Mánaðarskipt færslusafn fyrir: desember 2003

107283593281031119

Í gær (mánudag) var lokahátíð dönsku kvikmyndahátíðarinnar. Horfðum á „De grønne slagtere“. Ég hafði gríðarlegar væntingar til myndarinnar, ekki síst vegna þess að vinur minn, Fischer, lék í henni. Alltaf fundist hann geðugur. Nema hvað, myndin reyndist ansi súr. Mumma fannst hún reyndar fyndnari en síðasta danska mynd, hann var alltaf í viðbragðsstöðu að forða sér ef hún færi að verða léleg.

Í síðasta bloggi (á sunnudag) var ég að tala um jólakortaleitina. Það þarf varla að taka það fram að auðvitað fundust gömlu jólakortin um leið og ég hætti að leita að þeim. Svo nú er ég komin með myndasafnið í rétta röð í sérstakt albúm. Það er svo gott að hafa svona hluti í röð og reglu, einmitt eitthvað sem gleður Meyjuna í mér (hér vantar Mumma væntanlega að hafa kommentakerfi, því hann er líka Meyja en þykist ekki kannast við skipulagsæðið).

Í gær fórum við í heimsókn til kærastans hennar Sóleyjar. Sveinn Áki var uppáklæddur í tilefni dagsins. Aulinn ég hugsaði svona fimmtíu sinnum áður en við fórum að við yrðum að muna eftir myndavél en auðvitað klikkaði það. Þau sem voru einmitt sett í fyrirsætustellingar og Sveinn Áki látinn kyssa Sóleyju í bak og fyrir svo jaðraði við dónalegheit. Jæja, kannski ekki, myndirnar hefðu að minnsta kosti verið góðar.

Sörur númer 2 voru svo kláraðar í kvöld. Eygló náði passlega að smakka eina áður en þær kláruðust. Ég er næstum fegin að fá ekki meira fyrr en eftir tæpt ár.

Aðaltíðindi dagsins voru svo þau að Sóley fór að skríða á fullu. Var farin að færa sig vel úr stað í gær en spændi um allt í dag. Og nú þarf sko að skoða hlutina upp á nýtt. Hún komst til dæmis í afganginn af blautmat kisanna, var með lúkuna fulla af kattamat þegar ég sá til hennar. Ekki geðslegt. Fór líka í músaskúffuna og var komin með eina mús í kjaftinn eins og kisurnar. Minna geðslegt. Maður er samt eins og montin hæna.

107257503662326526

Frábært kvikmyndakvöld í kvöld. Horfði loksins á aðra dönsku myndina sem ég keypti í Kaupmannahafnarferðinni í sept. Gafst sem sagt upp á að bíða eftir dönskunördakvöldi, enda er eins gott að fara að horfa á þær, ef ég á að nota þær í kennslu á vorönninni.
Alla vega, mynd kvöldsins hét Se til venstre, der er en svensker. Það var samdóma álit tveggja af þremur áhorfendum að hún hefði verið svona ljómandi góð. Af einhverjum ástæðum var Mummi ekki sammála okkur systrum. Svo þið ykkar, sem haldið að kvikmyndasmekkur ykkar sé líkari Mumma en mínum, sleppið þessari mynd.

Fór svo í jólakortaleit. Keypti nefnilega þetta fína albúm í dag til að geyma jólakortamyndir í, en finn gjörsamlega ekki kortin síðan í fyrra. Flutti þau nefnilega af staðnum sem þau voru á, og hef greinilega fundið einhvern afskekktan leynistað. Sem er slæmt, því ekki get ég sett inn myndir þessa árs fyrr en hinar eru komnar á sinn stað.

107248669216080914

Fyrsta bloggletikastið mitt orðið að veruleika. Hvenær er ekki rétti tíminn til að vera blogglatur ef ekki um jólin? Dagarnir hafa farið í át, svefn, spilamennsku og aðra ómennsku. Allt eins og vera ber.

Gjafir voru eins og önnur ár, af misjöfnum gæðum. Það var ákveðið þema í gangi að þessu sinni. Ég fékk þrjá diska með Nýdönsk, þar af tvo af Freistingum sem ég var ný búin að festa mér, í þeirri trú að enginn myndi nokkurn tímann láta verða af því að gefa mér hann.
Fékk að auki Robbie Williams disk – sem ég var búin að gleyma að mig langaði í en var mjög glöð að fá. Stórgjör ársins var Ísland í aldanna rás, mig grunar að Óli öfundi mig að henni en ég öfunda hann hvort eð er að Öldunum og Sögu Akureyrar. Ég á eftir að skemmta mér við að fletta í henni.

