Utanlandsferðir í stórum stíl

Þýskalandsferðin var að mestu leyti vel heppnuð. Innkaupin voru hin skemmtilegustu en þess má geta að þrátt fyrir að við höfum aldrei keypt jafnmikið magn af bjór og léttvíni um ævina þá vorum við eins og algjörir amatörar í samanburði við þá sem mest keyptu.  Strumpunni fannst mjög spennandi að vera stödd í Þýskalandi og beið spennt eftir því að fara yfir landamærin. Það var nú samt nokkuð mikill antiklímax en hún hefur þó á afrekaskránni að hafa komið þangað. Á bakaleiðinni stoppuðum við í litlum bæ sem er þekktur fyrir hunangskökur. Ég kom þarna fyrir 17 árum svo það var full ástæða til að endurtaka leikinn. Þess má geta að það var stemmingin í aftursætinu sem dró aðeins úr gleði foreldranna. Skottan veit þann leik skemmtilegastan að fá snuð og henda svo í gólfið og varð heldur súr þegar aðrir nenntu ekki lengur að leika.

Á sunnudaginn fórum við mæðgur í bíó á Strumpana, Strumpan fullyrti að hún hefði skilið megnið  af myndinni svo það er auðvitað hið besta mál. Það var líka einkar ánægjulegt að fara í bíó án þess að hafa hlé en það vakti athygli mína að popp og kók er selt í bandarískum stærðum og við mæðgur réðum ekki við popp af meðalstærð.

Við fengum ánægjulegar fréttir á þriðjudagskvöldið, Strumpan komin inn í tónlistarskólann, byrjar reyndar ekki fyrr en eftir þrjár vikur. En kennarinn hljómaði hinn geðugasti í símann, tímarnir verða í Læssøgadeskole (þar sem Strumpan er) svo það er ágætt á meðan hún er enn þar en auðvitað heljarinnar keyrsla fyrir mig.

Af skólanum hjá mér er það helst að frétta að ég þykist hafa séð kertið, jamm það er ekki svo gott að ég hafi séð ljósið, en það er aðeins að birta til. Ég er loks komin með hugmyndir fyrir ritgerðirnar mínar, og hef agnarlitlar hugmyndir um kenningar. Í dag var ég að kynna hópverkefni og afrekaði það að finna kenningar sem pössuðu, svo já, það eru jákvæðar, agnarlitlar framfarir. 🙂