Styttist í borgarferð

Fjölskyldan ætlar að smella sér í borgina um helgina. Alls kyns tilefni, bera kannski hæst tvær útskrifir úr HÍ en síðan eru það alls kyns nýlegheit sem á að berja augum. Íbúðir og börn þar helst að telja. Veit ekki hvort maður leggur í IKEA viðbjóðinn, eitthvað segir mér að það dugi ekkert minna en dagur í það. Sem betur fer er stutt í utanlandsferð svo maður þarf að minnsta kosti ekkert að stressast í búðir. Mummi er að vísu búinn að setja mér afarkosti um innkaup í útlöndum – eitthvað að meina að égverði að velja á milli þess að láta sprauta eldhúsinnréttinguna eða eyða eins og mér einni er lagið. Ég hlýt að geta komist að einhverju samkomulagi. Föt eru lífsnauðsyn, það má ekki gleymast 🙂

Mikið afrek vannst í gærkvöld. Fyrsta einmenningshlaupið mitt síðan í ágúst (og annað hlaupið frá því að 10 kílómetrarnir unnust – hefði eiginlega þurft að demba inn myndinni af mér síðan þá þar sem sést hvað ég er nálægt dauðans dyrum) sennilega einir fimm kílómetrar eða rúmlega það. Robbie kom sterkur inn í hlaupin með mér. Náði að auki að gera tvær armbeygjur – á tánum – þegar ég kom heim! Ég er ókrýndur þrekmeistari, það er ljóst.