Lauk við Sörubakstur hinn síðari í gærkvöldi. Endanleg smökkun fór hins vegar fram í kvöld. Þessar síðari hafa það fram yfir hinar að vera ekki bara einn munnbiti, heldur þetta tveir til þrír. Mesti munur. Þær bragðast vel en ég get ekki annað en verið hissa á hvað ein og sama uppskriftin getur birst í ólíkum myndum.
Fór á jólatónleika Kórs Akureyrarkirkju í gær. Það er að verða ánægjulega árviss atburður. Alltaf indælt. Ég birgði mig upp af hálsmolum og það slapp til, ég gat sungið af gleði með. Fæ alltaf nettan sting yfir að vera ekki á leiðinni í messu á aðfangadagskvöld og hugsa held ég árvisst líka um hvort ég eigi að fara í miðnæturmessu en yfirleitt nær letin yfirhöndinni. Sjáum hvað setur að þessu sinni. Merkilegt hvað ég tengi þessar stundir ekkert við trú, syng samt alveg frá hjartanu um guð og jesú og þá alla.
Sóley óðum að ná sér. Hitinn datt alveg niður í gær. Hún er samt hálf önug enn og hóstar reglulega. Ég hósta alveg ferlega enn. Algjörlega óþolandi hvað þetta getur tekið langan tíma.
Ég lauk líka við jólakortaskrif í gær, einmitt tímanlega, síðasta sendingardaginn. Talandi um árvissa atburði. Fylgist spennt með póstinum detta inn þessa dagana og rýni í skrift utan á kortin. Á mínu heimili er hins vegar bannað að opna jólakort fyrr en á aðfangadagskvöld. Ekki það að Mummi hafi sýnt tilburði til annars. Ég á það til að skrifa sendanda aftan á sum kort, þar sem menn stunda að opna fyrirfram. Mín kort eru þess eðlis að það á ekki að lesa þau fyrr. Alls kyns skilaboð sem eiga bara við í klukkustund á ári eða svo 🙂
Ég get varla sleppt því að taka jólakortaræðuna mína fyrst ég er á annað borð byrjuð að skrifa um þau. Mér er nefnilega ekki eins illa við neitt eins og jólakortin þökkum liðin ár, kær kveðja. Ég verð alveg saltvond. Ég vil persónulegar kveðjur eða engar kveðjur. Veltir fólk því í alvörunni ekki fyrir sér af hverju það er að senda fólki kort sem það getur ekki sagt neitt persónulegra við. Kenningin mín er sú „ef þú getur ekki sagt eitthvað persónulegra, út með viðkomandi af jólakortalistanum“. Nokkrar hugmyndir: a) gaman að hitta þig loksins í sumar, b) ég minnist þess með gleði þegar við fórum alltaf í bæinn á föstudögum, það voru góðar stundir, c) takk fyrir símtalið sem ég fékk frá þér í vor…
Ef manni dettur ómögulega neitt svona í hug, þá er kortið ónauðsynlegt. Nema ég sé svona vanþakklát og flestum finnist í raun nóg að fá þökkum liðið kortið sitt, eins og í fyrra og árið þar á undan.
Ég á heldur ekki við það vandamál að stríða að láta það eyðileggja fyrir mér jólin ef ég hef gleymt að senda einhverjum (opnararnir eiga iðulega við það vandamál að stríða og eru í fyrirbyggjandi aðgerðum).
Þá er best að ljúka kvörtunardeildinni í bili. Varla að ég geti kvartað, ég sit og hlusta á Söngsveitina Fílharmóníu (smá forleikur að taka sparidiskana fram fyrir aðfangadag). Það eru nokkur með stórri gæsahúð hér. Sérstaklega tvö, annars vegar Aðfangadagskvöld jóla 1912 (af því að það var alltaf sungið í messunni hér í denn) og hins vegar Slá þú hjartans hörpu strengi. Unaðslegt óbó. Heyrði Gunna einu sinni spila það, ansi hreint magnað læf.