Járnsmiðir í rúminu

Ég er ofsótt. Báða morgnana sem ég hef verið heima með Sóleyju þessa vikuna hef ég fundið járnsmið á spásseri í rúminu mínu. Ég er ekki kát. Verð að viðurkenna að ef ég ætti að velja á milli köngurlóa og járnsmiða yrðu þeir síðarnefndu tvímælalaust fyrir valinu en almennt finnst mér skordýr eiga heima annars staðar en uppi í rúmi. Hvaðan ætli þessi helv. kvikindi komi?

Annars var ég bara að átta mig á því núna að ég hef ekki bloggað síðan á mánudag. Ég hef hins vegar verið svo ansi upptekin, ýmist er ég að tala í símann, horfa á sjónvarpið (reyndar hef ég ekki horft á neitt nema Queer Eye síðan á mánudag), fara snemma að sofa eða hoppa í leikfimi. Allt góðar og gildar fjarvistir. Og alltaf þegar mér dettur í hug að fara í tölvuna situr Mummi þar fyrir og ég nenni ekki að reka hann frá. Að hann skuli ekki finna á sér hvenær ég vil komast að.

Féll annars einhver fyrir þessum viðbjóðslega lélegu göbbum í gær? Mér fannst þau öll lykta langar leiðir af aprílgabbi þannig að ég lét ekki blekkjast af neinu. Greinilega svona frægsfólksþema í gangi.

Var hins vegar alveg extra fyndin í kennslu í gær í tilefni dagsins. Kom til að mynda inn í hópinn sem ég kenni til rúmlega fjögur og var að fara að sýna þeim próf. Var að sjálfsögðu spurð um leið og ég gekk inn í stofuna hvort ég myndi ekki hleypa þeim heim um leið og þau væru búin að sjá prófið. Ég jánkaði því samviskusamlega, enda búin að ákveða að gera það í lok tímans 🙂 Kippti þeim fljótt niður af gleði-pallinum.

Svo er bara gleði gleði gleði. Gott að vera kominn í páskafrí. Ahhh.