Ég velti því fram og tilbaka hvort maður ætti að stefna á Pixies. Ekki það að ég er bara seinni tíma aðdáandi, þetta var einum of undarleg tónlist fyrir minn eighties smekk þegar ég var í 9. bekk. Það voru bara þeir allra framsæknustu sem voru að fíla þá. Ég fékk í raun ekki opinberun fyrr en á Nýja Garði en þar voru líka nokkrir harðir Pixies aðdáendur. Helgi Gunnar þar fremstur í flokki og svo auðvitað Anna Lilja. Einhvern veginn held ég að það væri býsna gaman að fara, og mér liggur við að halda að það yrðu ekkert of margir unglingar enda Korn strax á eftir.
Annars er ég á bólakafi í Júrótrasj núna. Tók af skarið og pantaði Grand Prix 2004 (svo enginn fari nú að gefa mér hann í afmælis- eða jólagjöf!) og ég veit ég á eftir að hlusta á Tómas í tætlur. Þarf líka að eignast lagið á smáskífu með enska textanum þegar það kemur út til að bæta í fína safnið (á nú þegar bæði vini mína Ólsen og Rollo og King).
Strumpan í góðum gír í dag. Fór hamförum í kollhnís nú undir kvöld og var frekar súr að þurfa í háttinn þegar allir voru að skemmta sér vel. Er að æfa sig að drekka úr stútkönnu svona sjálf og alein og þetta er svona gamaldagssystem, það er að segja engin lekavörn og þar af leiðandi mjólkurslettur um allt eldhús því að í gleði- og montvímunni hristir Sóley könnuna eins og hún sé með sinn eigin prívat Helenustokk.
Survivor þáttur kvöldsins verulega súrrealískur. Alls ekki ósátt við úrslitin samt. Ég er svolítið torn hvort ég á að halda með Chapera eða Moga Moga. Held að Moga Moga sé betri kostur í heildina en þá þarf ég að svíkja Rupert minn.