Í Sóleyjargjöfum var einnig þema. Náttföt, hún fékk þrenn slík, en það kemur sér bara vel, enda voru þau öll við vöxt og ekki allt sama stærð. Annars fékk hún mikið af fötum og lítið af dóti. Þetta voru víst ordrur frá mér, en meira að segja mér ofbauð hvað hún fékk lítið af dóti svo ég er að hugsa um að fara á morgun og bæta úr því.
Hún fékk tvær algjörar surprise gjafir, annars vegar útsaumsmynd, með nafni, fæðingardegi etc. Þetta sem allar duglegar mæður gera, hinar láta Árnýju frænku sjá um það fyrir sig. Hins vegar sýndi systir mín óvænta prjónahæfileika, þeir hafa mér vitandi legið í dvala lengi.

Mummi var glaðastur með „The complete Far side collection“ sem hann fékk frá dóttur sinni, en sáttur við Metallicu og Making of The Lord of the Rings frá mér.

Jólakortin voru sum hver alveg frábært. Eins og það er fúlt (afsakið hvað ég er ákveðin með þetta) að fá þökkum liðið, þá er jafn frábært þegar fólk skrifar meira. Ég get varla valið bestu kortin úr, en samt telst Kristín sigurvegari ársins, með sitthvert kortið til dýra, fullorðinna og barns. Hvað er það með fólk að dunda sér við að búa til jólakort með ærinni fyrirhöfn en geta svo ekki skrifað neitt fallegt eða persónulegt?

Ég má ekki sleppa því að minnast á að við Mummi vorum að enda við að rústa fjölskyldu hans í Mr og Mrs. Nánast gjörþekkjum hvort annað. Gaman að fá það staðfest. Við systur vorum saman í liði í gær, byrjuðum af ofurkrafti en svo dalaði þekking okkar eitthvað, svo sigurinn hafðist ekki.
Mæli með spilinu, hefði gaman af því að spila það bara við pör.

107226947700777967

Ég þakka bróður mínum hugheilu jólakveðjurnar…ég hefði orðið svolítið spæld ef þær hefðu ekki verið hugheilar.

Erindið mitt í dag var svipað. Að senda öllum lesendum, nær og fjær (þetta er eiginlega nauðsynlegt líka) hugheilar jólakveðjur (hér dugar ekkert hálfkák) og þakka lesturinn á árinu sem er að líða.

Jamm, það styttist í jólin. Ég á eftir að fara í kirkjugarðinn (með Söngsveitina Fílharmóníu í bílnum) og svo jólabaðið. Annars mega jólin koma fyrir mér. Búin að afskrá miðnæturmessu í kvöld. Mundi alltíeinu að Blandon vinur minn messar á Munkaþverá á Gamlársdag. Það er miklu meira spennandi.

107213837468463297

Lauk við Sörubakstur hinn síðari í gærkvöldi. Endanleg smökkun fór hins vegar fram í kvöld. Þessar síðari hafa það fram yfir hinar að vera ekki bara einn munnbiti, heldur þetta tveir til þrír. Mesti munur. Þær bragðast vel en ég get ekki annað en verið hissa á hvað ein og sama uppskriftin getur birst í ólíkum myndum.

Fór á jólatónleika Kórs Akureyrarkirkju í gær. Það er að verða ánægjulega árviss atburður. Alltaf indælt. Ég birgði mig upp af hálsmolum og það slapp til, ég gat sungið af gleði með. Fæ alltaf nettan sting yfir að vera ekki á leiðinni í messu á aðfangadagskvöld og hugsa held ég árvisst líka um hvort ég eigi að fara í miðnæturmessu en yfirleitt nær letin yfirhöndinni. Sjáum hvað setur að þessu sinni. Merkilegt hvað ég tengi þessar stundir ekkert við trú, syng samt alveg frá hjartanu um guð og jesú og þá alla.

Sóley óðum að ná sér. Hitinn datt alveg niður í gær. Hún er samt hálf önug enn og hóstar reglulega. Ég hósta alveg ferlega enn. Algjörlega óþolandi hvað þetta getur tekið langan tíma.

