Meira hvað Saboga ætlar að fara erfiðlega af stað. Sorglegt að Rudy þurfti að fara (nema þetta undarlega komment í lokin um hvað hann á góða vini) en mikið var ég fegin að þau höfðu rænu á að halda í Ethan. Ég meina, hann er góður gæi.
Ég var annars í krísu út af félagslífinu. Af því að það var svo margt framundan þurfti auðvitað að standa þannig á að tvennt bar upp sama kvöldið. Annars vegar Árshátíð Síðuskóla, sem ég verð að fara á, gömlu umsjónarnemendur mínir eru núna í 10. bekk og eru aðalnúmerið – atriði kennaranna er líka ómissandi. Hins vegar er það leshringur, og ég tími auðvitað ómögulega að sleppa honum. Enda var ég búin að ákveða að fórna árshátíðinni. En málin leystust farsællega af því að það þurfti að fresta leshring um viku. Hentar líka vel því ég er ekki komin alveg nógu langt á veg með Wallander hinn sænska.
Á föstudagskvöld á svo að vera skemmtikvöld í VMA. Enn hef ég ekki mætt á neina skemmtun á þeirra vegum svo það er aldeilis kominn tími til. Spillir ekki að það er vínsmökkunarkvöld og að auki á að ljóstra upp hvers vinur maður hefur verið þessa vikuna, en það er leynivinavika í gangi núna. Ég er leynivinkona Hinriks (treysti því að hann lesi ekki bloggið mitt) og í gær gaf ég honum bakkelsi með kaffinu, en í dag fjóra pakka af Pez (ég veit, hvílíkt örlæti). Svo keypti ég næstu gjafir. Á morgun fær hann sokka en á fimmtudag fær hann forláta flautu sem einnig er með áttavita og hitamæli. Maðurinn er sko íþróttakennari svo það fer vel á þessu.
Ég á ágætan vin. Hann sendir mér fallegar orðsendingar,og í gær fékk ég lakkrísdraum (nota bene stóran) og í dag fékk ég rós.
Leynivinagjöfin sem enginn nær að toppa kom samt í dag og ég missti því miður af henni. Einhver gaf sem sagt magadans með Helgu Brögu, þannig að í löngu sýndi hún dans. Ég er miður mín að hafa misst af henni og miður mín að það er vonlaust að toppa þetta. Allar betri hugmyndir vel þegnar 🙂