Noregur í nærskoðun

Það er ekki seinna vænna en að skrifa eitthvað um það sem á dagana hefur drifið undanfarið, ef einhvern tímann hefur verið ástæða til að skrifa oftar (og minna í einu þá) er það núna. Fyrst skal telja afskaplega ánægjulegt foreldraviðtal sem ég fór í með kennurum Strumpunnar. Það var aðeins öðru vísi en það sem ég á að venjast frá Íslandi, hún er með tvo umsjónarkennara sem báðir tóku þátt í samtalinu auk þess sem starfsmaður úr vistun sem hefur umsjón með bekknum hennar þar, var líka með. Fjölmennt foreldraviðtal. Það kom mér svo sem ekkert á óvart að heyra frökeninni minni hrósað en alltaf er það jafn gaman, ekki síður þegar maður fær að heyra það frá mörgum sem hafa ólík sjónarhorn. Þau voru öll þrjú sammála um ágæti hennar og sögðu að hennar yrði sárt saknað úr bekknum. Það sem stóð upp úr var auðvitað að fá niðurstöður úr samræmda prófinu sem hún tók í dönsku. Það er ekki gefin einkunn í þeim skilningi, meira eitthvað í ætt við normaldreifingu og Strumpan reyndist vera meðal 10% efstu. Dönskukennarinn (hennar – ekki ég í þetta sinn) var himinsæll með árangurinn. Það var stolt móðir sem knúsaði Strumpuna eftir viðtalið og við hæfi að leiðin lá svo út í búð til að kaupa línuskauta sem hún lagði sjálf til pening fyrir en fékk líka styrk frá foreldrum til að brúa bilið.

Tveimur dögum síðar lá leiðin til Noregs. Við keyrðum af stað til Hirtshals um morguninn, fengum okkur aðeins að borða þar og siglum svo til Kristiansands. Siglingin gekk áfallalaust, ælupésinn hafði fengið sjóveikitöflur til að halda heilsunni svo þrátt fyrir veltur var maginn til friðs. Við pöntuðum sæti á efsta dekki og sátum þar að mestu og fór vel um okkur. Það tók síðan óratíma að komast frá borði og frá höfninni og ekki laust við að það væri hnútur í maganum því við smygluðum ósköpum af áfengi með okkur handa Norðmönnunum. Það eru svívirðilega strangar reglur um innflutning á áfengi, þegar Íslendingi bregður við, þá er það svart. Allt hafðist þetta samt, við komumst með smyglvarninginn út af hafnarsvæðinu og keyrðum sem leið lá til Grimstad. Ekki fannst mér Kristiansand fallegur bær í þetta sinnið en geysilega falleg leið sem við keyrðum og við glöddumst mikið yfir öllum göngunum sem við fórum í gegnum, það er ekki ofsögum sagt að Noregur sé sundurgrafinn.

Við fundum hús Unnar og Ágústs án erfiðleika, auðvitað vopnuð hinu ómissandi Garmin en líka búin að skoða húsið á google maps. Það urðu fagnaðarfundir nema hvað heimasætan unga tók tímann sinn í að hrista af sér feimnina. Þegar sá þröskuldur var horfinn voru börnin öll dugleg að leika og Skottan sýndi okkur enn og aftur að hún er komin vel á veg að vera laus við feimni. Dagarnir okkar í Noregi fóru svo í bæjarferðir, stórar og smáar. Á laugardeginum fórum við fyrst til Litla Sands sem er á milli Grimstad og Kristiansands, afar sjarmerandi smábær og þaðan til Kristiansands og ég át allar mínar skoðanir um bæinn því miðbærinn er svo stórkostlega flottur að hann vó upp á móti ljótu hafnarsvæði Stena Line. Sérstaklega er huggulegt annað hafnarsvæði þar sem er búið að gera upp heilmikið af gömlum húsum og byggja menningarhús (sem er að vísu með ljótasta frystihúsið sem nágranna). Ég var að minnsta kosti algjörlega heilluð. Á sunnudeginum fórum við í gönguferð um Grímstaði, sem er líka gullfallegur bær, mikið byggður á klöppum og minnti mig til skiptis á Borgarnes og Karlshamn í Svíaríki. Strumpunni fannst reyndar ekki mikið til þessarar skemmtidagskrár koma, enda er fátt annað en tívolíferðir og dýragarðar sem ná inn á topplistann hjá henni. Hún talaði samt fjálglega um það að við ættum að fara í heimsreisu, sem foreldrunum fannst frekar skrýtin hugmynd miðað við áhugaleysið á Noregi. Hún reyndi að hressa sig við og horfa í kringum sig og spyrja en það var greinilegt að hún gat hugsað sér margt áhugaverðara en að ganga um og skoða hús. Mánudagurinn var hinn rólegasti, við skoðuðum verslunarmiðstöð Grímstaða og miðbæinn ögn betur en létum meiri dagskrá eiga sig. Heim héldum við svo í bítið á þriðjudegi, lögðum af stað frá gestgjöfum okkar upp úr sex og sigldum klukkan átta. Sigldum í dásamlegu veðri og kvöddum Noreg eftir góða dvöl. Nú get ég státað af því að hafa komið til allra Norðurlandanna, svona fyrir utan litlu nágrannana og verð að segja eins og er að Noregur kemur ansi sterkur inn. Verðlagið auðvitað alveg bilað en það er engu logið um fegurðina, að minnsta kosti ekki á þessum litla bletti sem við náðum að skoða.

