Sæludagar

Það fer ekkert voðalega mikið fyrir átakinu í augnablikinu. Í gær vorum við í hádegismat hjá Kristínu og Árna Hrólfi, ég borðaði svona ívið meira en réttlætanlegt er, fæst af því svo sem mjög óhollt nema hvað ég lét eftir mér að fá mér eitt páskaegg. Í dag fengum við Árnýju, Hjörvar og dætur í kaffi og ég snaraði í eina köku, sömuleiðis ekki mjög óholla en samt…

Í kvöld fengum við svo tengdó, mága mína og svilkonu í mat, ekkert af því svívirðilega óhollt nema einhver guðdómlegur ís sem Helgi kom með – ef ég hefði ekki verið í aðhaldi hefði ég borðað miklu meira af honum. Á morgun er svo brunch hjá Ægi og Dagnýju, að öðru leyti ætti dagurinn að vera sársaukalaus en hámarkið verður væntanlega á sunnudag. Þetta er allt fært samviskusamlega til bókar svo það verður fróðlegt að sjá hvaða komment ég fæ við þessari viku.

Annars var voða gaman að fá Árnýju og Hjörvar í heimsókn. Þær strumpurnar býsna kátar saman svo það stefnir í athyglisverða viku í Danmörku. Við Árný lögðum fram pöntum að þeir pabbarnir tækju dæturnar að sér dagpart á meðan við færum í barnafataleiðangur, fyndið að Árný skyldi nefna þetta vegna þess að ég var sjálf farin að bollaleggja svipað, meðal annars að skoða H og M í Århus á Netinu.

Eins var líflegt að fá þá mága mína hingað. Þeir klikka svo sem ekki. Gleðin náði hámarki þegar menn sýndu listir sínar í jóga á stofugólfinu, meðal annars og aðallega í höfuðstöðu. Þvílíkar lipurtær sem þeir eru.

Í gærkvöldi fór ég á kaffihús með Elísu og Jónu. Kannski ekki gríðarlega í frásögur færandi, en það er til marks um í hversu lítilli þjálfun ég er, að ég var ónýt í hálsinum þegar ég kom heim, eftir að sitja í reyk í þrjá tíma. Fyrir utan að þola ekki við án þess að fara í sturtu. Á Amor var leikaraliðið úr Eldað með Elvis, í gríðarlegri sýningarþörf, ekki aðeins þurftu þau að tala hærra og hlæja hærra en allir aðrir gestir heldur þurftu þau líka að spretta úr sætum til að dansa við barinn. Að auki var líklega eitthvað fitness lið, að minnsta kosti nokkrir gestir svo kaffibrúnir að ég fékk nánast húðkrabbamein við að líta á þá!