Ég lauk líka við jólakortaskrif í gær, einmitt tímanlega, síðasta sendingardaginn. Talandi um árvissa atburði. Fylgist spennt með póstinum detta inn þessa dagana og rýni í skrift utan á kortin. Á mínu heimili er hins vegar bannað að opna jólakort fyrr en á aðfangadagskvöld. Ekki það að Mummi hafi sýnt tilburði til annars. Ég á það til að skrifa sendanda aftan á sum kort, þar sem menn stunda að opna fyrirfram. Mín kort eru þess eðlis að það á ekki að lesa þau fyrr. Alls kyns skilaboð sem eiga bara við í klukkustund á ári eða svo 🙂

Ég get varla sleppt því að taka jólakortaræðuna mína fyrst ég er á annað borð byrjuð að skrifa um þau. Mér er nefnilega ekki eins illa við neitt eins og jólakortin þökkum liðin ár, kær kveðja. Ég verð alveg saltvond. Ég vil persónulegar kveðjur eða engar kveðjur. Veltir fólk því í alvörunni ekki fyrir sér af hverju það er að senda fólki kort sem það getur ekki sagt neitt persónulegra við. Kenningin mín er sú „ef þú getur ekki sagt eitthvað persónulegra, út með viðkomandi af jólakortalistanum“. Nokkrar hugmyndir: a) gaman að hitta þig loksins í sumar, b) ég minnist þess með gleði þegar við fórum alltaf í bæinn á föstudögum, það voru góðar stundir, c) takk fyrir símtalið sem ég fékk frá þér í vor…
Ef manni dettur ómögulega neitt svona í hug, þá er kortið ónauðsynlegt. Nema ég sé svona vanþakklát og flestum finnist í raun nóg að fá þökkum liðið kortið sitt, eins og í fyrra og árið þar á undan.
Ég á heldur ekki við það vandamál að stríða að láta það eyðileggja fyrir mér jólin ef ég hef gleymt að senda einhverjum (opnararnir eiga iðulega við það vandamál að stríða og eru í fyrirbyggjandi aðgerðum).

Þá er best að ljúka kvörtunardeildinni í bili. Varla að ég geti kvartað, ég sit og hlusta á Söngsveitina Fílharmóníu (smá forleikur að taka sparidiskana fram fyrir aðfangadag). Það eru nokkur með stórri gæsahúð hér. Sérstaklega tvö, annars vegar Aðfangadagskvöld jóla 1912 (af því að það var alltaf sungið í messunni hér í denn) og hins vegar Slá þú hjartans hörpu strengi. Unaðslegt óbó. Heyrði Gunna einu sinni spila það, ansi hreint magnað læf.

107196187640236480

Jæja. Strax er ég farin að vitna í aðra bloggara sem vitna í mig. Hruff. Ég tek fram að ég er ekki að reyna að komast í bloggklíku með Villa, þó hann hafi linkað á mig, en ég ætla samt að setja link á hann. Þar er ég bara sönn mínu linkasafni – linka á þá sem ég les. Villi er greinilega aktívari en þær tvær, Erna og Svansý svo það er um að gera að fleygja honum inn. Og eins og ég sagði frá hér fyrir nokkrum dögum, þá er maðurinn einfaldlega höfðingi. Enginn étur að minnsta kosti einn með honum.

Eini maðurinn sem ekki fer inn á link listann, sem ég les samt, er Sverrir Páll. Seint mun hann komast þar inn.

Annars sit ég uppi með ættingja. Hér eru Anna, Óli og Eygló, voru í mat (sem Óli bauð upp á í öllum skilningi), hann var eflaust góður en bragðlaukarnir eru eitthvað að spara sig fyrir aðal átökin. Svo horfðum við á Popppunkt, við Anna í Kátra Pilta horninu, en hin héldu með leiðindapésunum í Vínyl.
Ég veit ekki hvað það er með þessa kappþætti nú orðið. Ég er hætt að geta haldið með nokkrum. Má vart á milli sjá hvort ég held minna með Vínyl eða Ensími.
Nú sitja þau að spilum. Eru í Fimbulfambi en ég baðst undan, enda í miðri kremgerð til að undirbúa næsta Sörubakstur, sem að þessu sinni dreifist á tvö kvöld.

Fékk gríðarlegar gleðifréttir í kvöld. Gamall „vinur“ hefur tengst inn í fjölskylduna. Það kom í ljós að hann Palli (ekki Palli Freyr NB) er í raun Manni, eða öfugt öllu heldur.
Þannig var mál með vexti að á mínum ungdómsárum, þegar ég stundaði 22 eins og ég væri lesbísk, var þar fastagestur, sem mér og Valgerði vinkonu minni, líkaði svo vel við. Hann dansaði ævinlega einn úti í horni, kátur, stuggaði aldrei við neinum og söng af hjartans list með lögunum. Við kölluðum hann Manna okkar á millum. Nema hvað, Árný komst að því í dag (litli heimur) að hann er fjölskylda. Velkominn í fjölskylduna, Palli!

Strumpan er enn hundveik. Gekk svo langt að ég hringdi í lækni til að ráðfæra mig. Ekkert að gera nema bíða og láta vírusinn hafa sinn gang.