Við skiluðum okkur svo í hús upp úr hádegi í þvílíku blíðskaparveðri og það hélst út vikuna. Ég stakk af frá Árósum á föstudeginum til að fara til Kaupmannahafnar á landsþing Ladies Circle og árshátíð LC og Round Table. Við vorum 10 sem fórum úr klúbbnum mínum, sérstaklega til að fylgja einni klúbbsystur okkar sem var að taka við sem landsforseti. Það var sér rútuferð fyrir LC og RT til borgarinnar, hún var skemmtileg og létt yfir fólki. Rútuferðin tók reyndar talsvert lengri tíma en til stóð vegna þess að það þurfti að gera mörg pissustopp á leiðinni (það var að vísu klósett en það hrökk í lás ef hurðinni var skellt of fast og lykillinn að klósettinu geymdur á þeim góða stað sem lykillinn að rútunni var líka.) Við vorum sex sem gistum saman á hóteli, Copenhagen Island, sem er með þeim flottari sem ég hef gist á. Höfðum ekki mikinn tíma eftir komuna til annars en að skella okkur í föt og mæta á svæðið. Það var ofurhetjuþema á föstudagskvöldinu og við höfðum flestar pantað okkur forláta Ghostbusters búninga frá Bandaríkjunum, sem höfðu borist deginum áður. Kvöldið byrjaði á heimapartýi þar sem var borðað og dansað (þau voru misjafnlega hressileg partýin, í mínu partýi var til dæmis ein sem strippaði, bæði í partýinu og líka í rútunni á leið til baka) og við enduðum svo öll í einu risapartýi. Það var sérlega gaman að sjá búningana, margir klúbbar höfðu tekið sig saman og voru eins, það var til dæmis hópur af Mario og hvar er Valli, margar Línur og Ofurmenn og -konur He-man, Þór, Ástríkur og Steinríkur en líka frumlegri búningar eins og norsk ofursæði. Kvöldið var alveg frábært, góður plötusnúður og skemmtilegur félagsskapur. Ég hitti líka tvo gamla kunningja frá landsfundinum á Íslandi fyrir ári, eina norska og einn danskan sem var einmitt nýlentur aftur í Danmörku eftir landsfund á Íslandi. Gaman að endurfundum. Ég yfirgaf samt svæðið upp úr eitt, verandi þessi litla B-manneskja sem ég er og fór heim á hótel til að næla mér í svefn fyrir morgundaginn.

Næsti dagur byrjaði snemma því við áttum að mæta á landsfundinn klukkan 10. Herbergisfélagar mínir voru heldur slappari en ég og hefðu sleppt því að mæta ef ekki hefði verið fyrir skemmtiatriði sem við áttum að halda. Fundurinn var ekkert rosalega skemmtilegur, hljóðið vont framan af og lítið hægt að fylgjast með. En við fórum svo á svið þegar okkar kona tók við sem landsforseti. Við sýndum atriði sem gekk út á að sýna hinar mörgu hliðar hennar svo við höfðum allar hlutverk, ég var til dæmis “wellness Susanne” og fór á svið í náttslopp, með handklæði um höfuðið og á töfflum. Átti að segja eitthvað smá og skála við Susanne og hef aldrei á ævinni upplifað eins hrikalegan sviðskrekk (og höfðu Gajol skotin sem ég var búin að fá ekkert að segja). Ég skalf svo mikið að ég gat varla hellt í glasið mitt, hvað þá skálað. Við enduðum svo allar saman á sviðinu að dansa og skutum konfetti yfir salinn og það var algjört spennufall þegar þetta var búið.

Eftir fundinn fórum við á hótelið og fengum okkur fegurðarblund og fórum svo að taka okkur til. Vorum mættar aftur klukkan sex í galadinner. Því miður sátum við ekki saman (þó vissulega finnist mér líka við hæfi að blanda geði við fólk sem maður þekkir ekki neitt) en ég var svo heppin að einn af borðfélögum mínum var hress og skemmtilegur og við spjölluðum eins og gamlir kunningjar. Við fengum prýðisgóðan mat og síðan var ball, bæði með plötusnúði og hljómsveit, aftur með frábærri tónlist svo ég fékk góða útrás fyrir dansþörfina. Afrekaði það meira að segja að hrynja í gólfið þegar ég var að dansa uppi á stól en blessunarlega er ég með stuðningspúða í bak og fyrir og þeir komu sér vel í þetta skiptið svo ég slapp við slys en hef þó risastóran marblett á rassinum til minja. Ég dansaði líka uppi á borði en bara í svona 10 sekúndur, þá kom öryggisvörður og teymdi mig niður. Ég hélt út aðeins lengur en fyrra kvöldið en var bara svo ferlega þreytt í fótunum að þó ég hefði viljað dansa alla nóttina hefði ég ekki haldið það út. Það er af sem áður var. Ég var því komin heim á hótel fyrir tvö, sjaldan verið fegnari að henda mér upp í rúm.

Daginn eftir var svo heimför með rútu klukkan 11, ferðin heim rólegri og fljótlegri en föstudagsferðin og gott að koma heim aftur eftir magnaða helgi.

Hvunndagurinn þessa dagana býsna rólegur. Ég reyni að sinna smáverkum á hverjum degi til að hafa eitthvað á afrekalistanum en stundum er það ekki mikið meira en að fara í sturtu og setja í þvottavél 🙂 . Við á leiðinni í afmæli á laugardaginn, til vinnufélaga Mumma og svo bresta á gestakomur og ferðalög í framhaldi af því.