107369368329173498

Brill, brill, brill. Svínasúpan er frábært. Sem betur fer ekki bara einn góður þáttur. Tómarúmið eftir Fóstbræður hefur verið fyllt. Ég skil ekki að það sé til fólk sem finnst þetta ekki fyndinn þáttur. Jæja, það er kannski fólkið sem er að fíla Spaugstofuna. Mér finnst það ósamræmanlegt.

Ídólið kom á óvart í kvöld. Ég held að það hafi fleiri en ég og Anna Katrín haldið að hún væri að fara. Get ekki sagt að ég sakni Ardísar en frammistaða hennar í kvöld var betri en Önnu. Ég var mjög svekkt að Anna skyldi ekki taka þetta með trompi. Varð voða fegin þegar hún byrjaði ágætlega. En þessir háu tónar, vá… þetta þarf að skoða.
Vek samt athygli á því að spáin er að ganga eftir. Miklir spádómshæfileikar greinilega því ég spáði Önnu og Kalla í úrslit. Verð að viðurkenna að ég spáði ekki Jóni í úrslit, ég sá þetta alls ekki fyrir. Enda maðurinn lítið meira en frambærilegur raulari.

Fór á jarðarför í dag. Það var verið að jarða Boggu, afasystur mína. Maður fer nú ekki almennt á jarðarfarir afasystra sinna en ég fór af og til með afa og ömmu í heimsókn á Lón – þegar ég vældi nógu mikið í afa að mig langaði í sveitaheimsókn. Góði rúnturinn hans afa niður á Gáseyri endaði þá á Lóni. Þar var frábær hundur, mig minnir að hann hafi heitir Kópur og kallaður Kobbi. Sá átti aldeilis til að strjúka til Akureyrar og leita að ættingjum sínum, krökkunum og barnabörnunum hennar Boggu. Afar skemmtilegur karakter. Þarna elti ég líka hænur. Skemmtilegt áhugamál.

Annars var jarðarförin skrýtin. Þegar Óskar minn (engin jarðarför án Óskars) byrjaði að syngja fyrsta lagið hófst ókyrrð aftast í kirkjunni. Ég var alveg miður mín yfir hvað fólk gæti verið dónalegt á jarðarför. Það hringdi gemsi og hvaðeina. Ég, höflig eins og ávallt, kunni ekki við að snúa mig úr hálsliðnum svo ég náði engum botni í þetta. Þetta stóð alla jarðarförina. Stuttu eftir að við komum út, kom skýringin. Einn jarðarfaragestanna hafði liðið útaf og sett allt í uppnám, það var hringt á sjúkrabíl og hvaðeina. Hann náði sér þó og sjúkrabíllinn fór tómur tilbaka.

Afrekalisti gærdagsins var mikill af því að það var eitt gott afrek á honum. Ég hringdi nefnilega í Ágústu, sem ég hef stefnt að síðan í nóvember eða þar um bil. Það var góð tilfinning að framkvæma það loks. Nú er hægt að strika út eitt nafn af áætluðumsímtalalistanum.

Ég hef klikkað alveg á afmælisbörnum dagsins að undanförnu. Bragarbót. Afmælisbarn dagsins er amma, sem er 83 ára, í gær var Helgi mágur minn 24 ára, þann 6. varð Hjörvar frændmágur minn 31 árs og þann 1. varð Guðmar frændi minn 36.