107351038616460167

Og annað bloggletikastið orðið staðreynd. Nú þegar ég er vinnandi manneskja á ný hef ég ekki nennt að sinna blogginu mínu. En nú er sjokkið að verða búið og óhætt að reyna að skrifa eitthvað.

Best að ég reyni að vera ekki langorð.
Vinnan fer vel af stað. Fyrsti kennsludagur í dag. Gaman að komast í gang. Stundaskráin góð og hóparnir sennilega ekki of stórir. Nokkrir gamlir nemendur inni á milli, sumir úr Síðuskóla, aðrir síðan í fyrravetur. Vantar bara að maður auglýsi bloggið sitt til að stækka lesendahópinn 🙂 Ég var einmitt að reyna að koma því til skila í dag að maður væri bara mannlegur – ætti sér líf utan skólans. Efast um að þau hafi trúað mér.

Anna systir fór svo í dag. Rétt komst suður fyrir óveðri. Þar fór góð barnfóstra. Sóley Anna búin að vera reglulega hjá henni. Félagslífið og Bláu könnu ferðirnar minnka um leið.

Svo fengum við eyðslukast í dag. Hvað er það eiginlega með að eyða pening sem maður ekki á? Fórum á útsölu í Vörubæ, sem við hefðum jafnvel betur sleppt. Ég meina, sumt á maður bara að forðast. Vandamálið var frekar að velja en að kaupa. Fundum síðan alveg ljómandi fallegan ljóskaffibrúnan hornsófa og stokkuðum upp í stofunni. Hún er dálítið öðru vísi núna.

Og ef einhver vill nokkurra ára, grænt, „pínu“ kisuklórað sófasett, þá fæst það ókeypis fram að helgi eða svo. Eftir það verður því fargað. Lysthafendur sendið tölvupóst á hafing@hotmail.com.