Hafdís Bolla (með stóru bé)

Úffúffúff. Þá er farið að síga á seinni hlutann í hinu árlega bolluofáti sem nær alltaf hámarki á sunnudeginum. Fékk mér eina bollu á föstudaginn (af því að Mummi var búinn að fá sér við ýmis tækifæri), svo fórum við í hið árlega hlaðborð í sveitina í gær og ég vil ekki hugsa til þess hvað ég borðaði margar þar. Sóley fékk þar sína fyrstu bollu en hún fór nú víðar en í magann. Verst að það eru ekki fleiri svona dagar fyrir Fat Campið hennar. En samt sem betur fer, af því að þá tekur móðirin þátt í prósjektinu og það minntist enginn læknir á að hún þyrfti að fara í Fat Camp.
Í dag fórum við svo í bolluhlaðborðið hjá tengdó og þá var Sóley öll að komast í gírinn og borðaði tvær bollur. Kannski hún fái sér þrjár á morgun? Aftur borðaði ég margar, en það var aðallega af því að Ármann og Hanna komu með bollur og Ármann hafði búið til eitthvað dýrindis afbrigði með karamellubúðing og glassúr. Ég þurfti að prufusmakka þær allnokkrar.

Í gær höfðum við Björninn í mat. Reyna að vinna sér inn punkta fyrir kattapössun um næstu helgi. Það stefnir allt í suðurferð. (Bjarni heldur að vísu að hann verði sjálfur fyrir sunnan. ) Horfðum svo á Gamle mænd i nye biler. Verið að reyna að gera Bjarna að dönskunörd. Sænska hjartað hans sló örar þegar kom í ljós að það var sænskur leikari í myndinni sem talaði auðvitað sína fínu sænsku. Anyways, myndin er ótrúlega góð. Lína myndarinnar er „We would like a meat room with a towel“. Þetta er allt að því must buy. Kannski ég bæti henni í innkaupakörfuna mína.

Dagurinn í dag er auðvitað einn uppáhalds dagur ársins. Hann var rólegri en venjulega framan af því gjafirnar bárust ekki fyrr en undir kvöld. En góðar voru þær. The Chocolate Bible, sem er líklega eina Biblían sem ég trúi á, einhver dýrindis kaffidrykkjarbók með ýmsum girnilegum drykkjum (og nú verðum við að kaupa einhverjar græjur til að þeyta mjólk – við höfum ekki borið barr okkar síðan Sigrún var hér í ágúst og dekraði við okkur á hverju kvöldi með því að gefa okkur Caffe Latte fátæka mannsins) og að síðustu John Lennon Legend á DVD en við hjónin vorum einmitt nýbúin að taka smá Lennon umræður, eftir að Imagine kom á Skjá Einum, held ég, í flutningi ýmissa barna. Maður þarf að kíkja á hann við tækifæri.

Gríðarleg spenna í gangi með Nikolaj og Julie. Ég sveiflast á milli þess að þau taki saman aftur eða ekki. Í kvöld stefnir til dæmis ekki í það. Þrír þættir eftir og spennan að verða óbærileg. Að sama skapi verður gífurlegt tómarúm þegar seríunni lýkur.