107188022667781972

LotR stóð undir væntingum. Ekkert meir um það að segja fyrr en sýningar hefjast almennilega.

Það sama er ekki hægt að segja um Idol. Ég er eiginlega hætt að skilja hvers vegna Jón heldur áfram. Maðurinn er bara ekki söngvari. Helgi vissulega mistækur söngvari en átti að minnsta kosti góða spretti inni á milli. Þetta fer að verða eins og í Survivor. Vertu bara nice og þá kemstu langt. Ég er að auki komin í krísu. Held varla með neinum. Skil ekkert þessar endalausu lofræður til Önnu Katrínar. Mér finnst hún ekki alveg vera að finna sig í þessum venjulegu popplögum. Hún hefur ekki sungið neitt vel síðan hún söng Coldplay. Þannig. Hún er auðvitað firna góð söngkona, en ég er farin að efast um að hún eigi heima þarna.
Það eina sem reddaði Idól þætti kvöldsins var að Kalli Bjarni skyldi vera í þriðja neðsta. Sá er líka ofmetinn og frammistaðan í kvöld var hreint út sagt léleg nema síðustu tíu – tuttugu sekúndurnar. Dómararnir heyrðu þetta líka en fóru kannski fínna í það en ég!

Annars er Strumpa lasin. Komin með 39 stiga hita, fyrsta alvöru veikin. Hún hefur mest hóstað mér til samlætis síðustu daga en í dag var hún farin að gera það að fyrra bragði og lá svo í rúminu með eplakinnar í kvöld. Vonandi rífur hún sig upp úr þessu fyrir jól (og ég líka, auðvitað).

107170389922548660

Þá er systir komin í bæinn og dagurinn að mestu leyti helgaður henni. Það verður að byggja upp smá goodwill, búið að panta hana í barnapössun á morgun og hinn! Var að koma úr Akurgerði, var orðin mjög heimilsleg undir það síðasta. Lá uppi í sófa undir teppi. Heppni Eyþór var að koma af LotR en maður þolir nú við þangað til á morgun.

Verð að setjast ögn yfir jólakortin og koma nokkrum í viðbót frá. Ekki gerir maður það á morgun – tíu bíó og heimkoma um miðja nótt. Jólakortaskrif og Sörubakstur eru eiginlega í uppnámi, af því að það er bíó á morgun, Idol á föstudag og tónleikar á sunnudag. Eitthvað verður undan að láta.

Annars veit ég ekki hvað það er með mig og enska titla þessa dagana. Bókin sem ég er að lesa (og hef ekkert lesið í í dag og mun lítið lesa í á morgun) heitir „The Battersea PARK Road to Enlightment. Eins gott að ég er að fara að vinna eftir áramótin. Minnið er farið að gefa sig verulega

Svo náði ég mér í nýja pest. Eins gott hún taki fljótt af. Verst að góða koníaksráðið er ekki sérlega hentugt í brjóstamjólkina en kannski lætur maður sig hafa það ef ekkert annað virkar. Svona er maður annars mikill hræsnari. Drekk rauðvínsglas af og til án þess að láta það á mig fá, en vil ekki drekka hóstasaft né fá mér eins og matskeið af koníaki. Meira bullið í manni alltaf.

107162323933057732

Sat með jólalögin undir geislanum og skrifaði jólakort. Byrjaði víst á öfugum enda þetta árið, að minnsta kosti er enginn utan Akureyrar enn kominn á blað (nema Óli og Eygló en þau koma nú við hér á austurleiðinni). Búin með sirka fjórðung. Verð að liggja yfir þessu næstu kvöld, það liggur meira á þessu en jólahreingerningunni.

Sörurnar eru búnar. Mikil sorg, sem væri óyfirstíganleg ef það væri ekki búið að ákveða að baka fleiri.
Þurfum að huga að því hið fyrsta. Búið að panta sérlegan bakaradreng (eða stúlku öllu heldur) til aðstoðar og búið að plotta svoldið með hvernig er best að haga þessu. Gaman að sjá hvernig sú hagræðing kemur út.

Af menningunni er það að frétta að ég er nú að lesa bók sem heitir „The Battersea Road to Enlightment“. Hún er ansi skemmtileg. Tók svo tvær danskar á safninu og eina eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur (þó ekki ævisögu Vilborgar Dagbjartsdóttur, enda heyrt flest „highlætin“ úr henni).

PS Tveir dagar í LotR. Setur strik í Sörureikninginn. Hafði hugsað mér að baka á fimmtudaginn þangað til Mummi minnti mig á aðrar skyldur.