Ævintýri í sveitinni

Já við lentum í gríðarlegum hrakningum í dag þegar við fórum í heimsókn í sveitina. Það var viðbjóðslega hált og ekki hægt að komast með eigin vélarafli upp brekkuna við Munkaþverá. Siggi svili bjargaði deginum og dró okkur upp á þjóðveg. Þetta var ægilegra en það hljómar (að minnsta kosti ægilega meira pirrandi en það hljómar).

Freistaðist í bókakaup í dag. Fór í Bókval að kaupa afmælisgjöf og endaði á því að kaupa eitthvað handa öllum í fjölskyldunni að auki. Handa Sóleyju fann ég „Fyrsta orðabókin mín“ eða mig minnir að hún heiti það. Gríðarlega fín bók sem Anna systir átti sem krakki (kannski á hún hana enn?) og ég öfundaði hana mikið af. Hún er hins vegar aukin og endurbætt því hún er líka á ensku og dönsku. Lofar góðu. Handa mér keypti ég Öxina og jörðina og ætti að vera að lesa hana núna í staðinn fyrir að skrifa hér, enda eru kvöldin eini tíminn til lesturs. Handa Mumma (eða þannig, það hljómar alla vega betur) keypti ég „Við“, akureyrskt tímarit af því að þar er viðtal við akureyrska vændiskonu. Og í afmælisgjöf keypti ég Þrautabók Gralla gorms (ekki handa Óla bróður). Það var útsala á ýmsum bókum og ég átti afar bágt með mig. En þar sem öll kaupin nema afmælisgjöfin voru græðgiskaup hafði ég að lokum smávegis stjórn á mér. Huff.

Annars erum við í unglingapössun. Ögmundur frændi hans Mumma er hér í fóstri fram yfir helgi. Hann er ánægður ef við fleygjum nammi til hans og leyfum honum að horfa á sjónvarpið. Liggur við að við fáum ekki að stjórna fjarstýringunni. Bóndadagurinn fór þar af leiðandi fyrir lítið í gær og er frestað um viku. Ekki fer maður að elda eitthvað gourmet og eiga rómantíska stund saman með hann hér.