Fyndin Strumpa

Litla skaðræðinu (sem tók ótal ofvirkniköst um helgina) fer óðum fram í húmornum. Aðal skemmtiatriðið þessa dagana er að bulla tákn. Hún er sem sagt að læra smá tákn með tali á leikskólanum og ef hún er í sérlega fyndnu skapi þegar hún er spurð hvernig hún segir eitthvað, þá bullar hún einhver tákn og er við það að tapa sér af gleði.
Svo átti hún gott atriði í gær – var að fara að horfa á Stóru stundina okkar og sá myndirnar á disknum og var að telja upp Sveppa og Selmu og svo framvegis. Nema hvað, hún segir svo eitthvað sem hljómar eins og eddu-ve og ég sperrti eyrun, þar sem þetta kemur reglulega sem óskalag og ég hef enn ekki áttað mig á beiðninni. Þannig að þegar aðal-valmyndin kom upp bað ég hana að sýna mér eddu-ve. Strumpan horfði á mig skilningsvana, sagði svo að ég talaði vitlaust og að hún skildi mig ekki. Þannig fór sú tilraun.
Hún er síðan loks flutt á „efri hæðina“, sem sagt farin að sofa í rúminu sínu, en var áður undir rúmi 🙂 Gengur ágætlega að komast niður af sjálfsdáðum, engin slys enn sem komið er. En heldur ekki heil nótt 🙁