að hafa þau að sinna þeim þegar foreldrarnir voru uppteknir við þrif og vinnu. Tengdamamma lét sig auðvitað ekki muna um að aðstoða við þrifin. Þau buðu okkur svo út að borða á fimmtudagskvöld, Strumpan fékk ósk sína uppfyllta, en það hafði verið aðal málið að fara eina lokaferð á Jensens bøfhus. Allir ánægðir eftir þá ferðina. Þau yfirgáfu svo pleisið í gær, á leið í bústaðinn í Svíþjóð. Við í góðum gír að þrífa og pakka, allt gengur frekar vel og ekkert stress. Skruppum meira að segja í dag á fornar slóðir og skoðuðum staðinn sem við gistum á með Árnýju og Hjörvari fyrir 8 árum. Strumpan náði svo einni vinkonugistingu svona í blálokin og við hjónin áttum góða kvöldstund yfir sushi.

Á morgun leggja þau feðgin í lestarferð til Kaupmannahafnar og á mánudag með flugi til Akureyrar. Ég verð örlítið lengur á ferðinni, fer til Skagen og gisti í tvær nætur og sigli svo áleiðis á þriðjudag.

Hvað stendur upp úr og hvers mun ég sakna? Ég ætla að eyða siglingunni í almenna nostalgíu og þunglyndi og skelli kannski inn status með uppgjöri eftir árið þegar heim er komið.