Þessar kisur

Áður en ég byrja á kisusögunni vil ég biðja lesendur afsökunnar á letinni. Sérstaklega þegar er veið að linka á mann af fyrrverandi heimsfrægum bloggara. Hjörvar, þú verður að fara að senda út aðra pistla sem hljóta landsathygli svo maður njóti þess að vera LOKSINS kominn á linkaskrá!
Annars ætlaði ég að segja að ég væri að verða jafn slæm og Eygló…en það er kannski ljótt 🙂

En sem sagt, það voru kisurnar. Það er ekki flóafriður á heimilinu núna því þeir eru búnir að læra að opna skúffur og skápa. Skúffur til að sofa í þeim, ég er ekkert voðalega lukkuleg að láta kettina sofa í handklæðaskúffunni (sem þeir nota núna í hallæri af því að það voru gerðar sérráðstafanir með fyrstu skúffuna) eða í fötunum hennar Sóleyjar, en það virðist vera allra best að vera þar. Núna er bleyjurusladallurinn kíttaður þétt upp við skúffurnar í kommóðunni hennar svo á meðan þeir geta ekki fært rusladalla líka þá er friður. EN nota bene, um leið og gleymist að setja rusladallinn upp við eru þeir mættir (aðallega Skessa en líka Úlfur).

Prins er skápamaðurinn. Ég veit svo sem ekki hvort hann er farinn að opna skápa, en hann er að minnsta kosti farinn að gramsa inn í þeim til að næla sér í harðfisk. Við keyptum okkur harðfisk í ægilega sætum umbúðum, svona þorrasnakk, og sem ég kem fram á sunnudagsmorguninn var pokinn undan harðfisknum á gólfinu. Þarf auðvitað ekki að taka fram að hann var tómur.
Í fyrrakvöld laumaðist Prins svo aftur inn í skáp og fann seinni harðfiskpokann en þá greip ég hann glóðvolgan.

Annars er lífið hjá þeim óvenju erfitt núna. Sóley er farin að keyra bíl! Við freistuðumst til að kaupa pæjubíl á útsölu hjá Kalla frænda í gær og þetta líst þeim frekar illa á. Þetta heitir afmælisgjöf, enda styttist óðum í árs afmælið. Ég sem ætlaði aldrei að kaupa svona bíl handa barninu mínu. Ég held að það sé vegna þess að ég fékk nett ógeð hér um árið þegar Óli bróðir geystist um á gula bílnum sínum sem var með einhverjum ótætis bjöllum í dekkjunum. En svo heyri ég að þetta sé bara ljómandi sniðugt því þau geta gengið með honum á meðan þau eru að æfa sig að ganga. Svo þar braut ég enn eina prinsippregluna. Sóley er altént mjög lukkuleg með hann. Enn sem komið er situr hún bara, það er ógurleg stuðningsstöng allan hringinn svo hún dettur ekki af, og við ýtum. Það er nefnilega ýtistöng aftan á honum fyrir foreldrana, svo þeir verði örugglega ekki atvinnulausir.

Sundtími dagsins var með besta móti. Sóley greinilega búin að rifja upp að hún kunni ýmislegt fyrir sér fyrir jólin, en því var ekki að heilsa á fimmtudaginn var. Hún fór í allar æfingar með bros á vör, meira að segja þegar mamma hennar reyndi að handleggsbrjóta hana í kollhnísæfingu. Sumt fólk á ekki að handleika börn!